Orkuveitan Drjúgur hluti hagnaðar síðasta árs fer í arðgreiðslur.
Orkuveitan Drjúgur hluti hagnaðar síðasta árs fer í arðgreiðslur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Við höfum um árabil gagnrýnt mjög ríka arðgreiðslukröfu borgarinnar á innviðafyrirtækin, bæði Orkuveituna og Faxaflóahafnir. Þetta skýtur sérlega skökku við í tilviki Orkuveitunnar hvað varðar arðgreiðslu vegna síðasta rekstrarárs, þar sem afkoma fyrirtækisins var verri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en samt er ákveðið að ráðast í arðgreiðslu sem er ríflegri en áætlað var og er drjúgur hluti af hagnaði ársins,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið, þegar leitað er viðbragða hennar við samþykkt borgarráðs fyrr í vikunni til 6 milljarða arðgreiðslu úr hendi fyrirtækisins.

Langstærsti hluti þess fjár rennur til borgarinnar sem á ríflega 93,5% hlut í Orkuveitunni.

Mikilvægar innviðafjárfestingar fram undan

„Við gagnrýnum þetta ekki síst vegna þess að bæði í tilviki Orkuveitunnar og Faxaflóahafna eru fram undan gríðarlega mikilvægar innviðafjárfestingar. Ég get nefnt að í Orkuveitusamstæðunni eru slíkar fjárfestingar áætlaðar um 230 milljarðar til ársins 2028 og nú er ekki árferði til þess að draga svona mikið fé úr rekstrinum sem frekar ætti að nýta til að fjárfesta í innviðum,“ segir Hildur.

Stoppa í göt í rekstri

„Það er augljóst hvað liggur þarna að baki. Innviðafyrirtækin eru nýtt sem mjólkurkýr til að reyna að stoppa í götin í rekstri borgarinnar. Við höfum bent á að mun nærtækara væri að bæta rekstur Reykjavíkurborgar en að blóðmjólka þessi fyrirtæki. Frekar ætti að ráðast að yfirbyggingunni sem vex ár frá ári og vegur gríðarlega þungt í rekstri borgarinnar,“ segir Hildur.

„Mér þykja þessi vinnubrögð ámælisverð, ekki síst vegna þess að það eru mikilvægar innviðfjárfestingar fram undan og engar forsendur til að gera svo ríkar arðgreiðslukröfur. Innviðir Orkuveitunnar eru t.a.m. gríðarlega mikilvægir ákveðnum grunnþörfum og lífsgæðum í okkar samfélagi. Það skiptir máli að þeir innviðir séu bæði traustir og öruggir og að tryggð sé varðstaða um þá starfsemi. Ef leita á lausna við fyrirliggjandi vanda í rekstri borgarinnar, þá er ekki rétta leiðin að seilast í vasa innviðafyrirtækjanna. Mun nærtækara væri að ráðast að hinu sívaxandi bákni í borginni,“ segir Hildur enn fremur.