Aðkoman að Midgard er notaleg. Hér hefur margt breyst frá því sementsverksmiðjan var reist.
Aðkoman að Midgard er notaleg. Hér hefur margt breyst frá því sementsverksmiðjan var reist. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vá, við erum búin að meikaða, Hjálmar eru búnir að spila hérna.

Afgreiðslustúlkan horfði spyrjandi augum á blaðamennina sem höfðu nýlega gengið inn um dyrnar í Midgard Base Camp og beðið um að ná tali af Björgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra og einn af eigendum fyrirtækisins.

Hafði hún mælt sér mót við blaðamennina til að taka upp þetta viðtal, sem hér er ritað, og ræða þar meðal annars um Midgard, ferðaþjónustu á Suðurlandi, daginn og veginn.

„Björg er í Þórsmörk,“ sagði stúlkan, þegar blaðamenn báru upp erindi sitt. Voru þá góð ráð dýr enda höfðu fulltrúar Morgunblaðsins gert sér ferð alla leið frá höfuðborginni til að ná tali af Björgu og var dagurinn þéttskipaður.

Betur fór þó en á horfðist en varla höfðu tíu mínútur liðið þegar nýr viðmælandi var mættur á svæðið, reiðubúinn að fylla í skarðið, hún Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, einn af eigendum Midgard og tengdadóttir Bjargar.

Eldgosið sem kom bænum á kortið

Hildur er útivistargarpur, fædd og uppalin í Fljótshlíðinni, og þekkir Suðurlandið betur en flestir. Hún kemur að daglegum rekstri fyrirtækisins, skipuleggur ferðir, fer með gönguhópa, sér um mannauðsstjórn fyrirtækisins og svo lengi mætti telja.

Blaðamenn og Hildur fengu sér sæti við borð sem sneri að glugga. Það var blankalogn og sól skein í heiði. Út um gluggann sáust merar með folöld á beit og í baksýn var Fljótshlíðin og Eyjafjallajökull. Útsýni sem gestir geta einnig notið frá heitum potti á þaki hostelsins.

Midgard er ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á hefðbundnar jafnt sem óhefðbundnar ferðir um Suðurlandið og íslenskt hálendi. Bjórjóga, göngur um Fimmvörðuháls og notalegt kvöldverðarmatarboð í helli er bara brot af þeim afþreyingarmöguleikum sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða.

Þar að auki stendur Midgard fyrir fjölmörgum viðburðum yfir bæði vetrar- og sumartímann sem heimamenn eru duglegir að sækja. Er óhætt að segja að ferðaþjónustufyrirtækið hafi blásið nýju lífi í sunnlenska smábæinn sem íbúar hafa stundum í glettni kallað nafla alheimsins.

En hvernig má það vera að í gamalli sementsverksmiðju í útjaðri Hvolsvallar sé nú kominn reisulegur veitingastaður og hostel?

Fyrirtækið Midgard adventure var stofnað árið 2010 af frænda Hildar, fjallageitinni og ævintýramanninum Sigurði Bjarna Sveinssyni, eða Sigga Bjarna, sem var þá 23 ára. Honum hafði þó ekki órað fyrir að aðeins viku síðar myndi sprengigos hefjast í Eyjafjallajökli sem myndi setja flugumferð í Evrópu í uppnám. „Við vorum bara ókei þetta er ekki að fara neitt,“ segir Hildur þegar hún rifjar upp fyrstu daga fyrirtækisins.

Eldgosið, sem í fyrstu virtist ætla að koma í veg fyrir að fólk myndi ferðast til þessarar eldfjallaeyju í Norður-Atlantshafi, hafði þó þveröfug áhrif. Minnast nú margir eldgossins sem upphafið af ferðamannastrauminum sem átti eftir að blása lífi í hagkerfi Íslendinga.

