Dani Olmo og Lamine Yamal eru lykilmenn í sóknarleik Spánverja.
Dani Olmo og Lamine Yamal eru lykilmenn í sóknarleik Spánverja. — AFP/Franck Fife
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En svo einfaldur er þessi fallegi leikur ekki. Það vitum við og það vita Spánverjar. Þeir munu því búa sig undir tvísýnan leik ...

Spænska landsliðið hefur unnið hug og hjarta álfunnar á Evrópumótinu í Þýskalandi undanfarnar vikur – og þótt víðar væri leitað. Leikgleði og almennur lífsvilji hefur skinið af liðinu og greinilegt að einhver hefur gleymt að greina mannskapnum frá því að þetta sé vinnuferð en ekki skemmtiferð. Leikmenn eru upp til hópa mættir til að njóta sín og gleðja í leiðinni aðra, ungir sem aldnir. Segi ég og skrifa en meira en 20 ára aldursmunur er á yngsta og elsta leikmanni liðsins.

Ekki þarf að fjölyrða um framgöngu Lamine Yamals í Þýskalandi; yngsta markaskorara í sögu lokakeppni EM og HM. Í gær, laugardag, bætti hann að vísu við sig einu aldursári – er orðinn fullra seytján vetra. Ungur aldurinn blasir við þegar horft er framan í piltinn en þegar hann hleypir á skeið úti á vellinum gleymist það um leið; maður man varla eftir svona þroskuðum unglingi á þessu svimháa getustigi. Yamal á svo sannarlega erindi með hraða sínum, áræðni og útsjónarsemi, hvort sem hann er að gera almennan usla, leggja upp mörk eða skora þau sjálfur með eftirtektarverðum elegans, eins og í undanúrslitunum.

Á hinum kantinum hefur verið síst minni sláttur á Nico Williams, yngri, sem varð 22 ára á föstudaginn. Eins gott að landsliðskokkurinn kunni að baka. Hann hefur herjað á varnir mótherjanna af sömu fimi og beinskeyttni og Yamal og á álíka stóran átt í því að gera kvöldstund með spænska landsliðinu að þeirri veislu sem raun ber vitni. Spánverjar hafa átt mörg frábær landslið á þessari öld en munurinn á þessu og því sem innihélt Xavi, Iniesta, Villa og þá menn alla er sá að þetta er meira blátt áfram. Meðan gamla liðinu féll hreint ekki illa að vera í reitabolta og hæðast þannig að andstæðingnum heilu og hálfu leikina þá er mantra þessa liðs að sækja fram og láta mótherjann finna til tevatnsins.

En til þess að geta sótt þarftu öfluga miðju til að verja knöttinn og stýra leiknum. Og hver er betur til þess fallinn en hinn ógurlegi Rodri sem stýrir sveit sinni af sömu festu og þokka og sjálfur Rafael Frühbeck de Burgos? Hvaða leikmaður í heimsboltanum í dag er betri en hann? Spyrjið bara Pep Guardiola og alla þá sem á einhvern hátt koma að hinu sigursæla liði Manchester City! Væru allir þessir titlar í húsi án hans? Nei, lagsi minn. Það verður að teljast ósennilegt.

Félagi hans á miðjunni, Fabián Ruiz, hefur sprungið út á mótinu, sívinnandi og síógnandi. Mér er sagt að úthaldið sé með þeim hætti að hann krefjist þess að fá að hlaupa heim á hótel að leikjum loknum – á undan liðsrútunni. Þessir menn hafa leikið hver öðrum betur.

Ekki má heldur gleyma hinum sókndjarfa miðvellingi Dani Olmo sem farið hefur mikinn eftir að hann leysti hinn lemstraða Pedri af hólmi; hann er lúsiðinn og reiðir hátt til höggs. Enn einn frábæri leikmaðurinn.

Það er helst að manni finnist sjálfur miðherjinn, Álvaro Morata, geta gert betur, sérstaklega upp við markið en á móti kemur að hann tekur talsvert til sín, færir liðið gjarnan framar og opnar þannig svæði fyrir aðra.

Vörnin hefur verið þétt og ég nefni Marc Cucurella sérstaklega; bæði fyrir vaska framgöngu en ekki síður vegna þess að starfssystir mín hér á blaðinu hefur útnefnt hann „glæsilegasta leikmann mótsins“. „Hann er eins og endurreisnarmaður,“ segir hún og fullyrðir að allir listmálarar sem aðhyllast gamla klassíska málverkið hljóti að bíða í röðum eftir að gera hann að fyrirsætu sinni.

