Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sígur fold í mar, segir í Völuspá um ragnarök. Orðið fold merkir 'jörð' en mar er 'sjór'. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er orðið fold tilgreint meðal þeirra heita sem skáld geta gripið til um 'jörð'

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Sígur fold í mar, segir í Völuspá um ragnarök. Orðið fold merkir 'jörð' en mar er 'sjór'. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er orðið fold tilgreint meðal þeirra heita sem skáld geta gripið til um 'jörð'. Snorra-Edda geymir skýringar á heitum og kenningum, ásamt fjölmörgum dæmum úr skáldskap sem Snorri þekkti. Líta má á ritið sem nokkurs konar handbók eða kennslubók handa þeim skáldum sem vildu fylgja fornum venjum.

Að miðaldavenju stillir Snorri í Eddu sinni stundum upp spurningum og svörum, svo sem hér: „Hver eru jarðar heiti? Hún heitir jörð, sem Þjóðólfur kvað…, fold, sem Óttar kvað…“ o.s.frv. Áfram heldur upptalning á samheitum við jörð, ásamt dæmum úr vísum og vísubrotum nafngreindra skálda: grund, hauður, land, láð, Hlóðyn, frón, Fjörgyn.

Halldór Halldórsson fjallaði í riti sínu „Old Icelandic heiti in Modern Icelandic“ (1975) um notkun og afdrif margra gamalla heita af þessu tagi.

Sum þeirra eru notuð enn í dag í beinni merkingu í daglegu tali, sbr. orðin jörð og land hjá Snorra.

Önnur tegund heita eru síðan ýmis orð sem þekkjast í sjálfu sér í almennu máli en hafa aðra merkingu en í kveðskap. Má þar nefna orðið mengi. Það þekktist til forna um mannfjölda eða stóran hóp. Lengi vel var vinsælt að grípa til þess í ýmsum skáldskap og hefur sjálfsagt ekki spillt fyrir að það rímar við mörg algeng orð: lengi, gengi, fengi, drengi, engi o.s.frv. Til dæmis orti Hans Natansson (Ketilssonar), um 1875, „hvar sóley gyllir iðgrænt engi, og er á ferðum lystugt mengi, silfurbjört Blanda brunar fram, best þykir mér að líta hann Hvamm“. Á 20. öld var nýju lífi blásið í orðið mengi þegar íslensk heiti vantaði um ný fræðihugtök. Þá bregður fyrir orðinu loftmengi, um loftmassa í veðurfræði, en þekktast er mengi sem stærðfræðihugtak, frá 1966, og þar hafði verið leitað ráða hjá Halldóri Halldórssyni.

Enn ein tegund eru loks forn heiti sem ekki lifa beint í daglegu máli en tilheyra afmörkuðum heimi sem okkur er þó í raun enn aðgengilegur. Þetta eru ýmis fágæt orð og sérnöfn. Hér á undan voru nefnd nokkur jarðarorð úr Skáldskaparmálum, og í Álfareiðinni grípur Jónas Hallgrímsson til eins þeirra: „Hleyptu þeir á fannhvítum hestum yfir grund, hornin jóa gullroðnu blika við lund.“ Auk grundar notar Jónas hér orðið jór 'hestur' sem virðist raunar hafa verið bundið við skáldamál alla tíð. Þótt jór sé ekki almennt orð um hest er annað upp á teningnum í samsetningum þar sem jódynur og jóreykur teljast sjálfsagt til almenns nútímamáls. Slíkt er ekki óvenjulegt þegar hin fornu heiti eiga í hlut. Mörg þeirra má ein og sér sannarlega kalla fornyrði eða skáldskaparorð sem ekki tíðkist í daglegu máli, t.d. lá, mar 'sjór'; seggur, mæringur 'maður', en síðan kunna þau að leynast í bráðlifandi samsetningum: láréttur, marflatur; milljarðamæringur, óeirðaseggur.