„Mistökin þá og nú er hroki samtímans hverju sinni, vissan um að menn viti betur en allir aðrir. Þá verða menn glámskyggnir.“
„Mistökin þá og nú er hroki samtímans hverju sinni, vissan um að menn viti betur en allir aðrir. Þá verða menn glámskyggnir.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Maður sér að efnishyggjan hefur tekið yfir, það vantar hina andlegu vídd í það sem byggt er í dag.

Pétur H. Ármannsson arkitekt hefur verið sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála hjá Minjastofnun Íslands frá 2013. Hann er manna fróðastur um íslenskan arkitektúr, hefur skrifað um hann og sent frá sér bækur. Hann hlaut árið 2014 menningarverðlaun DV í byggingarlist fyrir bók um Manfreð Vilhjálmsson ásamt Halldóru Arnardóttur og fékk viðurkenningu Hagþenkis fyrir bók sína um Guðjón Samúelsson árið 2020.

Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2021 fyrir rannsóknir á sögu byggingarlistar á Íslandi og miðlun þekkingar á því sviði. Hann er heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands.

Spurður hvort áhuga hans á arkitektúr og húsbyggingum megi rekja til umhverfis í æsku segir Pétur: „Ég er örverpi fullorðinna foreldra. Móðurafi minn var bóndi á Eyvindarstöðum á Álftanesi og foreldrar mínir byggðu hús þar á landi jarðarinnar. Á Álftanesi var ýmislegt sem vakti forvitni mína og kannski ekki síst að fjórir arkitektar bjuggu í þessu litla sveitarsamfélagi innan um bændur og grásleppukarla. Fjórir af kunnustu arkitektum þjóðarinnar: Hannes Davíðsson, Gunnlaugur Halldórsson, Manfreð Vilhjálmsson og Guðmundur Kr. Kristinsson.

Erla Sigurjónsdóttir, kona Manfreðs, var kennari minn í barnaskóla. Hún bauð okkur krökkunum einhvern tímann heim í húsið sem Manfreð teiknaði, sem var og er mjög framúrstefnulegt hús. Ég heillaðist mjög af þessu húsi og líka heimili Guðmundar við hliðina en teikningin af húsunum tveimur var samvinnuverkefni þeirra Manfreðs. Þannig að mjög snemma fékk ég áhuga á húsum. Mér fannst þessi nýi framsækni arkitektúr mjög spennandi og dreymdi um að búa í slíku húsi. Ég uppgötvaði líka snemma bækur um arkitektúr sem ég hreifst af.“

Lastu mikið á æskuárum?

„Foreldrar mínir áttu gott bókasafn, þannig að það varð eðlilegur hluti af því að vaxa upp að lesa bækur og ég gerði mikið af því.

Bókaröðin Aldirnar okkar ýtti mjög undir söguáhuga minn, ég kunni þær nánast utan bókar. Þannig lærði ég söguna á frábæran hátt. Ég tengi vel við Dægradvöl af því að Benedikt Gröndal átti sömu bernskuslóðir á Eyvindarstöðum og nefnir þar hluti og örnefni sem ég kannast mjög vel við. Bessastaðir voru í nágrenni við heimili mitt. Ég átti vini sem bjuggu þar í forsetatíð Kristjáns Eldjárns, og kom þar inn í öll hús sem voru eins og ævintýraheimur.

Áhugi á nýjum arkitektúr og jafnframt áhugi á eldri arkitektúr og sögunni varð til þess að ég ákvað strax í gagnfræðaskóla að læra arkitektúr og fór í Menntaskólann í Reykjavík og þar var byggingarlistaráfangi sem ég hafði mjög gaman af.“

Sagan mikilvægasta byggingarefnið

Pétur hefur að hluta til helgað sig sagnfræði arkitektúrsins. „Það var aldrei beint ætlunin en ég rataði inn á þær brautir,“ segir hann. „Ég lærði arkitektúr við Toronto-háskóla í Kanada og þar voru framúrskarandi sögukennarar þannig að ég fékk meiri áhuga á þeirri hlið fagsins en því tæknilega. Svo fór ég í framhaldsnám við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum og þar bætti ég við söguvinkilinn og arkitektúrfræðin.

