Torgið við ráðhúsið í Birmingham iðar venjulega af mannlífi.
Torgið við ráðhúsið í Birmingham iðar venjulega af mannlífi. — Wikipedia/Peter Glyn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgin hentar vel þeim sem sækja í iðandi borgarmannlíf en þeir sem kjósa frið og ró geta einnig fundið þar æði margt við sitt hæfi.

Stórborgin London heillar marga sem koma til Englands en minna fer fyrir næstfjölmennustu borginni Birmingham, sem er þó afar lífleg borg sem sannarlega hefur upp á margt að bjóða.

Birmingham er meðal annars heimili Aston Villa, Cadbury-súkkulaðisins, ballettsins og matargerðarlistarinnar.

Birmingham er þekkt fyrir góða veitingastaði, hvort sem um er að ræða Michelin-stjörnustaði, sem eru fjölmargir, eða skyndibita. Þeir sem vilja sjá útsýni yfir Birmingham ættu að heimsækja veitingastaðinn Ovelle sem er á 26 hæð í miðbænum. Maturinn er dásamlegur og útsýnið voldugt.

Fegurð í forgrunni

Iðandi listalíf er í Birmingham. Konunglegi ballettinn er heimsfrægur og afar eftirsóttur víða um heim. Um hver áramót heldur ballettinn til London og sýnir Hnetubrjótinn í The Royal Albert Hall. Ekkert er til sparað til að gera sýninguna sem glæsilegasta og eftirminnilega fyrir áhorfendur, sem eru á öllum aldri, allt frá börnum til ellilífeyrisþega. Ferðalangar í Birmingham ættu að hafa augun opin og leggja upp úr því að sjá sýningar ballettsins í heimaborginni.

Heimsókn í Birmingham Museum ætti að vera ómisssandi. Þegar blaðamaður heimsótti borgina stóðu yfir viðgerðir á safninu en ein álma var opin og það sem þar er boðið upp á er svo gott að engin ástæða var til að kvarta. Þar stendur yfir sýning á verkum for-rafaelítanna. Þar má sjá heimsþekkt verk eftir John Everett Millais, Dante Gabriel Rossetti, William Michael Rossetti, Henry Wallis, Edvard Burne-Jones og William Morris, svo nokkrir séu nefndir. Mest áberandi á sýningunni eru undurfögur málverk af konum en þarna eru ekki einungis málverk heldur einnig teikningar, skartgripir, klæðnaður og vefnaður. Það er varla nokkur ljótur hlutir á þessari sýningu sem laðar að sér gesti enda er fegurðin þar í forgrunni, nokkuð sem nútímamaðurinn þarf sannarlega á að halda. Sýningin stendur að fram í október, en ekki er ólíklegt að hún verði framlengd.

Glæsilegir gluggar

Verk eftir einn af for-rafalítunum, Edvard Burne-Jones, skreyta glugga í hinni mjög svo fallegu dómkirkju Birmingham sem er miðsvæðis í borginni. Það eru ekki síst gluggarnir sem laða að sér gesti en kirkjan er öll fallega skreytt. Það á ekki að vera hægt að heimsækja Birmingham án þess að líta þar við og helst kveikja á kerti. Við kirkjuna er nokkuð stórt svæði með bekkjum og gróðri sem borgarbúar og gestir nýta sér óspart.

Mannlíf og ró

Rétt hjá dómkirkjunni er Grand Hotel sem þeir Birmingham-búar sem greinarhöfundur hitti voru mjög stoltir af, enda er það einkar glæsilegt. Hótelið lokaði árið 2002 en var gert upp og opnaði á ný árið 2021 eftir mikla yfirhalningu. Þar hafa stórstjörnur eins og Tom Cruise dvalið í góðu yfirlæti. Hótelið er í þægilegu göngufæri frá miðbænum sem er hinn líflegasti. Þar er að finna hina gríðarlega stóru verslunarmiðstöð Bullring & Grand Central, sem er tvískipt. Þar eru um 240 verslanir og auðvelt er að eyða heilum degi í að skoða þær. Þeir sem hrífast lítt af slíkum stöðum finna alls kyns verslanir í nágrenninu og sömuleiðis veitingahús. Í Birmingham er síðan stærsta borgarbókasafn í Evrópu og bókaormar munu komast í sæluástand við það eitt að líta það augum.

Í Birmingham er auðvelt að finna garða og græn svæði þar sem þægulegt er að setjast niður og láta fara vel um sig. Borgin hentar vel þeim sem sækja iðandi borgarmannlíf en þeir sem kjósa frið og ró geta einnig fundið þar æði margt við sitt hæfi. Birmingham veldur ekki vonbrigðum. Þeim sem vilja síðan leita eitthvað út fyrir borgina skal bent á að frá Birmingham er stutt að fara til Stratford-upon-Avon, fæðingar- og heimabæjar Shakespeares, um klukkutímaferð með lest. Það er varla hægt að gerast mikið menningarlegri en að heimsækja þennan sögufræga bæ þar sem svo að segja allt minnir á höfuðsnilling bókmenntanna.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir