Spánverjar Lamine Yamal er stórt númer í liðinu. Kappinn verður 17 ára í dag.
Spánverjar Lamine Yamal er stórt númer í liðinu. Kappinn verður 17 ára í dag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Spennan er alltaf mikil fyrir úrslitaleik eins og þennan,“ segir Ásta S. Fjeldsted forstjóri Festar. „Ég er reyndar svo heppin að mér áskotnaðist miði á leikinn svo ég er á leiðinni út til Berlínar um helgina

„Spennan er alltaf mikil fyrir úrslitaleik eins og þennan,“ segir Ásta S. Fjeldsted forstjóri Festar. „Ég er reyndar svo heppin að mér áskotnaðist miði á leikinn svo ég er á leiðinni út til Berlínar um helgina. Mun því mæta á Ólympíuleikvöllinn í Berlín og hvetja Englendinga til dáða en ég spái því að þeir vinni æsispennandi leik með þremur mörkum en Spánverjar skori tvö. En kannski er þetta óskhyggja hjá mér því spænska liðið hefur komið gríðarlega sterkt inn og sýnt mikil tilþrif. Sérstaklega hefur verið gaman að fylgjast með hinum 16 ára gamla Lamine Yamal, sem leikur á kantinum og er ótrúlega hæfileikaríkur. Hann hefur vakið mikla athygli og víða.“

Ásta segist ekki hafa náð því að horfa á alla leiki á EM að undanförnu, enda þótt áhugi sinn á boltanum sé mikill. „En yfirleitt reyni ég að sjá að minnsta kosti síðasta korterið þegar bestu lið allra stærstu þjóðanna mæta á leikvanginn. Það hefur verið gaman að fylgjast með þessu móti.“

„Ég trúi á sigur Englendinga á EM og sú er líka von mín. Alveg síðan ég man eftir mér hef ég haldið með Englandi á stórmótum, kannski vegna þess að enski boltinn hefur alltaf höfðað sterkt til mín,“ segir Steinar Leó Gunnarsson, þjálfari 3. flokks hjá Fylki í Árbænum.

„Lokatölur leiksins á sunnudaginn verða 2 - 1 gangi spá mín eftir; mörk sem ég reikna með að þeir Harry Kane og Jude Bellingham skori. Þetta verður ef að líkum lætur æsispennandi leikur rétt eins og allt Evrópumeistaramótið að þessu sinni hefur verið. Að undanförnu hefur maður þarna séð marga áhugaverða leiki og þar nefni ég sérstaklega viðureign Englendinga og Slóvakíu á dögum. Raunar virðist mér sem EM hafi átt hug allra að undanförnu, slíkt hef ég fundið mjög vel nú að undanförnu á strákunum sem ég er að þjálfa hér í Fylki. Þeir sökkva sér í þetta og fótboltaáhugi þeirra hefur eflst mikið.“

„Hjartað í mér slær aðeins með Englendingum sem verða að leggja sig alla fram eigi þeir að vinna Spánverja. Lið þeirra er afar öflugt, en samt veðja ég á að úrslit leiksins verði 3-2 fyrir England. Úrlsitaleikurinn á sunnudag verður því afar spennandi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. Hann hefur gjarnan sagst hafa verið forfallinn fótboltaaðdáandi og hefur því fylgst vel með EM síðustu vikurnar.

„Margir leikir úrslitakeppninnar hafa verið bráðskemmtilegir. Þó hafa sum lið eins og til dæmis Frakkland verið leiðinlega varkár og ekki boðið upp á beint spennandi bolta. Sama mátti segja um England lengi framan af, en þeir náðu flugi og hafa að undanförnu boðið upp á flottan leik. Þá hafa ýmis lið komið mjög á óvart nú að undanförnu og átt góða spretti, til dæmis lið Sviss og Austurríkis, og þeim hefur verið gaman að fylgjast með.“

„Ég held með Spánverjum og vona svo sannarlega að þeir vinni EM. Þó væri alveg dæmigert að Englendingar færu með sigur af hólmi; myndu ná undirtökum í leikum rétt í blálokin. Komist yfir á 92. mínútu og þar með ráðist úrslitin,” segir Gyða Björk Bergþórsdóttir, formaður Íþróttabandalags Akraness.

„Lamine Yamal, hinn ungi leikmaður Spánverja, hefur svolítið verið stjarna EM að þessu sinni og væntanlega verður mjög til hans horft á næstu árum sem sterkrar fyrirmyndar í knattspyrnunni. Þó eru margir fleiri góðir þarna á ferðinni og Spánn hefur að mínu mati spilað skemmtilegasta fótbolta allra liða á þessu móti. Já, ég hef eins og tök leyfa reynt að fylgjast með EM og ná að minnsta kosti allra helstu leikjum. Auðvitað er í mörgu að snúast í dagsins önn en ég reyni að búa til tíma þegar spennandi leikir eru í sjónvarpinu Þetta hefur verið frábær skemmtun síðustu vikurnar, stórmót sem svo sannarlega verður í minnum haft.“

„Enska landsliðið hefur tvímælalaust seigluna sem þarf og slíkt er mikilvægt nú þegar kemur að úrslitaleiknum við Spánverja. Ég spái Englendingum sigri en þeir hafa í sínum röðum reynslumikla og frábæra leikmenn sem nú, þegar komið er að lokum móts, ná að mynda mjög öfluga liðsheild. Hún mun án nokkurs vafa fleyta þeim langt í baráttunni við annars frábært lið Spánverja,“ segir Björn Einarsson, formaður knattspyrnufélagsins Víkings.

„Á EM að þessu sinni hefur verið mjög gaman að fylgjast með Hollandi sem ég tengi mig sterkt við, eftir að hafa lengi búið þar í landi. Þá hefur líka verið gaman að sjá sterka innkomu Þjóðverja, sem nú eru aftur á réttri leið í alþjóðlegum fótbolta. Þar á stórþjóðin líka tvímælalaust að vera. Í raun hefur EM-mótið allt verið mikið ævintýri og nú í sumar átt hug fólks: fjölskyldu, vinahópa og á vinnustað.“