Joe Biden er greinilega svo brugðið vegna aldurs að hann hefur ekki krafta til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna í fjögur ár þótt svo ólíklega færi að hann næði kjöri.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Heimsfrægi leikarinn George Clooney birti grein á vefsíðu The New York Times miðvikudaginn 10. júlí. Hann sagðist skrifa hana sem lífstíðardemókrati. Hann hefði stjórnað stærstu fjáröflunarviðburðum í sögu flokksins: fyrir Barack Obama árið 2012, Hillary Clinton árið 2016 og Joe Biden árið 2020. Í júní sl. hefði hann ásamt öðrum stjórnað stærsta viðburðinum af öllum fyrir nokkurn frambjóðanda demókrata, til stuðnings endurkjöri Bidens.

Clooney lýsti aðdáun sinni á Biden sem öldungadeildarþingmanni, varaforseta og forseta. Hann liti á Biden sem vin sinn og hefði trú á honum og mannkostum hans. Á undanförnum árum hefði Biden sigrað í mörgum orrustum, eina gæti hann þó ekki sigrað, orrustuna við tímann. Enginn okkar gæti það.

Því næst segir Clooney að sá Biden sem hann hitti fyrir þremur vikum hafi ekki verið sami Biden og fyrir fjórum árum – hann hafi verið sami maðurinn og birst hafi öllum í CNN-sjónvarpskappræðunum við Donald Trump 27. júní 2024.

„Var hann þreyttur? Já. Með kvef? Kannski. Forystumenn flokks okkar verða hins vegar að hætta að segja okkur að 51 milljón manna hafi ekki séð það sem við sáum. Við erum öll haldin svo miklum ofurótta við annað kjörtímabil Trumps að við höfum valið þann kost að horfa fram hjá öllum viðvörunarmerkjum. Sjónvarpsviðtal George Stephanopoulos [við Biden] áréttaði aðeins það sem við sáum viku fyrr. Sem demókratar höldum við allir saman niðri í okkur andanum eða lækkum hljóðið í hvert sinn sem við sjáum forsetann, sem við virðum, ganga niður úr Air Force One eða snúa sér í áttina að hljóðnema til að svara óundirbúinni fyrirspurn.“

Leikarinn sem höfðar til milljóna demókrata segir að þeir muni ekki sigra undir forystu þessa forseta. Við það bætist svo að demókratar muni ekki heldur ná meirihluta í fulltrúadeild þingsins og þeir muni tapa meirihlutanum í öldungadeildinni. Þetta sé ekki einkaskoðun sín segir Clooney heldur allra öldungadeildarþingmanna, fulltrúadeildarþingmanna og ríkisstjóra í einkasamtölum við sig, hvers og eins, sama hvað þeir segi opinberlega.

Lokaorðin í grein Clooneys eru: „Joe Biden er hetja; hann bjargaði lýðræðinu 2020. Við þörfnumst þess að hann geri það aftur 2024.“

Umdeilanlegt er hve mikið aðdráttarafl stórstjörnur hafa fyrir einstaka frambjóðendur eða flokka í kosningabaráttu, þótt þær auki sjálfstraust frambjóðandans og sigurvissu flokksins. Algjörlega er óvíst að þeir sem þekkt andlit hampa mest sigri í kosningum. Því kynntumst við í nýlegu forsetakjöri hér.

Grein Clooneys er ekki skrifuð til að móta almenningsálitið. Tilgangur hennar er að hafa áhrif á einn mann, vin höfundarins, Joe Biden. Hún vegur þó örugglega einnig þungt hjá þeim sem njóta trausts Bidens við töku mikilvægra ákvarðana hans um eigin framtíð og þjóðar sinnar. Til orða Clooneys er einnig vitnað um allan heim og eru þau talin til marks um að Biden hljóti að skilja þegar skellur í tönnum.

Án vandræða Bidens í sjónvarpskappræðunum hefði Clooney líklega aldrei opinberað það sem hann taldi sig sjá þremur vikum fyrr, að vegna hrumleika hefði Biden ekki burði til að gegna forsetaembættinu. – Þegjandi hefði Clooney látið sig hafa að kjósa hann. Leiðarahöfundar The New York Times segja: Biden á að víkja, geri hann það ekki mun blaðið samt styðja hann frekar en Trump.

Joe Biden er greinilega svo brugðið vegna aldurs að hann hefur ekki krafta til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna í fjögur ár þótt svo ólíklega færi að hann næði kjöri. Að forsetinn átti sig ekki á stöðu sinni má til dæmis skýra með því að aldurinn trufli dómgreind hans. Þeir sem standa honum næst hafa ekki sömu afsökun. Þeir hafa eigin dómgreind og heiður að verja með afstöðu sinni; að láta sem ekkert sé er til þess eins fallið að gera þá marklausa.

Önnur áhrifamanneskja meðal demókrata, Nancy Pelosi (84 ára), sagði sama dag og grein Clooneys birtist að það væri Bidens sjálfs að ákveða hvað hann gerði. Þessi orð voru að sjálfsögðu ekki túlkuð sem stuðningur Pelosi, fv. leiðtoga demókrata í fulltrúadeildinni, við Biden.

Þegar þetta er skrifað lætur Joe Biden engan bilbug á sér finna. Honum fór vel úr hendi að vera gestgjafi á 75 ára afmælisfundi NATO í Washington í vikunni. Fjölmiðlar létu eins og skammlaus og mismælalaus framganga hans í tengslum við fundinn fengju einhverju breytt um hvort hann gæti starfað sem forseti til 86 ára aldurs.

Fyrst ber að átta sig á að hann nær að óbreyttu ekki endurkjöri í nóvember. Hann ákvað að fara í kappræðurnar við Trump undir lok júní til að sjá hvort hann stæðist prófið í tæka tíð fyrir flokksþing demókrata í ágúst. Hann stóðst það ekki en neitar að viðurkenna niðurstöðuna, víki hann ekki.

Áköfustu talsmenn þess að Biden hætti ekki við framboðið eru Trump og félagar. Þeir telja sig nú eiga sigurinn vísan. Án Bidens er talið að næstum hvaða frambærilegur demókrati sem er gæti sigrað Trump.

Stríð er háð í Evrópu og á toppfundi NATO var ekki aðeins ályktað harkalega gegn Rússum vegna ólöglegu innrásarinnar í Úkraínu heldur kvað við enn harðari tón en áður gagnvart Kínverjum. Þeir voru sakaðir um að gera Rússum kleift að berjast áfram.

Á sama tíma og einræðisherrar herða tökin og standa að árásum á almenna borgara og sjúkrahús eru valdaskipti og stjórnmálauppnám í lýðræðislegu kjarnorkuveldunum þremur í forystu NATO. Bandalagið er þó öflugra en nokkru sinni enda mikils af því krafist.