Það er auðvitað óðum að breytast en fyrir mót voru þetta, fyrir utan Rodri, ekki allra stærstu stjörnurnar í Evrópuboltanum sem sést best á því hvaða félögum þeir tilheyra. Í byrjunarliðinu í dag koma Barcelona og Real Madrid bara til með að eiga sinn manninn hvort, Yamal og hægri bakvörðinn Dani Carvajal. Öðruvísi mér áður brá. Meira er verið að vinna með lið eins og Real Sociedad, Atletico Madrid, Chelsea, Athletic Bilbao, PSG og RB frá Hlaupsigum. Með fullri virðingu fyrir þeim. Miðvörðurinn Aymeric Laporte leikur meira að segja með Al Nassr í Sádi-Arabíu en þangað fara menn alla jafna til að deyja sparklegum dauða. Og auðvitað maka krókinn.

En eins og við þekkjum snýst fótbolti ekki endilega alltaf um að vera með bestu leikmennina, heldur besta liðið og það hefur Luis de la Fuente svo sannarlega tekist – að skapa liðsheild sem vinnur saman sem einn maður. Það er alls ekki sjálfgefið þegar menn eru með landslið í höndunum en eins og margir sparkskýrendur, innlendir sem erlendir, hafa verið duglegir að benda á upp á síðkastið þá minnir Spánn á EM um margt meira á félagslið en landslið.

Meira hól fær De la Fuente víst varla.

Torveldari leið

Synd væri að segja að leið Englendinga í úrslitin hafi verið jafnþokkafull og hjá Spánverjum. Væntingar voru miklar fyrir mótið enda liðið óvenjulega vel mannað en það hökti af stað í riðlinum og var býsna langt frá því að finna rétta taktinn, eða bara takt af einhverju tagi. Leikmenn virkuðu þungir, ragir og hugmyndasnauðir og leikirnir frómt frá sagt bara hundleiðinlegir. Allir með tölu. Samt vann England riðilinn sinn.

Ekki eins og að það hafi hjálpað þjálfaranum, Gareth Southgate, nokkurn skapaðan hlut. Hann var úthrópaður af leikum sem lærðum og sakaður um að vera að eyðileggja liðið, leikmennina, áhorfendurna, teið í leikhléi og Guð má vita hvað. Meira fífl hafði ekki sést á byggðu bóli frá dögum Ingjaldsfíflsins.

Áfram lufsaðist liðið í 16-liða úrslitunum gegn Slóvökum og hljóp ef eitthvað var ennþá meira inn í sig en áður. Ekkert benti til annars en að England væri á leiðinni heim með skottið á milli fótanna, uppsagnarbréf til handa Southgate var, að sögn, tilbúið í búningsklefanum og menn í óða önn að koma gapastokknum fyrir á Trafalgar-torgi. Ingjaldsfíflið hringsnerist í dys sinni. En hvað gerðist þá? Haldiði að Jude Bellingham hafi ekki vaknað af værum þyrnirósarsvefni er langt var liðið á uppbótartíma og komið auga á pípuhatt í miðjum vítateig Slóvakanna. Og hvað var í honum? Jú, kanína. Og það af dýrari gerðinni. Allt jafnt. Slóvakarnir voru slegnir út af laginu og í framhaldinu slegnir út úr mótinu í framlengingunni. Southgate fékk framhaldslíf. Bakkað var með bréfið og gapastokknum hent inn í gám. Svokallaðan „konteiner”, eins og sagt var í gamla daga.

Klippt var og límt í 8-liða úrslitunum. Sprækt lið Sviss komst yfir en aftur héldu einstaklingsgæði Englendingum á floti, að þessu sinni frá Bukayo Saka. Járn skall í járn í framlengingunni en England hafði, aldrei þessu vant, betur í vítaspyrnukeppni. Allir fimm leikmenn liðsins skoruðu af miklu öryggi, ónafngreindum saumaklúbbi roskinna kvenna í Devon-skíri til ómældrar undrunar en um leið ánægju.

Fengu minnisblaðið

Jæja, loksins var eitthvað farið að falla með Englendingum og nú var eins og blýið hefði loksins verið fjarlægt úr skónum, þegar liðið lék ljómandi vel í fyrri hálfleik gegn Hollendingum í undanúrslitunum. Meira að segja Phil Foden, sem tekið hafði Houdini á okkur fram að því, mætti í samkvæmið og sýndi sínar bestu hliðar. Allt var þó jafnt í leikhléi og seinni hálfleik jafnaðist glíman. Hollendingar ef eitthvað líklegri til að krækja í sigurinn þegar varamennirnir Cole Palmer og Ollie Watkins unnu saman að enn einu gæðamarkinu í blálokin. Enska liðið hefur bersýnilega fengið minnisblaðið um að knattspyrnuleikur standi í 90 mínútur og oftast rúmlega það.

