Sigrún Dagmar Elíasdóttir, Sigrún í Virkjun, fæddist 7. febrúar 1939. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu að Brákarhlíð í Borgarnesi þann 1. júli 2024.

Sigrún ólst upp á Bjarnarnesi og Drangsnesi til 1959 þegar hún hóf búskap í Mjólkárvirkjun með Bjarna Kr. Skarphéðinssyni stöðvarstjóra.

Móðir: Ingibjörg Sigurjónsdóttir, f. 22.5. 1921, d. 19.7. 1977, frá Tindum í Svínavatnshreppi. Faðir: Elías Svavar Jónsson, f. 23.8. 1916, d. 14.7. 2004, frá Bjarnarfirði, símstöðvarstjóri á Drangsnesi. Systkini: Þráinn, f. 1947, Jón Hörður, f. 1950, Hugrún Ásta, f. 1953, og Ragnhildur Rún, f. 1959.

Eiginmaður Sigrúnar var Bjarni Kristjón Skarphéðinsson frá Þingeyri, f. 1.1. 1927, d. 22.6. 2018. Rafvirki, lengst af í Andakílsárvirkjun og seinna rafveitustjóri í Borgarnesi. Börn: Guðmundur Karl Bjarnason, f. 24.4. 1959. Maki Maria Gina Bjarnason, börn þeirra; Martin Jesper, Bjarni Christian Condrad, Maria Caroline. Ingibjörg Elín Bjarnadóttir, f. 29.6. 1960. Maki Jón Ástráður Jónsson, börn þeirra; Þórhildur Eva, maki Bergur Þór Eggertsson, Elías Svavar, Ásta Dagmar, sm. Bjarni Helgason. Barnabörn eru fimm. Inga Vildís Bjarnadóttir, f. 17.1. 1964. Maki Sveinbjörn Eyjólfsson, börn þeirra; Ragnheiður, maki Þorkell Guðjónsson, Sigrún, sm. Breki Mar, Kristrún, maki Gunnar Pálsson, Klara, sm. Ágúst Gestur Guðbjargarson. Barnabörn eru níu. Berglind Bára Bjarnadóttir, f. 12.1. 1976. Maki Magnús Helgi Kristjánsson, börn þeirra; Svala Rún, Guðrún Lilja, Kristján Bjarni.

Sigrún og Bjarni í Virkjun hófu búskap sinn í Mjólkárvirkjun 1963 fluttu þau að Andakílsárvirkjun þar sem þau bjuggu í ein 24 ár. Árið 1985 fluttu þau í Borgarnes. Sigrún nam við Kvennaskólann á Blönduósi árin 1955-1957 og Félagsmálaskóla MFA 1980-1982. Hún var í Kirkjukór Hvanneyrar og Kvenfélaginu 19. júní. Heiðursfélagi í Ungmennafélaginu Íslendingi. Sat í Stjórn Verkalýðsfélags Borgarness og í sambandsstjórn Verkamannasambands Íslands, Sambandsstjórn ASÍ og var fyrsta konan sem gegndi starfi formanns Alþýðusambands Vesturlands. Sigrún var ráðskona hjá Rafmagnsveitum ríkisins, Vegagerð ríkisins og Andakílsárvirkjun. Hún var saumakona hjá Hetti í Borgarnesi. Hún vann hótelstörf á Bifröst og Hvanneyri. Einnig vann hún hjá Bændaskólanum á Hvanneyri, Kaupfélagi Borgfirðinga, Mjólkursamlagi Borgfirðinga og á Barmahlíð. Prjónaði lopapeysur, sokka og vettlinga á barnabörnin og einnig lopapeysur fyrir Hannyrðasambandið, saumaði þjóðbúninga og leiðbeindi öðrum við réttu handtökin við saumaskapinn og balderingu.

Sigrún var stofnfélagi í Lionessuklúbbnum Öglu 1987, síðar Lionsklúbburinn Agla. Hvatamaður að stofnun og ein af stofnfélögum Reykhóladeildar út frá Lionsklúbbi Búðardals 2011 ásamt eiginmanni sínum.

Mikil félagskona og helgaði hún sig málefnum klúbbsins og tók þátt í fundarhöldum allt til æviloka. Hélt ræðu- og félagsmálanámskeið, kenndi félögum eldri borgara í Borgarnesi dans og hún söng og spilaði á gítar við hvert tækifæri.

Útför Sigrúnar fer fram frá Borgarneskirkju á morgun, 14. júlí 2024, og hefst athöfnin kl. 14.

Mamma, þú ert hetjan mín

þú fegrar og þú fræðir

þú gefur mér og græðir.

Er finn ég þessa ást

þá þurrkar þú tárin sem mega ekki sjást.

Mamma, ég sakna þín.

Mamma þú ert hetjan mín

þú elskar og þú nærir

þú kyssir mig og klæðir.

Ef brotin er ég þú gerir allt gott

með brosi þú sorg minni bægir
á brott.

Mamma, ég sakna þín

Ég finn þig hjá mér hvar sem er

alstaðar og hvergi – þú ert hér.

Þú mér brosir í mót

og ég finn þín blíðuhót.

Alvitur á allan hátt

þó lífið dragi úr þér mátt

við Guð og menn þú sofnar sátt.

Þú vakir líka er ég sef

að nóttu og degi – þig ég hef

Þú berð ætíð höfuð hátt

veist svo margt en segir fátt.