Í háskólum verða textar og umræður um listir og arkitektúr oft of fræðilegar. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ef maður ætlaði að miðla arkitektúr til breiðara hóps þá þyrfti að nota aðrar aðferðir en háfleyga háskólaumræðu.“

Eftir nám kom Pétur heim og á árunum 1993-2008 var hann deildarstjóri byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur. „Þessi deild var stofnuð til að sýna hönnun og arkitektúr til hliðar við myndlist. Þetta var í fyrsta sinn sem íslensk menningarstofnun tók það upp á sína arma að sýna og miðla byggingarlistarsögu. Þetta fannst mér mjög spennandi hugmynd og tíminn í starfinu var skemmtilegur.“

Hver eru helstu mistökin sem gerð eru í byggingarsögu?

„Mistökin á öllum tímabilum felast í því að gefa ekki gaum að sögunni og því sem fyrir er. Húsbyggingar eru í rauninni reynsluvísindi og byggjast á aldagömlum þekkingargrunni. Þannig hafa byggingarstílar þróast frá kynslóð til kynslóðar. Þannig þróaðist klassísk byggingarlist frá tímum Grikkja og Rómverja og allt fram á 20. öld. Menn voru alltaf að byggja eitthvað, skoða það, betrumbæta og læra af því sem áður var gert. Svo breytast forsendur og nýjar hugmyndir koma fram. Mistökin þá og nú er hroki samtímans hverju sinni, vissan um að menn viti betur en allir aðrir. Þá verða menn glámskyggnir.

Ég segi oft við nemendur mína í Listaháskólanum: Sagan er mikilvægasta byggingarefnið ykkar, ekki síður en timbur og steinsteypa. Allt sem þið gerið er í einhverju samhengi, framhald af sögu sem aðrir hafa byrjað að skrifa. Þið fáið tækifæri til að bæta við blaðsíðum í þá sögu og þið verðið að vanda ykkur. Þið þurfið að vita hvað kom á undan og þá verður það sem þið bætið við hugsanlega metið af næstu kynslóðum. Mér finnst það alltaf veikleiki ef menn þykjast vita betur en sagan segir okkur.“

Brotakennd bæjarmynd

Erum við nógu dugleg við að halda í það gamla í húsbyggingum?

„Það gildir um öll hús að það á að virða þeirra upphaflegu gerð og þá skiptir engu máli hvort það er hús eftir Sigvalda Thordarson frá 1960 eða gamalt timburhús.

Það var lengi þannig að Íslendingar trúðu því ekki að þeir ættu merkilega sögu á sviði húsagerðar. Svo komu brautryðjendur eins og Hörður Ágústsson, sem með greinum sínum í Birtingi á sjötta áratugnum fór að vekja athygli Íslendinga á því að þeir eiga fleira en bókmenntir, þeir eiga líka merka sjónlistasögu og bendir á gömlu húsin. Hann talaði af mikilli virðingu um húsin sem Danir byggðu hérna sem höfðu ekki átt upp á pallborðið í sjálfstæðisbaráttunni, sagði þetta stórmerkileg hús sem við ættum að hugsa vel um. Hans hugsjón var að breyta viðhorfi þjóðarinnar til síns byggingararfs.

Ef maður ber Reykjavík saman við borgir Mið-Evrópu og Miðjarðarhafsins þá er ljóst að okkar byggingarsaga er allt annars eðlis. Þess vegna gæti einhver sagt að hún væri fátækari en það þýðir ekki að hún sé ómerkileg eða ómerk. Þar skiptir hugarfar máli. Eins og Þórbergur Þórðarson sagði forðum: Húsin segja sannleikann um fólkið. Það er alltaf ástæða fyrir því að hús eru eins og þau eru og þau endurspegla lífsbaráttu fólks, drauma og væntingar, vald og metnað. Það er allt mögulegt sem við getum lesið út úr húsum. Við þurfum að vinna með það sem við eigum og gera það á skapandi hátt.

Reykjavík er nokkuð sérstök borg vegna þess að hún er í grunninn lítill timburhúsabær, hér bjuggu 5.000 manns um aldamótin 1900. Á þriðja áratugnum byrja menn að byggja Reykjavík upp eins og norrænar borgir með fjögurra hæða stórhýsum í miðbænum og þá var hugmynd manna að leifarnar af timburhúsabænum myndu víkja. Þessi draumsýn gekk ekki eftir nema að litlum hluta.

