Natalie Portman tengdi vel við hlutverkið.
Natalie Portman tengdi vel við hlutverkið. — AFP/Valerie Macon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lífið sem henni hefur verið úthlutað á illa við Maddie Schwartz enda er henni sem gyðingi og húsmóður ekki ætlað að láta til sín taka utan veggja heimilisins í Baltimore um miðjan sjöunda áratuginn. Þess utan kemur eiginmaður hennar ekki vel fram við hana

Lífið sem henni hefur verið úthlutað á illa við Maddie Schwartz enda er henni sem gyðingi og húsmóður ekki ætlað að láta til sín taka utan veggja heimilisins í Baltimore um miðjan sjöunda áratuginn. Þess utan kemur eiginmaður hennar ekki vel fram við hana. Dag einn er Maddie því nóg boðið, hún pakkar niður í tösku og yfirgefur bónda sinn og úthverfin fyrir fullt og fast. Sest síðan að í snauðu hverfi, þar sem flestir íbúar eru dökkir á hörund. Þar hefur hún tök á að draga fram lífið.

Um leið og Maddie svolgrar í sig nýfengið frelsið fer óupplýst morðmál að sækja að henni. Cleo Johnson, einstæð þeldökk móðir, sem einnig naut frelsisins, finnst myrt í gosbrunni. Lögregla kemst ekki – eða vill ekki komast – áfram með rannsóknina og Maddie tekur til sinna ráða; ræður sig sem blaðamann og fer að grennslast fyrir um afdrif Cleo þessarar. Við flökkum fram og til baka í tíma, þannig að líf Cleo fær ekki minni vigt en líf Maddiear. Hvað kom fyrir þessa ungu konu og hver ber ábyrgð á dauða hennar? Og látið ykkur heldur ekki bregða þó að leyndarmál eða tvö komi upp á yfirborðið.

Þetta er söguþráðurinn í nýjum bandarískum myndaflokki, Lady in the Lake, en streymisveitan Apple TV+, sem margir Íslendingar hafa aðgang að, hefur sýningar á honum 19. júlí. Höfundur og leikstjóri er hin ísraelska Alma Har‘el en byggt er á samnefndri glæpasögu eftir Lauru Lippman. Með helstu hlutverk fara Natalie Portman, hennar fyrsta burðarhlutverk í sjónvarpi, og Moses Ingram.

Portman, sem sjálf er gyðingur, fædd í Ísrael, segir söguna knúna áfram af þrá eftir frelsi sem allar konur ættu að tengja við. „Við byrjum á því að sjá hana [Maddie] dýfa tánni út í þetta frelsi en síðan fer frelsi hennar að troða á frelsi annarra,“ segir leikkonan í samtali við miðilinn Vanity Fair.

Fljótt kemur í ljós að Maddie er engin tepra og hikar ekki við að beita vafasömum aðferðum til að verða sér út um upplýsingar; eins og að draga lögreglumanninn Ferdy Platt (sem Y‘lan Noel leikur) á tálar. Meðleigjandi Maddiear, hin bólufreðna Judith Weinstein (Mikey Madison), er heldur ekki öll sem hún er séð.

Portman kinkar kolli þegar Vanity Fair ber Maddie saman við persónuna sem hún lék í kvikmyndinni May December en hún var lævís leikkona. „Þær hafa báðar villst skemmtilega af leið og hika ekki við að beita öllum tiltækum ráðum til að fá sitt fram. Maddie gerir sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif framganga hennar hefur á aðra vegna þess að hún er svo upptekin af eigin vegferð. Þess vegna fer allt úr böndunum.“

Har’el segir kúgarann og fórnarlambið stöðugt vega salt í sögunni. „Ég er að vísa í pælinguna um innflytjendur af gyðingaættum og aðlögun þeirra sem í senn einkenndist af sjálfsbjargarviðleitni og þrá til að eignast hlutdeild í ameríska draumnum. Maður lítur á þetta fólk sem samherja sína en á sama tíma munum við aldrei skilja hvað það í raun og veru þurfti að leggja á sig. Það talaði klárlega til mín,“ segir hún í Vanity Fair.

