Fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir átti stórleik í íslensku vörninni og fagnaði innilega þegar flautað var til leiksloka á Laugardalsvellinum.
Fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir átti stórleik í íslensku vörninni og fagnaði innilega þegar flautað var til leiksloka á Laugardalsvellinum. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ísland er komið á fimmta Evrópumót kvenna í fótbolta í röð og hefur líkast til aldrei tryggt sér sæti þar á jafn afgerandi og magnaðan hátt og fyrir EM 2025 í Sviss. Stórþjóðin Þýskaland var lögð að velli, 3:0, á Laugardalsvellinum, aðeins annar…

EM 2025

Víðir Sigurðsson

Jóhann Ingi Hafþórsson

Ásta Hind Ómarsdóttir

Ísland er komið á fimmta Evrópumót kvenna í fótbolta í röð og hefur líkast til aldrei tryggt sér sæti þar á jafn afgerandi og magnaðan hátt og fyrir EM 2025 í Sviss.

Stórþjóðin Þýskaland var lögð að velli, 3:0, á Laugardalsvellinum, aðeins annar sigur íslenska landsliðsins á því þýska í tuttugu viðureignum, og EM-sætið er í höfn þó enn sé einn leikur eftir í undankeppninni. Ísland getur meira að segja unnið riðilinn með sigri í Póllandi í lokaleiknum, ef Þýskaland nær ekki að vinna Austurríki.

Ísland er því ein af þeim átta þjóðum sem fara beint á EM en aðrar þurfa að fara í umspil.

Ingibjörg gaf tóninn

Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði snemma leiks, Alexandra Jóhannsdóttir kom Íslandi í góða stöðu snemma í síðari hálfleik, 2:0, og Sveindís Jane Jónsdóttir, sem lagði upp hin mörkin, innsiglaði sigurinn skömmu fyrir leikslok.

Íslenska liðið lék leikinn stórkostlega vel, frá fremsta manni til þess aftasta. Frammistaðan er ein sú besta sem íslenskt landslið hefur nokkurn tímann sýnt. Baráttan var til fyrirmyndar og átti gríðarlega sterkt þýskt lið einfaldlega ekki möguleika.

Í bland við dugnað, ákefð og magnað hugarfar sýndi íslenska liðið mikil gæði og sínar allra bestu hliðar. Það er ekki hægt að tryggja sér sæti á lokamóti á betri hátt. Spili íslenska liðið svona á EM á liðið möguleika á að ná langt.

Mark og tvær stoðsendingar

Sveindís Jane var ógnandi að vanda, lagði upp tvö mörk og kórónaði góðan leik sinn með þriðja markinu. Sandra María Jessen hjálpaði henni mikið í sókninni, átti stóran þátt í öðru markinu, ógnaði mikið og var hrikalega dugleg.

Fanney Inga Birkisdóttir var aðeins óörugg í sínum allra fyrstu aðgerðum í markinu en varð betri eftir því sem leið á og gerði nokkrum sinnum mjög vel.

Varnarlínan var góð og Glódís Perla Viggósdóttir bjargaði nokkrum sinnum mjög vel og einu sinni stórkostlega á marklínu, þegar Þýskaland gat minnkað muninn í 2:1. Þá var Ingibjörg flott með henni í miðri vörninni og skoraði fyrsta mark leiksins.

Bakverðirnir Natasha Anasi og Guðný Árnadóttir stóðu vaktina vel og fengu góða hjálp frá duglegum kantmönnum. Natasha spilaði sinn fyrsta keppnisleik í byrjunarliðinu og er ljóst að þeir verða mun fleiri.

Þá stóð miðjan sig vel, Hildur Antonsdóttir var dugleg að vanda og gerði vel í að stöðva álitlegar sóknir Þjóðverja. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir studdi svo við sóknina með hættulegum sendingum og Alexandra var öflug. Stórgóð og eftirminnileg frammistaða.

Höf.: Víðir Sigurðsson, Jóhann Ingi Hafþórsson