[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Óskar Bergsson oskar@mbl.is Útlit er fyrir frekari fækkun ferðamanna í haust og vetur að sögn Oddnýjar Arnarsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustunnar hjá Íslandsstofu.

Baksvið

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Útlit er fyrir frekari fækkun ferðamanna í haust og vetur að sögn Oddnýjar Arnarsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustunnar hjá Íslandsstofu.

„Við létum gera tvær kannanir, bæði neytendakönnun og söluaðilakönnun meðal Bandaríkjamanna í mars þar sem fram kemur að ferðavilji dvínar þar um 14% á milli ára. Könnunin sýnir jafnframt að búast má við frekari fækkun hjá okkur frá öllum mörkuðum fyrir haustið og veturinn. Mest er fækkunin frá Þýskalandi og Bretlandi,“ segir Oddný.

Í júní fóru 212 þúsund erlendir farþegar frá landinu um Keflavíkurflugvöll, samkvæmt mælingum Ferðamálastofu. Um er að ræða 21 þúsund færri brottfarir en mældust í júní í fyrra eða 9% fækkun. Flestar brottfarirnar voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, eða 19,5% færri en í júní í fyrra. Þjóðverjar voru í öðru sæti,17,5% færri en i júní í fyrra. Frá áramótum er um að ræða 1,0% fjölgun milli ára.

Gistinóttum fækkar

Þá voru skráðar gistinætur í maí um 611 þúsund, sem er um 15% minna en í sama mánuði í fyrra þegar þær voru um 720 þúsund talsins. Gistinætur erlendra ferðamanna í maí voru um 78% gistinátta, eða um 478 þúsund talsins, sem er 18% fækkun frá fyrra ári þegar þær voru 584 þúsund.

Flugfélagið Play flutti fleiri farþega í júnímánuði en sætanýting dregst þó saman. Alls flutti félagið 173 þúsund farþega í júní, sem er 7,5% meira en í sama mánuði í fyrra.

Icelandair flutti 514 þúsund farþega í júní og er það 1% minna en í sama mánuði í fyrra. Í tilkynningu félagsins þess efnis segir að eftirtektarverð breyting hafi orðið á milli markaða þar sem tengifarþegum fjölgaði um 15% í júní. Hins vegar hafi farþegum til landsins fækkað milli ára.

Snarpur vöxtur síðan 2019

Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu, segir að nýlega hafi verið gerð könnun meðal erlendra ferðaheildsala þar sem fram kemur að það hafi verið snarpur vöxtur á Íslandi í fyrra miðað við samkeppnislöndin og því beri að varast að draga of stórar ályktanir á þessum tímapunkti.

„Það er mikil gróska í greininni og við vorum nú nýlega að gefa út þúsundasta leyfið frá 2019 til ferðasölu dagsferða sem segir okkur að margt fólk er að stofna fyrirtæki í ferðaþjónustunni.“

Hvernig er hægt að auðvelda fyrirtækjum reksturinn?

„Hið opinbera gerir það á margvíslegan hátt. Tökum sem dæmi alla þá uppbyggingu sem hefur verið ráðist í hvort sem það er í gegnum framkvæmdasjóð ferðamannastaða eða flugþróunarsjóð þar sem lögð er áhersla á að fljúga inn á aðra staði en Keflavík. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur fjárfest fyrir 11 milljarða á 10 árum samkvæmt núvirði,“ segir Elías.

Eldgos og verðlag hafa áhrif

Hann telur að samdrátturinn sé tímabundinn og gert sé ráð fyrir rúmlega tveimur milljónum ferðamanna til landsins í ár og reiknað verði með vexti á næstu árum.

Hefur gistináttaskatturinn haft áhrif á fækkun ferðamanna?

„Gistináttaskatturinn var tekinn tímabundið af á covid-tímanum og var settur aftur á um áramótin, þannig að það er ekki verið að leggja á nýjan skatt. Það er engin ein skýring á þessum samdrætti en eldgos og verðlag hafa auðvitað veruleg áhrif,“ segir Elías Bj. Gíslason.