Gísli Þorsteinsson fæddist 24. september 1943. Hann lést 22. júní 2024. Útför hans fór fram 8. júlí 2024.

Við systurnar vorum lengi vel einu barnabörn afa og ömmu. Sem þýddi aðeins eitt, að það var alvörudekur að fá þegar við mættum í heimsókn. Við slógum hendinni nú ekki á móti því og fengum okkar prinsessu meðferð í gistipartý hjá afa og ömmu.

Á hverjum sunnudegi voru bakaðar íslenskar pönnukökur en það var okkar uppáhald. Afi var nefnilega pönnukökumeistari. Ég held það hafi ekki runnið upp sá dagur að við vöknum heima hjá þeim og ekki var ilmur úr eldhúsinu. Ef það vantaði í uppskriftina þá var afi rokinn út í búð að redda málunum.

Það var alltaf gott að vera í ömmu og afa húsi, þau veittu okkur alltaf frelsi til að fíflast og leika, klæða okkur í búninga, föndra og baka.

Af einhverri ástæðu bað ég (Anita) afa oft um að lesa fyrir mig bókina Piltur og stúlka, sem ég botnaði ekkert í en mér fannst röddin hans svo þægileg að sofna við.

Við eigum margar góðar minningar úr Vestmannaeyjum. Þangað fórum við oft með ömmu og afa í vettvangsferðir og frí. Afi og amma sýndu okkur alla staði sem þau bjuggu á þar, Sprönguna, Herjólfsdal, afi gekk með okkur upp á Kirkjufell þar sem enn er hægt að finna volgt hraun. Okkur fannst gaman að fara saman á Sædýrasafnið, þótt við hefðum séð það margoft, afi nennti alltaf með okkur í sund og reyndi að kynna okkur fyrir golfi. Það hefur ekki náð festu enn þá.

Goslokahátíð og Þjóðhátíð standa alltaf upp úr í heimsóknum til Eyja. Þar eigum við fjölskyldan yndislegar stundir saman. Allir leggja hönd á plóg við að gera og græja, baka, tjalda, skreyta, elda, spila, hlæja og njóta. Í dag eigum við þar griðastað sem sameinar fjölskylduna.

Anita Rós og
Ísabella Rós.