Hlutverk Maddiear togaði í Portman enda bjó amma hennar einmitt í Baltimore á þeim tíma sem sagan á sér stað. „Það var tryllt að ganga um sömu göturnar og koma á sömu staðina. Ég nefni í því sambandi veitingastað, rekinn af gyðingum, sem enn er til. Það var ótrúlegt að koma þangað og ímynda sér að fjölskylda mín hefði verið þar 60 árum áður. Það var líka magnað að hugsa til þess og kynna sér hvernig það var að vera kona og gyðingur í hjónabandi á þessum tíma, allar hömlurnar sem það hafði í för með sér. Sú upplifun var mjög persónuleg fyrir mig. Ég held að við skiljum okkur sjálfar best gegnum mæður okkar og mæður okkar best gegnum mæður þeirra.“

Stærri strigi

Cleo hefur meiri vigt í þáttunum en bókinni enda vildi Har‘el ekki síður beina kastljósinu að lífi þeldökkra kvenna en gyðinga á erfiðum tímum. „Við strekktum mun stærri striga undir hana og vildum kanna hvernig það hefði verið að vera þeldökk kona í Baltimore á þessum tíma og um leið beina sjónum að erfiðleikunum sem hún gekk gegnum og ráðgátunni sem morðið á henni er.“

Lupita Nyong‘o átti upphaflega að leika Cleo en sagði sig frá verkefninu á elleftu stundu. Það þýddi að upptökur voru hafnar áður en Moses Ingram kom að verkefninu. „Það var mjög erfitt,“ segir Har‘el, „en borgaði sig vegna þess að kvikmyndaguðirnir hafa líka velþóknun á sjónvarpi. Þeir færðu okkur Moses Ingram sem er hreint stórkostleg í þáttunum. Hún var á margan hátt límið sem tengdi allt saman vegna þess að hún er frá Baltimore og fjölskylda hennar var þar á þessum tíma. Hún innsiglaði verkefnið fyrir okkur.“

Sjálf segir Ingram við Vanity Fair að hún hafi einmitt séð fyrir sér hlutverk sem þetta þegar hún ákvað að hella sér út í leiklistina. Hún fékk ekki nema tvær vikur til að setja sig inn í hlutverkið og átti vont með að átta sig á framvindunni vegna þess að senur voru ekki teknar upp í réttri tímaröð. „Ég mætti hrædd til vinnu á hverjum morgni,“ segir hún en bætir við að hún hafi treyst leiðsögn Har‘el fullkomlega. Og þegar hún loksins sá fyrsta þáttinn voru viðbrögðin á þennan veg: „Ég bara grét, grét og grét meira. Ekkert verkefni hefur gefið mér nálægt því eins mikið á ferlinum til þessa.“

Gaf í eftir gambítinn

Moses Ingram er þrítug að aldri. Hún óx úr grasi í Baltimore í hópi sex systkina. Móðir hennar annaðist börn og faðir hennar starfaði hjá borginni.

Ingram nam leiklist en frægð og frami létu á sér standa þangað til hún fékk hlutverk Jolene, vinkonu söguhetjunnar frá munaðarleysingjahælinu, í hinum geysivinsæla myndaflokki The Queen’s Gambit árið 2020. Flokkurinn fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina, Ingram var tilnefnd til Emmy-verðlauna og skyndilega stóðu henni ýmsar dyr opnar. Síðan hefur hún leikið í fjórum kvikmyndum, þar á meðal The Tragedy of Macbeth eftir Joel Coen, og sú fimmta er nú á klippiborðinu. Þá hefur Ingram leikið í þáttunum Big Cigar og Obi-Wan Kenobi.

Höf.: Orri Páll Ormarsson