Kosningabarátta Joe Biden Bandaríkjaforseti stígur út úr flugvél bandaríska flughersins í Detroit í gær.
Kosningabarátta Joe Biden Bandaríkjaforseti stígur út úr flugvél bandaríska flughersins í Detroit í gær. — AFP/Mandel Ngan
Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Blaðamannafundur, sem Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt í Washington á fimmtudagskvöld, virðist ekki hafa sannfært bandaríska demókrata um að hann sé heppilegasti frambjóðandi flokksins í forsetakosningum í nóvember næstkomandi.

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Blaðamannafundur, sem Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt í Washington á fimmtudagskvöld, virðist ekki hafa sannfært bandaríska demókrata um að hann sé heppilegasti frambjóðandi flokksins í forsetakosningum í nóvember næstkomandi.

Biden svaraði sumum spurningum blaðamanna ruglingslega en hann gaf einnig ýtarleg svör um sýn sína á stöðu heimsmála, þar á meðal stríðið í Úkraínu og átök Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, sem undirstrikuðu áratugalanga reynslu hans sem þátttakanda í alþjóðlegum stjórnmálum.

En Biden tókst væntanlega ekki að róa alla þá, sem var brugðið eftir slaka frammistöðu hans í kappræðum við Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, 27. júní sl. Hann vísaði á blaðamannafundinum t.d. til Kamölu Harris, varaforseta síns, sem „Trump varaforseta“ og á leiðtogafundi NATO í Washington fyrr um kvöldið kynnti hann Volódimír Selenskí, forseta Úkraínu, sem Pútín forseta þótt hann leiðrétti sig strax.

Óttast valdaleysi

Á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN segir, að margir heimildarmenn, sem fréttamenn stöðvarinnar hafi rætt við, búist við að þrýstingur muni halda áfram að aukast á Biden að draga sig í hlé. Vaxandi ótti sé meðal demókrata við að Biden muni hafa neikvæð áhrif á flokkinn og dragi úr möguleikum á að demókratar nái meirihluta í neðri deild Bandaríkjaþings í kosningum í haust og að einnig sé naumur meirihluti flokksins í öldungadeildinni í hættu. Þannig kunni flokkurinn að verða nánast valdalaus, fari svo að Donald Trump verði hlutskarpari í kosningunum í nóvember.

Að minnsta kosti 17 þingmenn Demókrataflokksins hafa hvatt Biden til að draga sig í hlé og leyfa flokknum að útnefna annan frambjóðanda í forsetakosningunum sem sé heppilegri til að takast á við Trump. Nokkrir þingmannanna lýstu þessari skoðun eftir blaðamannafund Bidens á fimmtudagskvöld, að sögn Reuters-fréttastofunnar, þar á meðal Jim Himes, fulltrúadeildarþingmaður frá Connecticut. „Við verðum að tefla fram öflugasta mögulega frambjóðandanum til að mæta þeirri ógn sem stafar af Trump. Ég tel ekki lengur, að sá frambjóðandi sé Joe Biden,“ sagði Himes.

Í sama streng tók þingkonan Brittany Petterson, sem situr í fulltrúadeildinni fyrir Colorado. Hún skrifaði á samfélagsmiðlum að Biden væri góður maður sem hefði þjónað landi sínu af trúmennsku um margra áratuga skeið. Hann hefði bjargað þjóðinni einu sinni og geti gert það á ný með því að víkja.

En Biden hefur einnig fengið stuðningsyfirlýsingar frá áhrifamiklum þingmönnum demókrata. Þannig sagði James Clyburn, sem situr í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, í samtali við NBC-sjónvarpsstöðina í gær, að hann styddi Biden með ráðum og dáð, hvaða ákvörðun sem hann kunni að taka.

Clyburn, sem er 83 ára, nýtur virðingar meðal bandarískra blökkumanna, en stuðningur þeirra skiptir miklu máli fyrir forsetaframboð Bidens. Clyburn hefur setið á Bandaríkjaþingi í yfir þrjá áratugi og tók virkan þátt í kosningabaráttu Bidens fyrir kosningarnar árið 2020.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, ítrekaði í gær stuðning sinn við Biden og það sama gerði öldungadeildarþingmaðurinn Chris Coons.

Vísbendingar eru um að sumir þeirra, sem hafa lagt fram fé til framboðs Bidens íhugi að hætta því. En Dmitri Mehlhorn, sem staðið hefur fyrir fjáröflunum fyrir framboð Bidens, sagði þó við Reuters, að margir þeirra sem hafa safnað fé fyrir framboðið hafi sagt sér að þeir telji að Biden hafi staðið sig vel á blaðamannafundinum og sé sá eini, sem gæti sigrað Trump.

Heldur baráttunni áfram

Biden gaf hins vegar skýrt til kynna að hann hefði engin áform um að stíga til hliðar.

„Ef ég mæti á flokksþing (demókrata) og allir lýsa því yfir að þeir vilji annan frambjóðanda, þá er það hið lýðræðislega ferli,“ sagði Biden á blaðamannafundinum. „En það mun ekki gerast.“ Hann hélt kosningabaráttunni ótrauður áfram í gær og fór m.a. til Detroit í Michigan þar sem hann flutti ræðu í gærkvöldi.

Eftir kappræðurnar virðist stuðningur við Trump hafa aukist. Þannig hefur fylgi við fyrrverandi forsetann mælst meira en við núverandi forseta í fleiri skoðanakönnunum meðal bandarískra kjósenda.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson