Regína Ingólfsdóttir fæddist á Siglufirði 27. september 1935. Hún lést á Landspítalanum 19. júní 2024.

Egill Þ. Jónsson fæddist í Reykjavík 8. júní 1935. Hann lést á líknardeildinni 21. júní 2024.

Foreldrar Regínu voru Haflína Björnsdóttir, f. 24. október 1902, d. 2. október 1982, og Ingólfur Níelsson, f. 8. maí 1912, d. 2. apríl 1982. Eftirlifandi bræður hennar eru Níels og Ásgrímur, en Björn lést árið 2014.

Foreldrar Egils voru Guðrún Jónsdóttir, f. 9. apríl 1905, d. 27. mars 1995, og Jón Egilsson, f. 20. febrúar 1906, d. 20. júní 1961. Eldri bróðir hans var Snæbjörn Ingi, sem lést árið 1974.

Egill og Regína giftu sig hinn 3. október 1959. Þau eignuðust tvö börn, Jón Gunnar og Ingunni Ástu. Sambýlismaður Ingunnar er Jóhann Friðrik Kristjánsson og eiga þau þrjú börn, Únu, f. 1988, Marín, f. 1991, og Martein Elí, f. 1992. Sambýliskona Marteins er Auður Gauksdóttir.

Regína sleit barnsskónum á Siglufirði en flutti ung til Reykjavíkur, þar sem hún stundaði ýmis störf uns hún fór að sinna búi og börnum. Egill lærði bifreiðasmíði á Bílaverkstæði Egils Vilhjálmssonar. Egill og Regína bjuggu alla sína tíð í Reykjavík, fyrst á Háteigsvegi 40, en síðar í Grænuhlíð 8. Egill vann í fyrstu hjá Agli Vilhjálmssyni, en hóf síðan störf hjá Hansa og síðar við það sama hjá Hurðum. Eftir að Hurðir hættu starfsemi stundaði hann útakstur hjá Kaupseli. Regína sinnti börnunum á meðan þau voru ung, en vann síðan á saumastofunni Elísu og síðar skrifstofustörf hjá Ístaki, Félagsstofnun stúdenta og Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Útför þeirra hjóna fór fram í Fossvogskapellu 2. júlí 2024, í kyrrþey að þeirra eigin ósk.

Þegar við hugsum til Egils uppáhaldsfrænda og elsku Regínu er ekki hægt annað en að brosa. Á æskuárum okkar í Mývatnssveit byrjaði sumarið fyrst að verða skemmtilegt þegar þau komu keyrandi frá Reykjavík á Opelnum sem angaði af sígarettum og ilmvatni Regínu. Þá var tekið til við að tuskast þar sem Egill kitlaði alla krakka í kaf og við hlógum svo mikið að það hálfa hefði verið nóg. Þau gistu ætíð heima hjá okkur í Austurhlíð og það leið ekki á löngu þar til alls konar frændur og vinir úr sveitinni birtust þar líka til að hitta þau hjón og skemmta sér með þeim. Foreldar okkar litu á þau sem sína bestu vini og svipmyndir af pabba og Agli að hlæja sig máttlausa að einhverjum bröndurum og af Regínu að hjálpa mömmu við saumaskap á fötum á okkur systur renna gegnum hugann og eintóm gleði og hamingja var allt um kring.

Heimili þeirra var einnig okkar griðarstaður í höfuðborginni og þar var ekki síður skemmtilegt að koma hvort sem þau áttu að passa þá yngstu af okkur og reyndu að plata hana til að borða „ljónakornfleks“ úr Kellogg's-kornflexpakka eða þegar börn okkar fengu að prófa mótorhjól Egils og borða kleinur hjá Regínu. Þau voru okkur systrum sem aukaforeldrapar í höfuðborginni og þeim af börnum okkar sem þar ólust upp reyndust þau hin bestu Reykjavíkurafi og –amma. Egill var alltaf boðinn og búinn að aðstoða með að keyra og sækja hvenær sem þörf var á. Þau hjónin sóttu til dæmis tilvonandi föður á Keflavíkurflugvöll og keyrðu hann áleiðis norður á móti pabba okkar í Borgarnes til að hann kæmist til Akureyrar í tæka tíð til að vera viðstaddur fæðingu sonar síns.

Samhentari hjón var erfitt að finna og því kom það ekki á óvart að þau myndu kveðja með stuttu millibili. Við munum sakna þess að heyra Egil segja: „Jæja vina mín,“ og hlýrra faðmlaga og ástúðar þeirra beggja en treystum því að foreldrar okkar hafi tekið vel á móti þeim hjónum hinum megin og þá hafi orðið langþráðir endurfundir.

Elsku Dandi, Inga og fjölskylda, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og geymum góðar minningar um gamla settið í Grænuhlíð í hjörtum okkar.

Anna Sigríður,
Birna Margrét og
Drífa Þuríður
Arnþórsdætur
og fjölskyldur.