Umfjöllun Ýtarlega var fjallað um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Morgunblaðinu eftir að hann féll.
Umfjöllun Ýtarlega var fjallað um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Morgunblaðinu eftir að hann féll.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðm. Sv. Hermannsson gummi@mbl.is

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg kvað í júní árið 1992 í fyrsta skipti upp dóm í máli sem höfðað var fyrir dómstólnum gegn íslenska ríkinu. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn ákvæðum 10. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi þegar Þorgeir Þorgeirson rithöfundur var dæmdur, fyrst í sakadómi og síðan Hæstarétti, fyrir meiðyrði í garð íslensku lögreglunnar.

Upphaf málsins var að Þorgeir skrifaði tvær greinar í Morgunblaðið í desember 1983 þar sem hann hvatti m.a. Jón Helgason þáverandi dómsmálaráðherra til að skipa óháða rannsóknarnefnd til að „kanna í botn hver fótur er fyrir því almenningsáliti sem óneitanlega er staðreynd, að hrottaskapur Reykjavíkurlögreglunnar færist óðum í vöxt og sé með óeðlilegum hætti verndaður. Þessi nefnd gæti auglýst eftir fórnardýrum lögreglunnar og safnað frásögnum þeirra og sannprófað í mörgum tilvikum, komist þá væntanlega að niðurstöðu um það hvort hér sé ekki um að ræða tiltölulega fáa einstaklinga sem ráðleggja mætti að fá sér annan starfa.“ Þorgeir vísaði m.a. í greininni til Skaftamálsins svonefnda, sem vakið hafði mikla athygli, og fleiri mála sem hann sagðist hafa upplýsingar um.

Lögmaður Lögreglufélags Reykjavíkur skrifaði í kjölfarið ríkissaksóknara bréf og fór fram á að fram færi opinber rannsókn á greinunum. Sagði í bréfinu að í báðum greinunum kæmi fram grófur áburður, dylgjur og ærumeiðandi aðdróttanir í garð lögreglumanna. „Alvarlegasti áburður greinarhöfundar væri sá að ungur maður hafi slasast svo af völdum lögreglu að hann hafi hlotið af mikla og varanlega örorku,“ sagði enn fremur í bréfi lögmannsins.

Ríkari æruvernd

Hin opinbera rannsókn fór fram og leiddi til þess að ríkissaksóknari gaf út ákæru þar sem krafist var refsingar yfir Þorgeiri fyrir brot á þágildandi 108. grein almennra hegningarlaga sem veitti opinberum starfsmönnum ríkari æruvernd en öðrum. Lagagreinin hafði á þessum árum sætt gagnrýni, m.a. frá blaðamönnum og rithöfundum en hún kvað á um að hver sá sem hefði í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann væri að gegna skyldustarfi sínu eða við hann, eða um hann út af því, skuli sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. „Aðdróttun, þótt sönnuð sé, varði sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt,“ sagði síðan í lagagreininni.

Á grundvelli þessar ákæru var Þorgeir Þorgeirson sakfelldur var fyrir meiðyrði um ótilgreinda lögreglumenn í Reykjavík og þar með brot á 108. grein hegningarlaga. Var Þorgeir dæmdur til að greiða 10 þúsund króna sekt með dómi sakadóms Reykjavíkur í júní 1986 og Hæstaréttur staðfesti þann dóm í október 1987. Þessi sekt jafngildir rúmum 70 þúsund krónum nú, samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar.

Flutti málið sjálfur

Þorgeir skaut málinu til Mannréttindanefndar Evrópu og taldi dóminn brjóta gegn mannréttindasáttmálanum í fjórum atriðum. Nefndin hafnaði sumum málsátæðum Þorgeirs en féllst á að bera undir Mannréttindadómstól Evrópu hvort mál Þorgeir hefði hlotið meðferð fyrir óháðum óhlutdrægum dómstóli og einnig hvort brotið hefði verið gegn ákvæðum 10. greinar mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi.

Málið var flutt fyrir dómstólnum árið 1990 og flutti Þorgeir mál sitt sjálfur en Tómas Gunnarsson lögmaður var meðflutningsmaður. Dómurinn var síðan kveðinn upp 25. júní árið 1992 og var niðurstaðan sú, að brotin hefðu verið ákvæði 10. greinar mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi með dómi Hæstaréttar Íslands yfir Þorgeiri. Átta dómarar mannréttindadómstólsins komust að þessari niðurstöðu en sá níundi, Garðar Gíslason hæstaréttardómari, sem sat í dóminum í málinu, taldi dóminn ekki stangast á við mannréttindasáttmálann.

