Ellen DeGeneres, Richard Simmons og David Garcia í The Ellen DeGeneres Show (2003).
Ellen DeGeneres, Richard Simmons og David Garcia í The Ellen DeGeneres Show (2003). — IMDB
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég get verið kröfuhörð og óþolinmóð og hörð. Ég er sterk kona. Ég er margt en ég er ekki andstyggileg manneskja.

Ellen DeGeneres segist ætla að kveðja skemmtanaiðnaðinn eftir sýningu á klukkutímalöngum Netflix-þætti sínum seinna á árinu.

Ellen naut um tíma fádæma vinsælda sem leikkona og síðar sjónvarpsþáttastjórnandi. Síðan kom fallið og var bæði óvænt og mikið.

Vinsældir hennar hófust með gamanþáttaröðinni Ellen árið 1994. Árið 1997 tók leikkonan mikla áhættu þegar hún lét aðalpersónuna koma út úr skápnum og opinberaði um leið eigin samkynhneigð. Margir fögnuðu en alls ekki allir og ári seinna var þátturinn tekinn af dagskrá.

Erfið ár fylgdu í kjölfarið en árið 2003 ljáði hún fiskinum Dory rödd sína í hinni vinsælu teiknimynd Finding Nemo. Sama ár hóf sjónvarpsspjallþáttur hennar, Ellen DeGeneres Show, göngu sína. Hann vann til ótal verðlauna og heimsfrægt fólk var stolt af að koma þar fram. Ellen var dáð og elskuð og sjálf talaði hún í þáttum sínum fjálglega um mikilvægi þess að sýna öðrum góðvild. Í Hollywood var þó slúðrað um að stjarnan væri ekki sérlega elskuleg.

Ekkert virtist geta truflað sigurgöngu hennar. Það þurfti þó bara eitt tíst á samfélagsmiðli til að fella Ellen. Árið 2020 bað grínistinn Kevin T. Porter fólk um að segja frá vondri upplifun sinni af Ellen og fékk 2600 svör. Í kjölfarið stigu fram stjörnur, samstarfsfólk og fleiri og höfðu ófagrar sögur að segja. Ellen var sögð köld og fjarlæg og umgangast fólk af hroka. Leikarinn Brad Garrett, sem lék í Everybody Loves Raymond, sagðist þekkja fleiri en einn einstakling sem Ellen hefði komið skelfilega illa fram við. Leikkona Lea Thompson, sem lék í Back to The Future, tók undir þau orð hans. Ástralskur útvarpsmaður sem hafði unnið með Ellen sagði að brýnt hefði verið fyrir honum að tala ekki við Ellen, nálgast hana ekki og horfa ekki á hana. Starfsmenn lýstu eitruðu andrúmslofti á vinnustað og kenndu yfirmönnum um, þar á meðal Ellen. Þrír yfirmenn voru reknir og Ellen sendi frá sér formlega afsökunarbeiðni. Það dugði ekki. Skaðinn var skeður.

Hin áður dáða Ellen var fallin af stallinum. Áhorfið á áður vinsælan þátt hennar hríðféll. Síðasti þátturinn af Ellen DeGeneres Show var sýndur í maímánuði 2022. Síðan þá hefur Ellen að mestu haldið sig frá sviðsljósinu, sár og reið yfir því sem hún telur vera afar ósanngjarnar árásir á sig.

Fyrr á þessu ári hóf hún að halda uppistandssýningar víða um Bandaríkin. Þar notar hún tækifærið og ber af sér sakir. „Ég get verið kröfuhörð, óþolinmóð og hörð. Ég er sterk kona. Ég er margt en ég er ekki andstyggileg manneskja,” sagði hún nýlega og bætti við: „Ég var vön að segja að mér stæði á sama hvað fólk segði um mig. Nú átta ég mig á því að ég sagði þetta á hátindi frægðar minnar.“

Í tengslum við uppistandssýningarnar svaraði hún spurningum aðdáenda sinna. Einn þeirra spurði hana hvort hún myndi ekki snúa sér að kvikmyndaleik eða leik á Broadway. Ellen svaraði: „Nei, eftir Netflix-þáttinn er ég hætt.“

Framtíðin mun leiða í ljós hvort henni muni snúast hugur. En eins og er þá er ljóst að hin 66 ára gamla Ellen hefur fengið nóg. Hún þarf þó ekki að hafa áhyggjur af afkomunni, hún er vellauðug og árið 2020 var hún tólfti hæst launaði skemmtikraftur heims samkvæmt Forbes. Árið 2015 setti Forbes hana í fimmtugasta sæti yfir valdamestu konur heims.

Hún giftist leikkonunni Portiu de Rossi árið 2008 eftir nokkurra ára samband og þær búa í Beverly Hills ásamt fjórum hundum og þremur köttum.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir