[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lestur hefur alltaf verið mitt helsta áhugamál en ég les yfirleitt eina eða tvær bækur á viku. Þá þykir mér fátt betra en að liggja í heitu freyðibaði með góða bók í hönd. Þessa stundina er ég að lesa glæpasöguna Svikalogn eftir Viveca Sten

Lestur hefur alltaf verið mitt helsta áhugamál en ég les yfirleitt eina eða tvær bækur á viku. Þá

þykir mér fátt betra en að liggja í heitu freyðibaði með góða bók í hönd.

Þessa stundina er ég að lesa glæpasöguna Svikalogn eftir Viveca Sten. Bókin gerist á sænsku eyjunni Sandhamn í skerjagarðinum og hefst á því að sjórekið lík finnst á strönd. Upphaflega er talið að um slys hafi verið að ræða en þegar frænka fórnarlambsins finnst myrt nokkrum dögum síðar hefst ítarleg rannsókn. Eyjan er mjög fámenn og friðsæl og vekja því morðin sérstaklega mikinn óhug meðal samfélagsins. Ástæða þess að ég ákvað að lesa bókina er að í ágúst mun ég fara í ferðalag til Sandhamn með mömmu minni en hún er mikill aðdáandi bóka Viveca Sten.

Sú bók sem ég las síðast er Týnda systirin eftir Lucinda Riley. Þetta er næstsíðasta bókin í átta bóka seríu hennar um systurnar sjö. Serían hefur notið mikilla vinsælda á Íslandi undanfarið og ekki að ástæðulausu. Bækurnar eru hugljúfar, spennandi og vel skrifaðar. Þær fjalla um systur sem eru ættleiddar af svissneskum auðkýfingi en í hverri bók leitar ein systir uppruna síns. Bækurnar taka mann um allan heim og stór hluti þeirra allra fjallar um ættingja systranna í fortíðinni.

Fyrir nokkrum vikum las ég bókina Hús úr húsi eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Hingað til er ég búin að lesa 37 bækur á árinu en Hús úr húsi er sú eina af þeim sem ég gef fimm stjörnur.

Hún er gríðarlega vel skrifuð og tekst á við ýmsar flóknar tilfinningar sem tengjast fjölskyldusamböndum, uppeldi og tilvistarkreppu sem barnlaus og ógift kona. Margt kemur á óvart og þá sérstaklega atvik og tengsl sem koma í ljós í lok bókarinnar.

Önnur íslensk bók sem ég las nýlega er ljóðabókin Örverpi eftir Birnu Stefánsdóttur. Bókin kom út síðastliðið haust en fyrir hana hlaut Birna Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Bókin er stutt og hvert ljóð oftast aðeins nokkur orð. Mér finnst Birnu takast listilega vel að segja mikið í fáum orðum og hún nær að vekja mann til umhugsunar um þung málefni.

Kamilla Kjerúlf er lögfræðingur og starfar sem saksóknarfulltrúi á ákærusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.