1919 Allir afkomendurnir voru samankomnir á 75 ára afmæli Húnna sem var haldið rétt hjá Billund í Danmörku.
1919 Allir afkomendurnir voru samankomnir á 75 ára afmæli Húnna sem var haldið rétt hjá Billund í Danmörku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húnn Snædal Rósbergsson fæddist á Akureyri 13. júlí 1944. „Ég fæddist í Aðalstræti 16 og mamma átti mig uppi á fjórðu hæð. Við fluttum á Klapparstíg þegar ég var sex ára og síðan upp í Rauðumýri, en við vorum sex systkinin,“ segir Húnn…

Húnn Snædal Rósbergsson fæddist á Akureyri 13. júlí 1944. „Ég fæddist í Aðalstræti 16 og mamma átti mig uppi á fjórðu hæð. Við fluttum á Klapparstíg þegar ég var sex ára og síðan upp í Rauðumýri, en við vorum sex systkinin,“ segir Húnn sem er alltaf kallaður Húnni og er algjör goðsögn í fluginu fyrir norðan og þótt víðar væri leitað.

Húnni var mikill hestamaður þegar hann var í sveit sem barn, og hann var listrænn og mikið fyrir útiveru. En eftir að hann fór í fyrsta flugtímann 16 ára var ekki aftur snúið og allt snerist um flug eftir það. „Ég var mikið að smíða flugvélamódel þegar ég var um fermingu, en svo fór ég að læra flug hjá Tryggva Helgasyni. Honum fannst ég grípa fullt fast um stýrið í fyrstu og sagði við mig að ég væri hálfeintrjáningslegur við þetta, en okkur samdi vel og hann var góður kennari. Ég lauk við sólóflugið og fékk einkaflugmannsskírteini hjá honum, og síðar fékk ég atvinnuflugmannsskírteinið. Það var ekki slæmt hjá manni sem ætlaði upphaflega að verða smiður,“ segir Húnni og hlær.

Á þessum tíma vantaði flugumferðarstjóra fyrir norðan. „Þeir töluðu við mig sem unnu í Turninum, Sverrir og Jónas og sögðu mér endilega að fara til Keflavíkur og læra flugumferðarstjórn, sem væri ágætisframtíðarstarf.“ Það varð úr að Húnni sló til og fór suður.

„Ég hélt að þetta fólk þarna í Keflavík væru hálfgerðir villimenn, því pabbi minn var mikill kommúnisti og bar þessum Könum ekki vel söguna. En mér líkaði vel þarna og þetta voru indælismenn og ég lærði heilmikið í ensku og mesta furða hvað maður gat bjargað sér,“ segir Húnni sem starfaði við flugumferðarstjórn fyrir norðan í 40 ár.

Karlinn á prikinu

Húnni starfaði meðfram flugumferðarstjórninni sem einkaflugmaður og hann hafði mikinn áhuga á flugvélasmíði og smíðaði þrjár vélar frá grunni og var langt kominn með þá fjórðu þegar hann veiktist árið 2012. Fyrst endursmíðaði hann svokallaðan Gyrocopter árið 1971, sem er nokkurs konar þyrla en með engu húsi. Norðanmenn kölluðu hann „karlinn á prikinu“ þegar hann flaug Gyrocopternum á þessum árum. Húnni missti bókstaflega mótorinn úr Gyrocopternum í sjóinn í flugi árið 1975, en náði að lenda honum mótorlausum á Akureyrarflugvelli og ekki allir sem gætu leikið það eftir. Það varð síðasta flug Gyrocoptersins.

„Önnur flugvélin sem ég smíðaði var TF-KEA og ég smíðaði hana úr timbri sem ég fékk í KEA, setti krossvið yfir og dúk og svo allar mæla, en hún var opin og bara með vindskerm. Ég flaug þessari vél út um allt, bæði til Reykjavíkur og til baka, til Egilsstaða, á Sauðárkrók og Kópasker,“ segir Húnni sem flaug fyrsta flugið með vélinni 1981, en smíðin hófst nokkrum árum fyrr. TF-KOT svipar til þýsku Bücker 133 Jungmeister-flugvélanna, og Húnni lauk smíðinni 1990. Þau eru mörg hundruð flugin sem hann hefur flogið á vélum sínum og hann var að fljúga alveg fram til 2016.

Húnni er í frábæru formi, enda búinn að stunda hjólreiðar frá því hann var fimmtugur. „Ég labba á veturna þegar snjór er og hálka, stundum tvisvar á dag, og fer út þótt það sé einhver slappadrífa. Svo hjóla ég mikið inn á flugvöll þar sem ég vann til að slíta ekki öll bönd við flugvöllinn. Þar höfum við nokkrir athvarfið okkar og ég hitti vinina í kaffi.“

Flugvélar Húnna eru til sýnis á Flugsafni Íslands á Akureyri, en hann færði safninu þær að gjöf árið 2020.

Fjölskylda

Eiginkona Húnna er Guðrún Freysteinsdóttir, f. 12.9. 1952, fv. launafulltrúi og þau búa á Akureyri. Foreldrar hennar voru hjónin Freysteinn Jónsson, f. 17.5.1903, d. 24.6. 2007, og Helga Hjálmarsdóttir, f. 5.10. 1915, d. 22.1. 2003, bændur á Vagnbrekku í Mývatnssveit. Húnni var áður kvæntur Sólrúnu Sveinsdóttur, f. 29.8. 1942, hjúkrunarfræðingi.

Börn Húnna eru 1) Þórný Snædal Húnsdóttir, f. 14.8. 1966, flugfreyja, gift Svavari Sverrissyni skrúðgarðyrkjumeistara, búa í Kópavogi; og 2) Katrín Snædal Húnsdóttir, f. 18.8. 1971, hönnuður í Bretlandi. Dætur Guðrúnar eru Álfheiður Árnadóttir, f. 5.8. 1972, sjúkraliði í Kópavogi, og Freydís Helga Árnadóttir, flugfreyja og kennari í Njarðvík, gift Guðna Erlendssyni mannauðsstjóra. Barnabörnin eru þrettán og barnabarnabörnin fimm.

Systkini Húnna eru 1) Hólmsteinn smiður, f. 2.9. 1945, d. 31.12. 2016; 2) Gígja, fv. bóndi á Dagverðareyri, nú á Akureyri, f. 9.7. 1947; 3) Þórgunnur, doktor í rúnafræðum í Stokkhólmi, f. 14.12. 1948; 4) Magnús prófessor, f. 17.4.1952, d. 3.12. 2017; og 5) Bragi, pípulagningamaður á Akureyri, f. 19.6. 1954.

Foreldrar Húnna voru Rósberg G. Snædal, rithöfundur og kennari, f. 8.8. 1919, d. 9.1. 1983, og Hólmfríður Magnúsdóttir húsfreyja, f. 1.4. 1918, d. 6.7. 2013. Þau bjuggu á Akureyri.