Kaja Kallas er þekkt fyrir harðlínustefnu gagnvart Rússum.
Kaja Kallas er þekkt fyrir harðlínustefnu gagnvart Rússum. — AFP/Samuel Corum
En það sem mér þótti þó ekki síður ástæða til að staldra við var það sem aðaldiplómat Evrópusambandsins, Kaja Kallas, sagði um stuðning við áframhaldandi stríðsrekstur í Úkraínu.

Úr ólíkum áttum

Ögmundur Jónasson

ogmundur@ogmundur.is

Kaja Kallas forsætisráðherra Eistlands hefur verið valin aðalsamningamaður Evrópusambandsins. Hún er þekkt fyrir harðlínustefnu gagnvart Rússum, vill enga undanlátsemi í Úkraínu, jafnvel þótt það kosti mannfórnir. Vöktu ummæli hennar, eftir að hún hlaut nýfengna upphefð sína í Brussel, talsverða athygli. Hún sagði að ráð væri að búta Rússland sundur í smærri ríki, „það væri ekki slæmur kostur ef þetta stóra ríki yrði gert miklu smærra”.

Þetta var eins og talað úr munni Rand-stofnunarinnar, hugveitu bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, sem talað hefur fyrir því að veikja Rússland með þessum hætti; með því að grafa undan stórríkinu.

Ummælin komu rétt eftir „friðarráðstefnu“, sem svo var kölluð, í Sviss þótt þar væri aðeins sumum boðið, öðrum ekki. Á þessari ráðstefnu voru miklar heitstrengingar, meðal annars af hálfu íslenskra stjórnvalda, um að varðveita bæri óbreytt landamæri ríkja. Ekki hef ég orðið þess var að fundið væri að þeirri mótsögn sem í því er fólgin að lýsa því yfir annars vegar að landamæri séu heilög og hins vegar að rétt sé að búta tiltekið ríki niður í smátt.

En það sem mér þótti þó ekki síður ástæða til að staldra við var það sem aðaldiplómat Evrópusambandsins, Kaja Kallas, sagði um stuðning við áframhaldandi stríðsrekstur í Úkraínu: Ótti dregur úr stuðningi við Úkraínu. Ótti ríkja er mismunandi, ótti við kjarnorkustríð, ótti við stigmögnun styrjaldarátaka, ótti við fólksflutninga. Látum óttann ekki ná tökum á okkur. Það er það sem Pútín helst vill.“

Sú tilhugsun að þarna tali aðalsamningamaður Evrópusambandsins er í mínum huga mjög óþægileg. Ég verð að viðurkenna að ég er einn þeirra sem raunverulega er óttasleginn. En ótti minn beinist ekki einvörðungu í þá átt sem Kaja Kallas vísar, heldur að henni sjálfri og hennar líkum.

Ótti minn beinist að yfirlýsingum um að „koma verði efnahagskerfum Evrópu í stríðsham“ eins og Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þegar hann hvatti NATÓ-ríkin til dáða í mars síðastliðnum; ótti minn beinist að yfirlýsingu Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATÓ frá því fyrir fáeinum dögum um að opnuð yrði stjórnstöð hernaðarbandalagsins fyrir Úkraínustríðið í Wiesbaden í Þýskalandi með sjö hundruð manna starfsliði til að byrja með; ótti minn beinist að því að Úkraínuher hafi verið færð vopn sem þegar hafi verið beitt langt innan landamæra Rússlands til að eyðileggja varnarkerfi Rússa gegn langdrægum kjarnorkuflaugum að vestan; ótti minn beinist að ákvörðun um að senda sveitir NATÓ til þjálfunarstarfa í Úkraínu, nokkuð sem minnir á upphaf Víetnam-stríðsins forðum og er reyndar löngu hafið í Úkraínu og síðast en ekki síst beinist ótti minn að því ótrúlega andvaraleysi fjölmiðla og stjórnmálamanna að rýna ekki í stefnumörkun sem hugveitur Bandaríkjahers byggja á og lúta að því að tryggja heimsyfirráð Bandaríkjanna. Telji menn hér rangt með farið, stigi þeir fram svo að taka megi umræðuna!

Árið 1962 kunnu menn að óttast kjarnorkuvopn, enda innan við tuttugu ár frá því hundruð þúsunda voru drepin með kjarnorkusprengjum í Japan. Krústjoff og Kennedy sammæltust um að falla frá áformum um uppsetningu kjarnorkuflauga á Ítalíu og Tyrklandi annars vegar og Kúbu hins vegar.

Nú vantar hyggindafólk við stjórnvölinn í heiminum. Vandfundnir eru þeir sem þora að taka gagnrýna afstöðu og tala máli friðar. Þeir eru þó til og hef ég séð til þeirra á síðum þessa blaðs, óhræddir við að segja það sem þeim finnst sannast og réttast þótt það sé þvert á hina viðteknu skoðun; ekki beinlínis tengdir pólitískum málstað, nema þá helst málstað sem var að finna hjá manni sem negldur var á kross fyrir tvö þúsund árum.

Megi fleiri slíkir stíga fram.

Um hitt ætla ég að vera sammála Kaju Kallas, að það kunni að vera góð hugmynd að búta stórveldin niður í miklu smærri einingar. Ekki að hætti Rand-stofnunarinnar sem vill greiða götu alþjóðaauðvaldsins til að komast yfir auðlindir Rússlands heldur til að stuðla að margbreytileika í heimsmenningunni og koma á heimsskipan án heimsvelda. Sá heimur kynni um margt að vera betri þar sem Kína væri mörg ríki en ekki eitt, Indland að sama skapi, Rússland, Tyrkland, Íran, Írak, Brasilía og Bandaríkin. Fimmtíu bandaríki væru betri en ein Bandaríki sem vilja nú ein ráða heiminum öllum.

Ég legg það til við Kaju Kallas að hún tali ótrauð fyrir hugmynd sinni um smækkun stórra ríkja en að hún tali fyrir því að byrjað verði á BNA, Bandaríkjum Norður-Ameríku.