Friðþjófur Björnsson fæddist 18. nóvember 1930. Hann lést 22. júní 2024. Útför Friðþjófs fór fram 8. júlí 2024.

Kæri frændi. Stundum eru atvik þannig að háð er barátta sem ekki verður metin á vogarskálum sigurs eða ósigurs. Eitt þessara atvika er þegar þú vildir tefla við mig. Þú komst í heimsókn á Kleppsveginn. Hverra erinda var aukaatriði fyrir mér, en ég upplifði sem frændrækni og vináttu við fjölskylduna alla tíð síðan. Á borðstofuborðinu var tafl með þeim mannafla sem tiltækur er þegar mikið liggur við. Ég var 11 ára.

„Viltu tefla?“ spurðir þú. Hafandi aðeins teflt við pabba sem hafði verið að kenna mér mannganginn sagði ég: „Já, já,“ fullur af óðsmannsæði og sjálfsöryggi.

Þetta var afdrifarík skák, óljós eða ljós, eins og mannlífið getur oft og tíðum verið opnaði þessi skák þó pælingu um hvernig áskoranir hversdagsins eru metnar.

Hvernig skákin fór er ekki það sem þetta skrif fjallar um, heldur sú gagnkvæma virðing sem þar varð til og umhyggja. Stundum er við ræddum þessa skák síðar, sem ekki var þó oft, sagðir þú á einhverjum tímapunkti: „Jæja, var það svo?“ og hallaðir brosandi undir flatt.

Og ég sagði: „Maður kemst aldrei lengra en minnið ber mann.“

Síðan var ekkert meira um það að segja nema að í þögninni skapaðist líklega pláss sem vinskapur og vonir eru búnar til úr. Aldrei síðan tefldum við aftur.

Eiginlega er ekki hægt að minnast þín, kæri frændi, nema nefna Hauk og Marsí foreldra þína. Það var ævintýri að koma til þeirra í Sólheimana margar hæðir yfir hversdaginn, oft sem hluti af sunnudagsbíltúrnum. Út um glugga sást vítt um alla veröld, því aldrei hafði maður verið í slíku stórhýsi þar sem sjóndeildarhringurinn var óendanlegur og milli glugga annar óendanleiki fullur af málverkum.

Vindlareykur Hauks og kakóilmurinn úr eldhúsinu sem færður var fram í fínu stelli fyllti vitin og unaður einhvers sem ekki var hversdagsins. Og eins merkilegt og það er man ég ekki eftir heimsókn til þeirra öðruvísi en að bros og gæska fyllti sálina.

Svo líða ár. Allt of mörg en reyndar mishratt.

Hver veit svo sem um aðrar skákir sem tefldar eru? Ein er hver skák og að lokum fellur kóngur. Sæll frændi og takk fyrir skákina.

Votta fjölskyldu þinni alla mína samúð.

Benedikt
Gestsson.

Það er mér ánægja að minnast kollega míns Friðþjófs Björnssonar sem lést nýlega háaldraður. Leiðir okkar lágu saman eftir að ég kom heim frá framhaldsnámi í Bandaríkjunum en Friðþjófur hafði stundað nám í sömu greinum um tveim áratugum áður.

Friðþjófur var stúdent frá MR 1954 og lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands vorið 1963. Að því loknu var hann aðstoðarlæknir á sjúkrahúsunum í Reykjavík 1963-64 og héraðslæknir í Vopnafirði 1964-65 en hélt til Bandaríkjanna í framhaldsnám í lyflækningum og lungnasjúkdómum árið 1966. Friðþjófur hafði mjög vinstri sinnaðar skoðanir og dró enga dul á það. Sagan segir að hann hafi haft nokkrar áhyggjur af því að þetta kynni að valda vandræðum við komuna til landsins. Þegar kom að því sem kallast landamæraborðið var hann spurður að því hvort rétt væri að hann væri félagi í Kommúnistaflokki Íslands? Friðþjófur sagði þá í mjög ákveðnum tón að það væri ekki nóg með það að hann væri kommúnisti heldur hefði flokkurinn verið stofnaður við eldhúsborðið heima hjá honum. Landamælaverðinum var nokkuð brugðið við þessa hreinskilni en bauð Friðþjóf og fjölskyldu hans velkomin til Bandaríkjanna.

Friðþjófur og kona hans Selma Sigurjónsdottir ásamt börnum dvöldu í Bandarikjunum í 4 ár og stundaði hann nám í almennum lyflækningum og lungnasjúkdómum við sjúkrahús í Maryland og Wisconsin. Árið 1970 héldu Friðþjófur og fjölskyldan heim til Íslands og hóf hann störf á lyflækningadeild Landspítalans og vann þar fram að starfslokum. Ég kynntist Friðþjófi fyrst þegar ég kom frá mínu framhaldsnámi árið 1985. Vorum við þá kollegar í sömu sérgreininni, Friðþjófur á Landspítalanum en ég á Landakoti og síðar á Borgarspítalanum. Ég sóttist eftir starfi á Landspítala en minn ágæti mentor Þórður Harðarson sagði mér að spítalinn hefði ekki þörf fyrir fleiri lungnalækna í bili vegna þess að vel væri mannað og þar væri fyrir meðal annarra Friðþjófur Björnsson sem væri ötull og vel liðinn af kollegum og sjúklingum. Þetta urðu mér nokkur vonbrigði en eftir því sem ég kynntist Friðþjófi betur sættist ég á þessi rök. Friðþjófur var vandvirkur og góður læknir sem sinnti öllum verkefnum af alúð og fagmennsku. Hann var eftirsóttur við ráðgjöf og voru umsagnir hans sérstaklega vandaðar og vel ígrundaðar. Hann var einnig ágætlega fær í þeim inngripum sem tilheyra sérgreininni svo sem speglunum og ástungum. Þá var oft skemmtilegt að vera með honum á fundum en lungnalæknar hittust á föstudagsmorgnum á Vífilsstöðum til að ræða ahugaverð fagleg mál.

Við hjónin kynntumst Friðþjófi og Selma betur í eftirminnilegri ferð lungnalækna þá þing til Cancun í Mexikó. Þar var boðið upp á skoðunarferð til hinnar fornu borgar Ínka, Chitzen Itza og voru Friðþjófur og Selma með okkur. Þetta var eftirminnilegur dagur sólríkur og fagur og við kynntumst þessari fornu menningu og höfðum ánægju af samverunni. Þegar ég lít til baka er gott að eiga þessa góðu minningu um Friðþjóf og Selmu og okkar góðu kynni. Við sendum fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Steinn
Jónsson.