[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði sitt 11. mark fyrir íslenska landsliðið í sínum 39. A-landsleik gegn Þýskalandi í gærkvöld. Hún jafnaði þar við fyrirliðann Glódísi Perlu Viggósdóttur sem hefur skorað 11 mörk í 127 landsleikjum

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði sitt 11. mark fyrir íslenska landsliðið í sínum 39. A-landsleik gegn Þýskalandi í gærkvöld. Hún jafnaði þar við fyrirliðann Glódísi Perlu Viggósdóttur sem hefur skorað 11 mörk í 127 landsleikjum. Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði sitt fyrsta mark í 64 landsleikjum og Alexandra Jóhannsdóttir sitt sjötta mark í 46 landsleikjum.

Ísland er ein af fimm þjóðum úr A-deild undankeppni EM kvenna í fótbolta sem hafa tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í Sviss á næsta ári. Þýskaland og Spánn voru þegar komin áfram fyrir leiki fimmtu umferðar riðlakeppninnar í gær og Ísland, Danmörk og Frakkland bættust í hópinn. Frakkar unnu Svía, 2:1, þar sem Marie-Antoinette Katoto skoraði sigurmarkið.

Svíþjóð og England mætast í hreinum úrslitaleik um sæti á EM á þriðjudag en Holland, Noregur, Ítalía og Finnland eru í fjögurra liða slag um tvö EM-sæti. Þau lið A-deildar sem ekki komast beint á EM fara í umspil með efstu liðum B- og C-deildar í haust en þar verður leikið um síðustu sjö sætin í Sviss. Gestgjafarnir, Svisslendingar, eru efstir í sínum riðli B-deildar en eiga frátekið sæti í lokakeppninni.

Guðlaug Edda Hannesdóttir og Hákon Þór Svavarsson hafa verið valin fánaberar Íslands á setningarhátíð Ólympíuleikanna í París þann 26. júlí. Þau keppa bæði á sínum fyrstu Ólympíuleikum, Guðlaug Edda í þríþraut og Hákon í leirdúfuskotfimi með haglabyssu.

Darko Bulatovic, 34 ára knattspyrnumaður frá Svartfjallalandi, er kominn til liðs við KA-menn á ný eftir sjö ára fjarveru. Hann lék með KA-mönnum í efstu deild árið 2017 og skoraði þá eitt mark í átján leikjum en hann er bakvörður og á að koma í stað Birgis Baldvinssonar sem er á leið í nám erlendis. Darko lék síðast með Sutjeska Niksic í heimalandi sínu en hefur einnig spilað í Kasakstan, Albaníu og Serbíu eftir að hann kvaddi KA.

Alyssa Cerino, kanadísk körfuknattleikskona með ítalskt vegabréf, er gengin til lið við Val. Hún er 1,84 m hár framherji, 27 ára gömul, og lék með Scrivia í ítölsku B-deildinni síðasta vetur en þar skoraði hún 14 stig og tók 13 fráköst að meðaltali í leik.

Haukar hafa fengið til liðs við sig bandaríska körfuknattleiksmanninn Tyson Jolly fyrir næsta tímabil. Hann er 26 ára bakvörður og kemur frá franska C-deildarliðinu Avignon/Pontet en spilaði áður með háskólaliði Iona í Bandaríkjunum.

Serbinn Novak Djokovic leikur á morgun sinn tíunda úrslitaleik á Wimbledon-mótinu í tennis í London. Hann vann Lorenzo Musetti frá Ítalíu í undanúrslitum í gærkvöld, 6:4, 7:6, 6:4, og mætir Carlos Alcaraz frá Spáni sem vann Rússann Daniil Medvedev 6:7, 6:3, 6:4 og 6:4. Alcaraz vann einmitt Djokovic í úrslitaleik mótsins fyrir ári síðan. Í úrslitaleiknum í kvennaflokki í dag mætast Jasmine Paolini frá Ítalíu og Barbora Krejcikova frá Tékklandi.