Að öllu þessu sögðu ætti auðfenginn sigur að blasa við Spánverjum í dag. Og enn á raunar eftir að geta þess að England fór á pappírnum mun auðveldari leið í úrslitaleikinn; Slóvakía, Sviss og Holland eru mun árennilegri þrenna en Georgía, Þýskaland og Frakkland. Sumir segja raunar að úrslitaleikur mótsins hafi þegar farið fram; þegar Spánn vann sætan sigur á heimamönnum sjálfum, Þjóðverjum, sem einnig höfðu heillað með leik sínum.

En svo einfaldur er þessi fallegi leikur ekki. Það vitum við og það vita Spánverjar. Þeir munu því búa sig undir tvísýnan leik enda seigfljótandi stígandi í leik Englands en allir vita að liðið getur mun betur en það hefur sýnt á þessu móti. Þess utan er liðið ólseigt og seindrepið – og einhver stemning og lukka með því, að því er virðist.

Enska landsliðið er nú komið í annað sinn á fjórum árum í úrslitaleik á stórmóti eftir að hafa aðeins unnið það afrek einu sinni í sögunni fram að því, á HM 1966. Þar fór liðið með sigur af hólmi, eins og frægt er, en laut í gras eftir vítaspyrnukeppni á EM 2020, sem fram fór sumarið 2021. Í bæði skiptin var mótið haldið heima á Englandi, þannig að þetta verður fyrsti úrslitaleikur Englands á erlendri grundu. Ekki þarf að fjölyrða um þýðinguna sem sigur nú hefði fyrir ensku þjóðina, eftir allan þennan galeiðuróður, og Lundúnir og aðrar borgir myndu skíðloga í nótt og næstu daga og nætur. Og ímyndið ykkur sigurglottið á vörum Southgates.

Spánverjar eru mun meira EM-lið; hafa unnið mótið þrisvar, 1964, 2008 og 2012, og setja met vinni þeir mótið í kvöld. Þjóðverjar eiga einnig þrjá titla, tvo þeirra sem Vestur-Þýskaland. Spánn hefur aðeins einu sinni tapað úrslitaleik á EM; gegn Frökkum í París 1984. Eini úrslitaleikur Spánverja á HM fór líka vel, 2010.

Einn leikmaður sem var í hópnum 2012 er enn á svæðinu, Jesús Navas, sem er á 39. aldursári. Hann átti prýðilegan leik gegn Frökkum, í hægri-bakverðinum í fjarveru Carvajals. Átti allskostar við sjálfan Kylian Mbappé.

Skeleggir greinendur

Ríkissjónvarpið hefur gert mótinu góð skil og vel hefur tekist til með sparkskýrendur. Ég hygg að Hjörvar Hafliðason og Óskar Hrafn Þorvaldsson viti tveir meira um fótbolta en við hin öll til samans sem heyrum til þessari þjóð. Adda Baldursdóttir og Arnar Gunnlaugsson eru líka skeleggir greinendur enda þótt stundum vanti íslenskan texta undir þann síðarnefnda. Hann er þó aðeins byrjaður að þýða enskuna úr sjálfum sér eða þiggja við það aðstoð frá sessunautum sínum eða prýðilegum þáttarstjórnanda, Kristjönu Arnarsdóttur.

Ólafur Helgi Kristjánsson er líka frábær greinandi og meðlýsandi en aðeins má vara sig á honum vegna óþols hans gagnvart enskum fótmenntum. Frægt var þegar hann fékk hér um bil taugaáfall í beinni útsendingu í sjónvarpssal eftir að Englendingar lögðu Danina hans á síðasta EM. Fram að þessu hefur hann notað tækifærið, þó hann sé að lýsa leikjum annarra þjóða, til að hnýta í enska liðið og enska dómara. Svo var hann óvænt með í lýsingu á leik Englands og Sviss og þótti þá hápunktur veislunnar að enskur dómari gæti ekki sinnt dómgæslunni.

Ég get svo sem ekki séð hvað ensku dómararnir hafa gert af sér umfram aðra dómara á mótinu; þeir eru bara að framfylgja settum VAR-reglum. Eru sumsé undir oki rúmfræðinnar, hljóðbylgnanna og annarrar tækni og vísinda. Annars eru nýjasta tækni og vísindi farin að leika svo stórt hlutverk í fótboltaleikjum að nær væri að fá Stjörnu-Sævar eða Sigurð H. Richter til að lýsa því sem fyrir augu ber en hina hefðbundnu sparklýsendur. Þó þeir séu upp til hópa fínir.

Kannski á næsta móti.

Höf.: Orri Páll Ormarsson