— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hvernig byrjaði þú í tónlist? Það byrjaði með því að foreldrar mínir keyptu lítið hljómborð handa mér. Ég var bara eitthvað að leika mér á það en var svo settur í forskóla þar sem ég lærði á blokkflautu

Hvernig byrjaði þú í tónlist?

Það byrjaði með því að foreldrar mínir keyptu lítið hljómborð handa mér. Ég var bara eitthvað að leika mér á það en var svo settur í forskóla þar sem ég lærði á blokkflautu. Tónlistaráhuginn var nú samt ekkert svakalega mikill hjá mér sem barni. Það var ekki fyrr en ég varð 15-16 ára sem ég fór að hafa áhuga á djasstónlist. Þá kviknaði áhuginn og ég fór að stunda tónlistarnámið af alvöru. Ég fór að semja tónlist sjálfur og fleira. Ég er ansi skólagenginn tónlistarmaður. Ég var í tónlistarskóla hérna á Íslandi fyrst sem krakki, kláraði Tónskóla FÍH. Síðan fór ég til Hollands í Bachelornám í Den Haag og svo fór ég í meistaranám þar sem ég flakkaði á milli þriggja borga; Gautaborgar, Kaupmannahafnar og Óslóar.

Hvernig er þinn tónlistarstíll?

Ég er mikið inni í djassheiminum. Ég hef fengið þannig uppeldi ef svo má segja en ég er ekki að einskorða mig endilega við það að semja djass. Ég sest bara niður og sem alls kyns tónlist. Ef maður ætti að lýsa henni í einhverjum orðum þá væri það „introspective“-tónlist, ég leita mikið inn á við. En ég flyt bara frumsamda tónlist og hef gefið út sex plötur núna ásamt hljómsveitinni. Nýverið gáfum við út plötuna „Fragile Magic“. Í tríóinu eru ég, Bárður Reinert Poulsen bassaleikari, og Magnús Trygvason Eliassen sem spilar á trommur.

Geturðu sagt okkur aðeins frá tónleikunum ykkar sem eru fram undan?

Tónleikarnir verða haldnir í Hörpu 17. júlí, og þetta eru útgáfutónleikar plötunnar. Þeir eru eiginlega upphaf tónleikaferðalags. Við förum síðan út á land og þaðan til Færeyja. Þetta er sem sagt útgáfutúr til þess að kynna „Fragile Magic“. Við munum bara spila lög af þeirri plötu.

Hvað er fram undan hjá þér?

Ég er að fara til Japans í október að spila með hljómsveitnni Kvintett sem í eru norskir og sænskir vinir mínir. Við förum einnig til Þýskalands. Við munum halda sjö tónleika í Japan og átta tónleika í Þýskalandi. Við gáfum út plötu á síðasta ári sem heitir „Farfuglar“ og þetta tónleikaferðalag verður kynning á þeirri plötu. Það verður mikið ævintýri. Ég er einnig að gefa út kvartettplötu í janúar, með hjálp Magnúsar á trommur. Einnig verða með mér Anders Jornin og Hilmar Jensson.

Ingi Bjarni tríó mun troða upp í Björtuloftum í Hörpu 17. júlí. Tríóið samanstendur af Inga Bjarna, Bárði Reinert Poulsen og Magnúsi Trygvasyni Eliassen.