Jón Sturla Ásmundsson fæddist 17. júlí 1934. Hann lést 27. júní 2024.

Útför hans fór fram 4. júlí 2024.

Elsku pabbi okkar hefur nú kvatt eftir langt og farsælt líf, það vantaði þrjár vikur upp á 90 ára afmælisdaginn. Það má segja að hann hafi oft verið á undan sinni samtíð hvað varðar heilsusamlegt líferni. Hann stundaði ýmiss konar heilsurækt, ferðalög, félagsstörf og var mikill fjölskyldumaður. Hann var góð fyrirmynd fyrir okkur systur og fjölskyldur okkar. Fyrstu minningar okkar af ferðalögum voru ferðirnar norður í sveitina í Snartatungu til ömmu Svövu og afa Ásmundar. Oft var lagt af stað eftir vinnu og keyrt inn í sumarnóttina og við systurnar gátum sofnað í aftursætinu. Pabbi gat þulið upp öll bæjanöfn á leiðinni norður, einnig nöfn á fjöllum, ám og lækjum. Þetta voru alltaf ævintýraferðir því við undum okkur vel í sveitinni innan um dýrin, frændfólkið og náttúruna í stórfenglegum fjallasal í botni Bitrufjarðar. Frjálsræðið í sveitinni var yndislegt auk þess sem við fengum að taka þátt í ýmsum sveitastörfum. Pabbi og systkini hans fóru á skíði í sveitinni í gamla daga og þá notuðu þau tunnustafi í stað skíða og bara einn skíðastaf. Pabbi kom fjölskyldunni líka á skíði og flestar helgar yfir veturinn vorum við í Skálafelli, Hveradölum eða í Jósepsdal. Á sumrin tóku við fjallgöngur og ferðalög. Margar tjaldferðir voru farnar um landið með foreldrum okkar, góðum vinum og frændfólki. Þær ferðir eru dásamlegar í minningunni og hvatning til að miðla til barna okkar. Pabbi hjólaði í vinnuna áður en sú heilsubylgja byrjaði. Hann hjólaði einnig með okkur eldri dæturnar í leikskólann. Þá sat önnur á böglaberanum og hin á stönginni og allir voru hjálmlausir, þetta dugði í þá daga. Pabbi sótti sundlaugarnar flesta morgna og spilaði badminton sér til ánægju og síðar tók golfið við. Pabbi bjó sér til góðar venjur og sótti ýmis námskeið og bætti stöðugt við sig. Þau mamma sóttu danstíma og fóru í málaskóla á Englandi svo eitthvað sé nefnt. Þau voru mjög samhent að gera garðinn í Starrahólum fallegan og einnig fengu barnabörnin að klifra í trjánum, leika sér í sandkassanum og borða rabarbara. Þegar kom að starfslokum byggðu pabbi og mamma fallegan sumarbústað í Helludal í Bláskógabyggð, sem varð þeirra sælureitur. Þangað var notalegt að koma, enda alltaf „gott“ veður í Helludal.

Pabbi var alla tíð mikill fjölskyldumaður og bjuggu þau mamma okkur systrum fallegt heimili þar sem vinir okkar og seinna meir tengdasynir og barnabörn voru ávallt velkomin. Þar beið þeirra hlýja og alúð. Pabbi hafði einstaklega góða nærveru og var áhugasamur um hvað fólk, ungir sem aldnir, höfðu að segja. Hann gaf sér alltaf góðan tíma fyrir barnabörnin sem fylgdu honum eftir í ýmsum verkum heima við. Seinna bættust langafabörnin við og gladdist pabbi mjög þegar þau heimsóttu hann.

Við fjölskyldan eigum margar góðar minningar og fyrirmyndir í þeim mömmu og pabba sem eru til eftirbreytni. Við viljum þakka öllum þeim sem sýndu pabba stuðning, hlýhug, vinsemd og virðingu þegar hann þurfti á því að halda.

Blessuð sé minning hans,

Sigurlaug, Svava, Erna Björk og fjölskyldur.