Svo kom sjöundi áratugurinn. Unga kynslóðin verður gagnrýnin á nútímavæðingu borgarinnar, málar Bernhöftstorfuna og berst fyrir húsvernd. Heil kynslóð arkitekta ber þá hreyfingu áfram. Nú er staðan þannig að öll gömlu timburhúsin í miðbænum njóta verndar. Fyrir vikið er borgarmynd Reykjavíkur brotakennd. Finnski arkitektinn Alvar Aalto sagðist aldrei hafa komið í borg sem væri jafn sundurleit. Einmitt það hafa menn gjarnan séð sem stóran vanda. Ég gerði það líka á ákveðnu tímabili en einn góðan veðurdag fór ég að horfa öðruvísi á þetta og komst að þeirri niðurstöðu að kannski væri hin brotakennda bæjarmynd ekki vandamál heldur sérkenni Reykjavíkur. Það er hægt að vinna á skapandi hátt með þessar andstæður.

Í gömlu Þingholtunum og Skólavörðuholtinu er þessi mannlegi mælikvarði einkennandi og hann er lykilatriði. Ef við glötum honum þá höfum við misst mikið. Þótt miklu hafi verið kostað til við nýju húsin við gömlu höfnina og norðurströnd Reykjavíkur þá finnur maður þar ekki hinn smágerða, mannlega skala. Það er miður.

Þegar byrjað var að skipuleggja Reykjavík um og eftir 1920 þá var byggt á húmanískri hugmyndafræði um að borgin ætti að vera listræn heild en jafnframt ætti að huga vel að lýðheilsusjónarmiðum. Íbúðir áttu að njóta sólar, það áttu að vera opin græn svæði og hugsað var fyrir því að götumyndir væru samræmdar og fallegar. Opinberar byggingar áttu að blasa við fyrir enda á götum eins og Kristskirkja og Hallgrímskirkja eru dæmi um. Menn vildu gjarnan ganga lengra í því en það tókst ekki alltaf eins og til dæmis með Þjóðleikhúsið þar sem Guðjón Samúelsson fékk ekki að ráða því hvar húsið væri staðsett. Þótt fallegt sé í núverandi mynd þá hefði það notið sín betur við torg eða fyrir enda götu. En Reykjavík var fátæk og menn höfðu ekki ráð á því að kaupa lóðir og rífa hverfi einungis í fagurfræðilegum tilgangi.

Það er undir okkur komið að horfa á það sem við eigum með skapandi og jákvæðu hugarfari.“

Demantur í borgarmynd

Hvaða hús í Reykjavík þykja þér áberandi falleg?

„Ég get eflaust nefnt góða fulltrúa frá einstökum tímabilum. Safnahúsið við Hverfisgötu er einstaklega falleg bygging sem og Þjóðleikhúsið, meistaraverk Guðjóns Samúelssonar. Mér finnst hafa tekist vel til með nýbyggingu Hæstaréttar við hlið þessara tveggja bygginga. Þar nálguðust arkitektarnir Margrét og Steve verkefni sitt af virðingu fyrir því umhverfi sem þau voru að teikna nýja byggingu í. Þau höfðu hana hófstillta og þeim tókst að setja hana á þennan viðkvæma stað þannig að hún bætir við umhverfið en rýrir það ekki.

Undantekningarlaust er það þannig með byggingar, sérstaklega opinberar byggingar, að þær eru alltaf umdeildar í byrjun. Það hefur sennilega ekki verið talað verr um nokkurn mann á Íslandi en Guðjón Samúelsson þegar byggingar hans voru að rísa. Menn tættu hann í sig. Þeir sem gagnrýna nýbyggingar í dag og dásama Guðjón ættu kannski að lesa það sem var skrifað um hann, það var ekki allt fallegt. Háskólabygging hans var þó tiltölulega óumdeild, var þjóðarstolt þegar hún var vígð árið 1940.

Kjarvalsstaðir eru önnur bygging sem var umdeild í byrjun en hefur sannað gildi sitt sem tímalaus arkitektúr og ómissandi hluti af Reykjavík og menningarlífinu.“

Hvað með ýmsar nýbyggingar, hefurðu skoðun á þeim?

„Ég er stundum beðinn um álit á nýjum byggingum í tengslum við vígslu þeirra en þá segi ég alltaf að það sé ekki tímabært, ég verði að lifa með viðkomandi byggingu í fimm ár áður en ég segi álit mitt. Ég sagði þetta til dæmis þegar ég var beðinn um álit á Hörpu.“

Nú eru fimm árin löngu liðin. Hvernig finnst þér Harpa?

