Brúðhjón Anant Ambani og Radhika Merchant giftast um helgina.
Brúðhjón Anant Ambani og Radhika Merchant giftast um helgina. — AFP/Sujit Jaiswal
Það er mikið um dýrðir í indversku borginni Mumbai um helgina þegar sonur ríkasta manns Asíu gengur að eiga unnustu sína. Brúðkaupsveislan hófst raunar fyrir þremur mánuðum en talið er að brúðkaupið muni á endanum kosta á bili jafnvirðis 18-21 milljarðs króna

Það er mikið um dýrðir í indversku borginni Mumbai um helgina þegar sonur ríkasta manns Asíu gengur að eiga unnustu sína. Brúðkaupsveislan hófst raunar fyrir þremur mánuðum en talið er að brúðkaupið muni á endanum kosta á bili jafnvirðis 18-21 milljarðs króna.

Mukesh Ambani, sem er 67 ára, stýrir fyrirtækinu Reliance Industries. Tímaritið Forbes telur að eignir hans nemi 123 milljörðum dala, jafnvirði um 17 þúsund milljarða króna, og hann er samkvæmt því 11. ríkasti maður heims.

Yngsti sonur Ambanis, Anant, og unnusta hans, Radhika Merchant, sem bæði eru 29 ára, verða gefin saman að hindúasið um helgina í þriggja daga stjörnum prýddri afhöfn. Raunar má segja að brúðkaupsveislan hafi byrjað í mars með þriggja daga veislu í Gujarat á Indlandi þar sem boðsgestir voru um 1.500 talsins. Poppsöngkonan Riannah söng fyrir gesti en meðal þeirra voru Mark Zuckerberg stofnandi Facebook og Ivanka Trump, dóttir Donalds Trumps.

Til að slá á gagnrýnisraddir var einnig um 50 þúsund manns úr röðum almennings boðið til veislu í Jamnagar í Gujarat, heimabæ Ambanis.

Annar kafli brúðkaupsveislunnar hófst í júní þegar 1.200 gestum var boðið í lystisiglingu um Miðjarðarhafið. Söngkonan Katy Perry söng fyrir gestina á grímuballi í Cannes og meðal annarra skemmtikrafta voru Backstreet Boys og söngvarinn Andrea Bocelli.

Veisluhöldin hafa beint athygli að misskiptingu auðs á Indlandi. Indverjar eru nú 1,4 milljarðar talsins en áætlað er að um 1% íbúanna eigi rúman fimmtung allra eigna og þjóðartekjur á mann nema jafnvirði rúmlega 160 þúsund króna.