Björn Einarsson
Björn Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveigjanleiki og hraði eru lykilþættir í vöruflutningum til og frá Íslandi að mati viðskiptavina, ekki síst vegna sérstöðu og legu landsins.

Björn Einarsson og Hilmar Pétur Valgarðsson

Íslenskt samfélag gerir kröfu um aðgengi að ferskum afurðum í sinni verslun, enda er það krafa okkar sem hér búum að lífskjör séu sambærileg við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Á sama hátt er það mikið hagsmunamál fyrir útflytjendur að koma verðmætum vörum hratt á erlenda markaði á skilvirkan og hagkvæman hátt, ekki síst ferskum afurðum.

Ísland hefur ekki sömu valkosti í flutningum og aðrar þjóðir á meginlandi Evrópu sem hafa fjölbreyttari möguleika t.d. með flutningabílum, lestum og prömmum. Þá er mun meiri birgðastýring erlendis í gegnum stór vöruhús sem eru á hagkvæmum stöðum fyrir dreifingu.

Sveigjanleiki og hraði eru lykilþættir í vöruflutningum til og frá Íslandi, ekki síst vegna sérstöðu landsins sem eyja sem treystir á skilvirkan inn- og útflutning. Þetta fáum við hjá Eimskip staðfest alla daga í samskiptum okkar við viðskiptavini sem gera mjög ríka kröfu um góða þjónustu, áreiðanleika, sveigjanleika og sem stystan afhendingartíma. Margt þarf að koma saman til að geta staðið undir slíkum kröfum – eins og skipastóll, siglingakerfi, afkastageta í höfnum og framúrskarandi starfsfólk.

Það átta sig ekki allir á því að Sundahöfn er fjarri því að vera eina millilandahöfnin á Íslandi. Nokkur erlend skipafélög hafa einnig boðið upp á sambærilega þjónustu í Sundahöfn, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Reyðarfirði, Seyðisfirði, Akureyri, Sauðarkróki og Ísafirði. Reyndar er það svo að hlutdeild Sundahafnar í inn- og útflutningi frá landinu hefur farið minnkandi undanfarin ár.

Viðskiptavinum standa fjölbreyttari flutningakostir til boða en áður og miðað við gögn Hagstofunnar má áætla að árið 2023 hafi rétt tæp 20% af heildarflutningum í tonnum til og frá landinu farið í gegnum Sundahöfn á vegum Eimskips. Þá er undanskilið magn sem getur ekki farið með gámaskipum, s.s. eldsneyti, súrál o.fl. Sé það hins vegar talið með er hlutdeild Eimskips í gegnum Sundahöfn innan við 10% af heildarflutningum til og frá landinu í tonnum talið.

Ýmsir hafa talað fyrir því að koma upp einokunarfyrirkomulagi í hafnarþjónustu við Sundahöfn. Í nýrri skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Portwise vann fyrir Eimskip kemur fram, með vel rökstuddum hætti, að einokunarfyrirkomulag muni lækka þjónustustig og sveigjanleika ásamt því að minnka samkeppnishæfni í virðiskeðjunni til og frá Íslandi. Í skýrslunni kemur enn fremur fram að núverandi fyrirkomulag sé ákjósanlegast fyrir íslenskt samfélag þar sem það auðveldar stuttan afhendingartíma fyrir ferskvörur, stuðlar að hagkvæmni í inn- og útflutningi ásamt því að bjóða upp á þann sveigjanleika sem þarf við þær aðstæður sem oft eru á Íslandi, meðal annars vegna krefjandi veðuraðstæðna. Þá er sú kenning að einokunaraðili í Sundahöfn muni frekar laða að fleiri skipafélög til hafnarinnar óraunhæf að mati Portwise.

Eimskip leggur mikinn metnað í að vinna náið með viðskiptavinum sínum til að mæta þörfum í öflugum lausnum og sveigjanleika sem skilar sér á endanum til neytenda. Samþætting siglinga og gámahafna er mjög mikilvæg til að tryggja framúrskarandi þjónustu og sveigjanleika gagnvart viðskiptavinum. Sem dæmi tökum við í viku hverri á móti útflutningsgámum í Sundahöfn með ferskan fisk til lestunnar í skip nánast fram að brottför, sem styður við þá auknu verðmætasköpun sem hefur verið í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum áratugum. Við tökum gáma með ferskum ávöxtum og grænmeti frá borði strax við komuna til Reykjavíkur og afhendum með miklum hraða til viðskiptavina. Þetta getum við í ljósi okkar öfluga siglingarkerfis og samþættingu við hafnarþjónustu þrátt fyrir að oft skapi veðuraðstæður frávik frá siglingaáætlun.

Samkeppni er öllum til hagsbóta. Eimskip hefur t.d. um árabil þjónustað grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line með hafnarþjónustu í Sundahöfn, en félagið er í samkeppni við Eimskip í siglingum. Þá hefur Eimskip líst því yfir að það sé tilbúið til samtals um hafnarþjónustu við önnur skipafélög hvenær sem er.

Þegar fjallað er um málefni Sundahafnar þarf að horfa til þeirrar sérstöðu sem við búum við í okkar samfélagi sem fámenn eyja í Norður Atlantshafi sem reiðir sig á hraða, sveigjanlega og áreiðanlega þjónustu í inn- og útflutningi. Um ríkt hagsmunamál er að ræða fyrir íslenskt samfélag og því mjög mikilvægt að skoða málið vel frá öllum hliðum áður en ráðist er í breytingar sem geta skaðað hagsmuni lands og þjóðar.

Björn er framkvæmdastjóri Sölu- og viðskiptastýringar hjá Eimskip og Hilmar Pétur er framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Eimskips.