Í Morgunblaðinu daginn eftir var fjallað ýtarlega um dóminn. Þar kemur m.a. fram, að í niðurstöðum dómsins sé rakið að í blaðagreinum þeim sem málið reis út af hafi Þorgeir, auk þess að fjalla um mál þar sem um hafi verið að ræða að mati dómsins óumdeilt lögregluofbeldi (Skaftamálið, svokallaða), einkum greint frá því sem aðrir hafi sagt um lögregluofbeldi. Með því að dæma hann meðal annars fyrir að hafa ekki getað fært sönnur á staðhæfingar sem fram komu í greininni, hafi verið gerðar til Þorgeirs kröfur sem honum hafi verið ómögulegt að rísa undir.

Dómstóllinn leit svo á að Þorgeiri hafi ekki gengið það til með skrifum sínum að sverta orðspor lögreglunnar heldur hafi hann viljað koma á framfæri óskum um að ásakanir um lögregluofbeldi yrðu teknar til sjálfstæðrar og óháðrar rannsóknar. Í greinunum hafi því verið fjallað um mál sem skipti almenning miklu og þegar fyrrgreindur tilgangur sé hafður í huga verði ekki litið svo að orðaval Þorgeirs sé utan eðlilegra marka.

Þá sagði í dóminum, að mannréttindadómstóllinn líti svo á að tjáningarfrelsi sé ein grundvallarstoð lýðfrjálsra þjóðfélaga og það þjóni ekki aðeins þeim tilgangi að auðvelda miðlun upplýsinga og hugmynda um mál sem séu vinsæl og móðgi engan heldur einnig um mál sem valdi móðgun, hneykslun og röskun. Þær skorður sem 10. grein mannréttindasáttmálans setji við tjáningarfrelsi beri að túlka þröngt og færa þurfi gild rök fyrir öllum takmörkunum.

Þar sem Þorgeir hafi tjáð skoðanir sínar í grein í dagblaði beri í þessu sambandi að huga að hinu mikilvæga hlutverki dagblaða (press) í réttarríki. Þótt dagblöð megi ekki ganga út fyrir þau mörk sem meðal annars séu sett til að vernda mannorð annarra beri þeim engu að síður skylda til að birta upplýsingar og hugmyndir um málefni sem almenning varðar. Og ekki aðeins beri dagblöðum til þess skylda heldur eigi almenningur einnig rétt á aðgangi að slíkum upplýsingum og hugmyndum. Að öðrum kosti yrði blöðum gert ókleift að sinna hinu mikilvæga hlutverki „varðhunds almennings“.

Mannréttindadómstóllinn dæmdi Þorgeiri 530 þúsund krónur úr ríkissjóði, um 2 milljónir króna á núvirði, vegna kostnaðar hans við rekstur málsins. Hins vegar var hafnað kröfu um 2 milljóna bætur vegna tekjumissis sem Þorgeir taldi hafa leitt af breyttri stöðu sinni sem rithöfundar gagnvart útgefendum og markaðinum hér á landi í kjölfar málsins.

Lagagreinin felld niður

Þorgeir sagði við Morgunblaðið að sér þætti þetta góður dómur og hann vonaðist til að þessi niðurstaða leiddi til þess að 108. grein almennra hegningarlaga yrði breytt eða hún felld niður.

„Mín ósk hefur lengi verið sú, því ég tel þessa grein óeðlilega. En jafnvel þótt svo verði ekki gert, þá sýnist mér að Hæstiréttur muni þurfa í framtíðinni að fara varlegar en hingað til í að túlka hana; að þetta sé áminning um það að almenn mannréttindi eigi sinn rétt líka gagnvart þessari grein. Ef þetta er einhver áminning til Hæstaréttar þá er það áminning um það að þeir hafi túlkað þessa lagagrein of þröngt gagnvart tjáningarfrelsisákvæðum mannréttindasáttmála og stjórnarskrár.“

Og Þorgeiri varð að ósk sinni. Þorsteinn Pálsson, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði í kjölfarið nefnd þriggja sérfræðinga sem var falið að skila áliti fyrir haustið um það hvernig íslenskum stjórnvöldum beri að bregðast við dómi mannréttindadómstólsins í máli Þorgeirs þar á meðal hvort breyta bæri 108. grein almennra hegningarlaga. Á grundvelli álits nefndarinnar var lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um að fella skyldi lagagreinina brott og það frumvarp var samþykkt 25. febrúar 1995 með 57 samhljóða atkvæðum. Áður hafði Alþingi samþykkt að lögfesta mannréttindasáttmálann og síðar sama ár var endurskoðaður mannréttindakafli stjórnarskrárinnar samþykktur á Alþingi.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson