Landsmót hestamanna fór fram á svæði Fáks í Víðidal og glatt á hjalla að venju, þó sumaveðrið gæti verið misjafnt.
Landsmót hestamanna fór fram á svæði Fáks í Víðidal og glatt á hjalla að venju, þó sumaveðrið gæti verið misjafnt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var varla að finna á suðvesturhorninu að komið væri hásumar. Kannski nær að tala um lágsumar. Notkun þunglyndislyfja hjá fullorðnum hefur aukist um þriðjung á síðastliðnum tveimur áratugum

5.7.-12.7.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Það var varla að finna á suðvesturhorninu að komið væri hásumar. Kannski nær að tala um lágsumar.

Notkun þunglyndislyfja hjá fullorðnum hefur aukist um þriðjung á síðastliðnum tveimur áratugum. Notkunin hér er sú mesta innan OECD.

Landsvirkjun bindur vonir við hefjast handa við Hvammsvirkjun og vindorkuverið í Búrfellslundi síðar í sumar og stækkun Sigöldu og Þeistareykjavirkjunar snemma á næsta ári. Samanlagt munu verkefnin fjögur skila Landsvirkjun 350 MW í fyllingu tímans.

Margir lögðust í ferðalög um liðna helgi og töluvert um hátíðahöld, svo sem Írskir dagar á Akranesi, N1 fótboltamótið á Akureyri, Goslokahátíð í Eyjum og Allt í blóma í Hveragerði, að ógleymdu Landsmóti hestamanna sem fram fór í Reykjavík.

Göngumanns á Skálafellsjökli í Vatnajökli var saknað en hann fannst um síðir látinn fyrir botni Birnudals í Suðursveit.

Allt að 40% færri gistu á tjaldstæðum á Norður- og Austurlandi nú í júní en á sama tíma í fyrra. Það er að mestu rakið til leiðindaveðurs.

Hafin er gjaldtaka af ferðamönnum við fossinn Dynjanda í Arnarfirði.

Erlendir svikahrappar geta nú dulbúist undir innlendum símanúmerum til þess að pretta fólk og eru þess nokkur dæmi að undanförnu.

Kjarnafæði Norðlenska samþykkti kauptilboð Kaupfélags Skagfirðinga (KS) í allt hlutafé félagsins, en einstökum bændum í eigendahópnum er þó í sjálfsvald sett hvort þeir selja.

120 ára afmæli bílsins á Íslandi var fagnað á fornbílasýningu í Árbæjarsafni.

Ríkisútvarpið tók að birta fréttir, sem þýddar eru af gervigreindargræju. Starfsmenn útvarpsins heita því að lesa þær fyrir birtingu.

Skemmtiskip kom til Keflavíkur.

Umhverfisráðherra ákvað að þrjár nýjar stofnanir á hans snærum yrðu utan höfuðborgarsvæðisins; ný Umhverfis- og orkustofnun á Akureyri, Náttúrufræðistofnun á Vesturlandi og Náttúruverndarstofnun á Hvolsvelli. Höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs verða hins vegar áfram þar í grenndinni.

Magnús Magnússon, fv. prófessor, dó 97 ára.

Utanríkisráðherra vill verja meiri fjármunum til varnarmála.

Fólk í ferðaþjónustu telur að erlendir ferðamenn forðist Reykjavík í auknum mæli. Heimamenn geta því hætt sér aftur í bæinn.

Morgunblaðið er ekki eitt um að verða fyrir árásum erlendra tölvuþrjóta en að jafnaði heppnast um tvær slíkar árásir á mánuði af um 125 tilraunum.

Stjórnvöld stefna að því að Ísland verði riðulaust innan tveggja áratuga með ræktun fjárstofns með verndandi arfgerðum gegn smiti.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra lýsti vilja til þess að friða Grafarvog þar sem hann er búsettur. Sömuleiðis vill hann fremur Sundagöng en Sundabraut.

Ísfirðingar hyggjast búa til nýtt byggingarland við Eyrina með uppfyllingu undir 500 manna byggð.

Ekki er til sérstök viðbragðsáætlun ef jarðeldar létu á sér kræla á Hengilssvæðinu.

Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt dó 89 ára.

Formaður leigubílstjórafélagsins Frama telur að orðrómur um að leigubílstjórar okri á ferðamönnum sé farinn að fæla fólk frá landinu. Hann rekur það til nýrra leigubílstjóra, ekki allra með leyfi.

Verulega hefur dregið úr komu ferðamanna til landsins en í gistingu nemur samdrátturinn um 18%. Fyrir vikið keppast stórar hótelkeðjur við að bjóða Íslendingum tilboðsverð á gistingu, nánast eins og plágan sé komin aftur.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að grunnskólinn virkaði ekki, það sýndu PISA-kannanir. Hann þarfnaðist uppstokkunar. Víða var undir það tekið, bæði meðal skólafólks og sveitarstjórnarmanna.

Utanríkisráðherra fékk leyfi til þess að stofna nýja orðu, aðallega að því er virðist fyrir starfsmenn utanríkisráðuneytisins.

Fjöldi bænda, flestir úr Þingeyjarsýslu, hefur leitað fjárhagsaðstoðar Bjargráðasjóðs vegna kals í túnum.

Á hinn bóginn voru útköll slökkviliðs vegna gróðurelda í vor meira en tvöfalt fleiri en í fyrravor. Alls voru þau 34, þar af fjögur tengd jarðeldum á Reykjanesskaga.

Ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur nú mál tuga starfsmanna Wolt, sem störfuðu án tilskilinna leyfa, til athugunar.

Atvinnulausum í hópi erlendra borgara hér á landi hefur fjölgað talsvert að undanförnu.

Vatnsbúskapur Landsvirkjunar fer ekki vel af stað í ár eftir erfiðan vetur þegar takmarka þurfti raforkuafhendingu.

Kári Árnason, íþróttakennari á Akureyri og landsliðsmaður í fótbolta, dó 80 ára.

Kólnunar hefur orðið vart í hagkerfinu, sem m.a. birtist í töluvert minni virðisaukaskattsveltu. Jafnvel kann að koma til samdráttar síðar á árinu ef allt gengur vel.

Átján manns voru ákærðir vegna margvíslegra brota tengdum fíkniefnum. Lögreglan sagði þá alla íslenska ríkisborgara.

Bræðurnir Snorri og Pétur Alan Guðmundssynir hafa selt Melabúðina til hóps fjárfesta og velunnara þessarar vinsælu hverfisverslunar. Þeir ætla engu að breyta.

Mun minna er að gera hjá bílaleigum og hafa þær jafnvel sumar þurft að leggja upp laupana.

Sex manns voru fluttir á sjúkrahús með þyrlum Landhelgisgæslunnar eftir alvarlegt umferðarslys á Holtavörðuheiði þar sem tveir bílar enduðu úti í móa.

Minningarreitur um franska skipverja sem fórust í ofsaveðri í Flóahreppi árið 1870 var afhjúpaður á Staðastað á Snæfellsnesi.

Hafinn er undirbúningur vegna almyrkva á sólu sumarð 2026 sem mun sjást vel hér á landi. Von er á allnokkrum hópi ferðamanna sem vill horfa á undrin.

Ekki eru allir fyrir sólmyrkva og ferðuðust margir af suðvesturhorninu norður eða austur í land til þess að sjá til sólar, veðurblíðu og hita.

Útlit er fyrir að formlegar viðræður um sameiningu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar hefjist í haust.

Fyrirtækið Kapp gerði tilboð í hluta þrotabús 3X Skagans, en önnur tilboð hafa látið á sér standa.

Ákæra var gefin út gegn skipstjóra og stýrimanni flutningaskipsins Longdawn vegna ásiglingar á strandveiðibátinn Höddu HF52. Þeir játa báðir sök.

Þó fáir hafi farið í Parísarhjólið við Reykjavíkurhöfn er gríðarleg ásókn í loftbelgjaflug.

Orkuveitan greiddi út 6 milljarða króna, 94% af hagnaði fyrra árs, í arðgreiðslu til eigenda, nær alfarið hinnar fjárvana Reykjavíkurborgar. OR verður því að láta sér 383 milljónir duga í viðhald og orkuöflun í ár.

Sumir rugla með bakarí og apótek, en keyra mun um þverbak nú þegar bakaríið Brikk flytur í húsnæði Apóteks Austurbæjar gamla.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hélt í sína hinstu opinberu heimsókn og fór í Árneshrepp á Ströndum.

Halldór Ben Jónsson, fyrrverandi formaður fótboltadeildar Fram og varaformaður KSÍ, dó 75 ára.