Parísarhjólið Aðsókn heimamanna hefur verið undir væntingum eigandans en hann kveðst þó vera rólegur. Margir virðist telja borgina vera að bruðla.
Parísarhjólið Aðsókn heimamanna hefur verið undir væntingum eigandans en hann kveðst þó vera rólegur. Margir virðist telja borgina vera að bruðla. — Morgunblaðið/Eyþór
„Parísarhjólið hefur verið vinsælt meðal ferðamanna og þeir heimamenn sem hafa komið hafa notið þess. Þeir mættu þó alveg vera fleiri,“ segir Kane Taylor, eigandi Taylors Tivoli Iceland ehf., sem á og rekur parísarhjólið sem sett hefur verið upp við Reykjavíkurhöfn

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Parísarhjólið hefur verið vinsælt meðal ferðamanna og þeir heimamenn sem hafa komið hafa notið þess. Þeir mættu þó alveg vera fleiri,“ segir Kane Taylor, eigandi Taylors Tivoli Iceland ehf., sem á og rekur parísarhjólið sem sett hefur verið upp við Reykjavíkurhöfn.

Ekki hefur verið mikil sjáanleg umferð við hjólið það sem af er sumri og Kane játar það fúslega að hann hefði kosið að fá fleiri gesti. Hann kveðst ekki vera með aðsóknartölur á reiðum höndum en þær séu þó nærri þeim væntingum sem lagt var upp með. „Þær mættu alveg vera tvöfalt hærri,“ segir Kane í léttum tón. Hann segir að staðan verði metin í lok sumars. Enn sé von til að þess að aðsóknin glæðist en það gæti þó ráðist af veðri. Þannig hafi nýliðin vika til að mynda verið afar róleg enda rok og rigning flesta daga.

Aðspurður segir Kane að hann hafi gert eitt og annað til að höfða til heimamanna. Þannig sé hægt að fá miða á lægra verði ef þeir eru keyptir í gegnum vefsíðu fyrirtækisins og boðið hafi verið upp á tvo fyrir einn í gegnum símafélagið Nova. Neikvætt umtal hafi hins vegar skemmt fyrir.

Kane segir að misskilnings virðist gæta meðal heimamanna um að Reykjavíkurborg sé að bruðla með því að setja upp parísarhjól við höfnina í sumar. Hann rekur sögu af því þegar hann fór á verkstæði til að sækja varahlut við uppsetningu hjólsins. Þá var hann spurður hversu mikið parísarhjólið kostaði. Hann misskildi viðkomandi og sagði að miðaverðið væri 3.000 krónur. Sá ítrekaði þá spurninguna sem var um það hvað sjálft parísarhjólið kostaði. Kane tjáði honum þá að hjólið kostaði um 1,4 milljónir evra, sem eru rúmlega 200 milljónir króna. Maðurinn brást hinn versti við og sagði borgina ekki geta sinnt viðhaldi vega en gæti leyft sér munað sem þennan. „Það kom svolítið á hann þegar ég sagði honum að ég væri í raun að borga Reykjavíkurborg fyrir að fá að hafa parísarhjólið þarna,“ segir Kane en eins og kom fram í samningi borgarinnar við Taylors Tivoli sem kynntur var í borgarráði greiðir hann eina milljón króna á mánuði fyrir afnot af lóðinni í sumar. Allur kostnaður vegna uppsetningar og reksturs parísarhjólsins er á ábyrgð Taylors Tivoli Iceland ehf.