„Þar eru veikleikar og styrkleikar. Styrkleikar eru að hún er opin almenningi á öllum tímum en það upplifir maður ekki endilega í tónleika- og ráðstefnuhöllum erlendis. Tónleikasalurinn hefur tekist gríðarlega vel og það var fyrir mestu. Harpa er falleg í borgarmyndinni, glerið og ljóslistaverkið gera hana að demanti í borgarmyndinni, ekki síst í skammdeginu.

Það sem mér finnst hafa tekist miður er að almenningsrýmin í húsinu hefðu mátt njóta útsýnis yfir höfnina í meira mæli. Flæðið í húsinu er ekki nógu gott, menn týnast á mismunandi hæðum og í lokin troðast allir niður sama stigann. Stigahönnunin í Hörpu er skelfileg.“

Spurður um eigin arkitektúr segir Pétur: „Ég fór snemma inn á þá braut að skrifa bækur og stýra sýningum og reyna að miðla sögunni. Einhvern veginn tók það yfir. Inn á milli hef ég unnið á teiknistofum og tekið þátt í að skapa byggingar með öðrum arkitektum en hef minna teiknað á eigin vegum, mest frístundahús og önnur smærri verkefni fyrir vini og kunningja.“

Andlegt tómarúm

Pétur hefur ferðast mikið um landið og fer reglulega með fólk í borgargöngur í Reykjavík og nágrenni. „Á yngri árum fór ég mikið með Ferðafélagi Íslands á Hornstrandir. Ég varð heillaður af þessum eyðibyggðum og lífinu sem þarna var. Fyrir tuttugu árum bað Ferðafélagið mig að taka að mér borgargöngur að vetri til, fara í mismunandi hverfi og veita fólki nýja sýn á þau. Ég hef verið með eina ferð á ári á höfuðborgarsvæðinu.

Reynsla mín segir að besta leiðin til að opna augu fólks fyrir byggingarlist sé að benda því á eitthvað óvænt og nýtt í umhverfi sem það þekkir vel. Einhvern tímann var ég að ganga Fjölnisveginn og var að útskýra af hverju gatan væri sveigð. Í lok göngunnar kom til mín kona sem hafði búið við þessa götu alla ævi og sagði: Nú sé ég götuna mína í alveg nýju ljósi.“

Af hverju er Fjölnisvegurinn sveigður?

„Það var hugmyndafræði garðborganna í kringum aldamótin 1900 að gata sem væri örlítið sveigð væri miklu fallegri en bein gata því húsaröð lokar göturýminu á mildan hátt. Svo var annað atriði í þessu hverfi, sem Guðjón Samúelsson og Guðmundur Hannesson eiga heiðurinn af, og það er að húsunum er raðað á lóðirnar með tilliti til sólaráttar, þannig að garður er sólarmegin við öll hús. Þess vegna eru húsin alveg upp við götuna öðrum megin en hinum megin eru tré og gróður. Þarna er þessi fallega blanda af grænu og byggðu. Fjölnisvegur er ein fallegasta gata í Reykjavík, ásamt Sjafnargötu, sem hefur einnig þessi einkenni. Þetta er afrakstur af hugmyndafræði sem þessir aldamótamenn höfðu og kynntu til sögunnar. Þeir byggðu á húmanisma sem var ríkjandi fyrir fyrri heimsstyrjöld meðan allt lék í lyndi og menn trúðu á dásamlega bjarta framtíð mannkynsins.“

Er húmanisminn farinn út úr arkitektúrnum?

„Mér finnst það, því miður. Maður sér að efnishyggjan hefur tekið yfir, það vantar hina andlegu vídd í það sem byggt er í dag. Helsta viðfangsefni arkitekta í gegnum aldirnar var að teikna byggingar sem á einhvern hátt endurspegluðu táknfræði og háleitar hugmyndir, drauma um betri heim. Nú á tímum fá arkitektar sjaldan tækifæri til að teikna nýjar kirkjur. Verk þeirra eru mestmegnis veraldleg hús, bankahallir, hótel, leikvangar og fínar villur. Hugsjón módernismans á 3. og 4. áratug 20. aldar um að byggja hagkvæmt og fallegt íbúðarhúsnæði fyrir allan almenning hefur líka gefið eftir. Það er áskorun að teikna byggingu sem á að túlka eitthvað andlegt og huglægt. Á fyrstu áratugum síðustu aldar var meiri virðing borin fyrir því huglæga og listræna í samfélaginu. Í staðinn hefur komið andlegt tómarúm á mörgum sviðum og mér finnst það birtast í byggingarlistinni. Það er áskorun fyrir okkur að taka okkur á í þeim efnum.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir