Lykilmenn Spánverjinn Nico Williams og Englendingurinn Bukayo Saka verða í eldlínunni í Berlín annað kvöld.
Lykilmenn Spánverjinn Nico Williams og Englendingurinn Bukayo Saka verða í eldlínunni í Berlín annað kvöld. — AFP/Samsett mynd
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2024 Jökull Þorkelsson jokull@mbl.is

EM 2024

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Úrslitaleikur Evrópumótsins í knattspyrnu karla á milli Spánar og Englands fer fram fyrir framan 75 þúsund áhorfendur á Ólympíuleikvanginum í Berlín í Þýskalandi annað kvöld. Spænska liðið hefur verið sannfærandi á mótinu og getur unnið sinn fjórða Evrópubikar. Stígandi hefur verið í enska liðinu sem getur unnið sitt fyrsta Evrópumót og í leiðinni fyrsta stórmót í 58 ár.

Spánverjar sigurstranglegri

Spænska liðið hefur verið best leikandi liðið á EM. Spánverjar settu tóninn í fyrsta leik þegar þeir unnu Króatíu 3:0 og hafa ekki litið til baka síðan.

Spánn er líka með það í farteskinu að hafa nú þegar slegið út lið sem voru líkleg til árangurs. Í átta liða úrslitum vann Spánn heimamenn í Þýskalandi, 2:1, eftir framlengingu og í undanúrslitum sigruðu Spánverjar Frakka sannfærandi, 2:1.

Hinn 16 ára gamli Lamine Yamal hefur blómstrað með spænska liðinu á mótinu og er fullur sjálfstrausts eftir að hafa skorað sögulegt mark gegn Frökkum.

Ásamt honum hafa miðjumennirnir Rodri, Dani Olmo og Fabián Ruiz allir átt frábært mót. Varnarleikur Spánar hefur þá verið með þeim betri á mótinu og endurheimta Spánverjar ferska fætur í Dani Carvajal og Robin Le Normand sem voru í banni í undanúrslitunum.

Besti leikur enska liðsins

Þrátt fyrir að vera komið í undanúrslit hafði enska liðið valdið vonbrigðum á mótinu. Upplegg Gareth Southgate hafði verið mjög varnarsinnað og þjálfarinn hræddur við að taka stórar ákvarðanir.

Það breyttist allt saman í undanúrslitaleik liðsins gegn Hollandi en þar lék enska liðið vel. Leikmenn liðsins voru líflegir og tók Southgate stórar ákvarðanir. Hann tók af velli fyrirliðann Harry Kane í seinni hálfleik og inn kom Ollie Watkins sem skoraði sigurmark Englands.

Hvað gera þjálfararnir?

Luis de la Fuenta þjálfari Spánar hefur talað um að breyta leikstílnum aðeins fyrir leikinn annað kvöld. Spænska liðið hefur hingað til ekki aðlagast mótherja en breyting verður á því samkvæmt þjálfaranum. „Við mætum liði með fullt af góðum leikmönnum. Englendingar vilja finna eyður til að hlaupa inn í. Þess vegna ætlum við að breyta aðeins til, reyna að halda í boltann en hafa þann möguleika einnig að sækja hratt,“ sagði de la Fuente.

Spánverjar munu þó að öllum líkindum halda sig við liðið sem hefur virkað á mótinu, þótt leikstílinn breytist aðeins. Allra augu verða hins vegar á Gareth Southgate.

Líklegt þykir að Luke Shaw komi inn í liðið fyrir Kieran Trippier en Shaw hefur spilað meira og meira með hverjum leiknum. Þá vilja margir Englendingar að Southgate taki Harry Kane út úr byrjunarliðinu fyrir Oliie Watkins eða Ivan Toney, en það verður að teljast fremur ólíklegt. Líklegast er að eina breyting Southgate verði Shaw fyrir Trippier, en hann gæti verið sneggri að skipta inn á ef hlutirnir ganga ekki upp.

Á erlendri grundu í fyrsta sinn

Englendingar munu leika sinn fyrsta úrslitaleik á stórmóti á erlendri grundu annað kvöld. Fyrir leikinn hefur England aðeins komist í tvo úrslitaleiki og voru þeir báðir á heimavelli. England vann fyrri á HM 1966 en tapaði síðari á EM 2021. Englendingar hafa í gegnum tíðina verið erkifjendur Þýskalands og væri mjög sætt fyrir þá að vinna bikar þar í landi.

Gullboltinn einnig undir?

Úrslit leiksins gætu haft áhrif á helstu einstaklingsverðlaun fótboltans, gullboltann. Englendingurinn Jude Bellingham, leikmaður Real Madrid, og Spánverjinn Rodri, leikmaður Manchester City, hafa verið með betri leikmönnum heims á þessu tímabili með sínum félagsliðum og eru báðir með líklegri mönnum til að hampa gullboltanum. Hvor þeirra endar sem sigurvegari gæti haft mikil áhrif á val sérfræðinganna í október á þessu ári.

Höf.: Jökull Þorkelsson