Gleður mig með koss á kinn

mér finnst ég finna faðminn þinn

og englar strjúki vanga minn.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Hvíl í friði elsku mamma

Hjartanskveðjur.

Fyrir hönd barna og tengdabarna,

Berglind
Bára.

Sigrún Dagmar Elíasdóttir sem við kveðjum hér var gull af manni. Hún hafði lag á að gera lífið fallegra og návist hennar létti lund svo vandamál heimsins virtust víðs fjarri, slíkt er alls ekki öllum gefið.

Ég man enn er ég hringdi í Virkjun fyrsta sinni. Hafði þá fengið augastað á dóttur hennar, sem var veik heima. Sigrún svaraði og ég spurði hvort Vildís væri of veik til að fá heimsókn. Hún hélt nú að henni fyndist það bara gaman. Alla tíð síðan hef ég verið velkominn á hennar heimili.

Sigrún var sveitastelpa af Ströndum, fædd á Bjarnarnesi í Kaldrananeshreppi, nokkuð elst fimm systkina. Þar getur verið harðbýlt og líkur á að Sigrún hafi verið svolítið mótuð af því, enda fór hún vel með. Fjölskyldan flytur á Drangsnes þegar hún er ung og það átti betur við félagsveruna Sigrúnu. Hún var söngelsk, lék á gítar og notaði hvert tækifæri til að bresta í söng. Þeirri iðju hélt hún áfram alveg fram í andlátið, söng með hinum ýmsu kórum og tróð upp á skemmtunum og lék í leikritum, ekki síst þar sem söngs var þörf.

Líkt og var í þá tíð var skólaganga stopul en Sigrún var námsfús og stundaði vel. Hún fór vel fyrir tvítug á Kvennaskólann á Blönduósi og talaði ávallt vel um þá vist. Og sú þekking sem hún aflaði sér þar nýttist vel alla hennar ævi. Og vegna hennar var hún ráðin ráðskona að Mjólkárvirkjum. Þar hitti hún fyrir bráðmyndarlegan stöðvarstjóra og þau felldu hugi saman og héldust hönd í hönd meðan bæði lifðu.

Eftir dvöl í Mjólká flytja Sigrún og Bjarni í Borgarfjörðinn. Bjuggu lengi í Virkjun og síðar í Borgarnesi. Sigrún rak rausnarheimili í Virkjun þar sem iðulega var gestkvæmt og engum vísað á dyr. Fjölskyldunni fannst gott að koma i Virkjun enda höfðu þau Sigrún og Bjarni stórt hjarta og opinn faðm. Þar var auðvelt var að leita skjóls ef á bjátaði.

Sigrún var samvinnu- og félagshyggjumaður. Hún tók virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins um árabil og sótti miðstjórnarfundi og var kosningastjóri þegar mikið lá við. Þá var hún var öflug i verkalýðsbaráttu, sat í stjórn Verkalýðsfélags Borgarness og var um hríð formaður Alþýðusambands Vesturlands.

Ég minnist Sigrúnar fyrst og fremst fyrir þá hlýju og vináttu sem frá henni streymdi. Engin óskyld manneskja lét sér eins annt um mig og hún. Alltaf jákvæð og hvetjandi og aldrei styggðaryrði þótt e.t.v hafi verið ástæða til. Og mest allt lífið var það hún sem gaf. Kannski helst í seinni tíð sem hægt var að gefa til baka og þá var það þakkað eins og hún ætti ekkert inni hjá manni. Hún sem alltaf var til staðar fyrir allt og alla.

Það er gæfa að eiga góða tengdamóður. Slík var gæfa mín. Ég kveð þig með söknuði elsku Sigrún. Lífið heldur áfram en það verður ekki samt án þín. Hvíl i friði.

Sveinbjörn
Eyjólfsson.

Fallin er frá elskuleg klúbbsystir okkar, Sigrún D. Elíasdóttir, ötull og góður lionsfélagi til tuga ára, hún var ein af stofnendum klúbbsins okkar sem þá var Lionessuklúbburinn Agla, stofnaður 20. janúar 1987 en breyttist svo í Lionsklúbbin Öglu árið 1994. Hún var ætíð virkur og góður félagi og tók að sér stjórnar og nefndarstörf sem hún leysti vel, eins og hennar var von og vísa. Þegar klúbburinn var nýstofnaður hélt hún ræðunámskeið fyrir okkur svo við yrðum nú fundarhæfar og frambærilegar í klúbbnum, fórst henni það vel úr hendi og hafði góða stjórn á 28 kátum og hressum konum sem ærsluðust, hlógu og höfðu gaman af, en lærðu alveg heilmikið af henni. Sigrún var með okkur á fundum allt fram á síðasta ár, alltaf svo vel til höfð, kát og glöð.

Vert er að minnast þess að hún og eiginmaður hennar Bjarni Skarphéðinsson, sem einnig var dugmikill og góður Lionsfélagi í Lionsklúbbi Borgarness, voru stofnfélagar í Lionsklúbbi í Reykhólasveit sem var deild úr Lionsklúbbi Búðardals, er þau bjuggu á Reykhólum. Sigrún var kjörin Melvin Jones-félagi fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu Lions, en það er æðsta viðurkenning sem félagi í Lionsklúbbi getur hlotnast.

Að leiðarlokum viljum við félagarnir þakka Sigrúnu fyrir samfylgdina og verður hennar sárt saknað. Við sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd félaga Lionsklúbbsins Öglu,

María Erla Geirsdóttir
formaður.