„Eyjafjallajökull setti okkur á kortið og það voru rosa margir sem vildu koma til landsins fljótlega eftir að það opnaði.“

Fyrstu árin rak Siggi Bjarni fyrirtækið ásamt Arnari Gauta Markússyni, eða Adda Gauta, eiginmanni Hildar, og Stefni. Fólst starfsemin þá aðallega í ferðum upp á Eyjafjallajökul og nágrenni.

Þremur árum frá opnun ákváðu þær Hildur og Björg, sem hér var minnst að ofan og er jafnframt móðir Adda Gauta, að láta slag standa og taka þátt í rekstri fyrirtækisins, og hófu þær störf sem sumarstarfsmenn.

„Auðvitað viltu alltaf vinna með mömmu þinni og konunni þinni alla daga,“ segir Hildur kímin.

Steypuklumpur sem varð að hosteli

Það var þó ekki fyrr en árið 2015 sem Midgard-teymið ákvað að festa kaup á „steypuklumpinum“, eins og Hildur orðaði það, sem átti eftir að verða hjarta starfseminnar og hýsa bæði veitingastað og hostel.

Það var faðir Sigga Bjarna sem sannfærði hópinn um að húsið væru góð kaup en hann byggði það fyrir um það bil fjórum áratugum.

„Þetta leit ekki út eins og hostel þá, þá var þetta bara svona gamalt iðnaðarbil sem leit svona smá sjúskí út,“ lýsir Hildur.

Útlit byggingarinnar blekkti, og í raun svo að bankinn hafði litla trú á möguleikunum sem fólust í gömlu sementsverksmiðjunni í útjaðri bæjarins. Kom það í hlut Stefans Michel, sem var vinur Hildar frá Sviss sem hún kynntist þegar þau voru unglingar að vinna á Hótel Rangá, að fjárfesta í iðnaðarbilinu með hópnum.

„Addi fór með honum um húsið og var að reyna að sýna honum þetta – að þetta væri bara geggjað tækifæri fyrir hann. Ætlaði að sýna honum hvað þetta gæti orðið flott og segir við hann „this could all be yours“ fór með hann hingað inn og þá er þetta bara svona steypuklumpur, allt frekar blautt og skítugt og dauð mús á gólfinu. Þetta var ekki beint sannfærandi.“

En Stefan sannfærðist og tveimur árum síðar, árið 2017, var hostelið og veitingastaðurinn Midgard basecamp opnaður.

Síðan þá hefur reksturinn undið upp á sig og starfsemin vaxið og dafnað. Hafa bæði heimamenn og fjöldi þekktra tónlistarmanna troðið upp og skemmt starfsfólki og gestum.

Hildur minnist þess þegar hljómsveitin Hjálmar kom rétt áður en samkomutakmarkanir vegna Covid-19 skullu á með tilheyrandi viðburðabanni. Var þá dansað fram á nótt.

„Við tókum alla stóla út og þetta var bara standandi partý, við lokuðum gistiheimilinu, ég man að þetta kvöld vorum við fremstar, við erum öll svona óvenjuhávaxin, ég man að við eigendurnir stóðum þarna fremst, og allir leiðsögumennirnir okkar og starfsfólkið og við vorum svo amazed að við værum búin að fá svona flotta hljómsveit hingað. Þetta var kvöldið sem við hugsuðum bara: „Vá, við erum bara búin að meikaða, Hjálmar eru búnir að spila hérna“.“ Í dag heimsækja fjölbreyttir hópar Midgard, bæði Íslendingar jafnt sem ferðamenn.

„Það er skemmtilegt „concept“ að geta verið með þessa gistingu, veitingastaðinn, ferðirnar og viðburðina því við getum verið með fólk í lengri tíma. Við viljum að þetta sé upplifun út í gegn. Þetta sé matarupplifun um kvöldið, upplifun í ferðum – svona náttúrutenging, og svo er upplifun að gista hérna því þótt herbergin séu frekar venjuleg þá er mjög litríkt og skemmtilegt, við viljum að fólk sé að hanga hérna niðri, við erum með löng borð svo fólk sé að kynnast.“

Höf.: Hólmfríður María RagnhildardóttirSonja Sif Þórólfsdóttir