James Lester Rooks fæddist í Riderwood í Washington-ríki í Bandaríkjunum 24. júní 1946. Hann lést á jóladag 2023.

Foreldrar hans voru Soffía Florence Vatnsdal Rooks og Alfred Lester Rooks. Soffía Florence var íslensk í báðar ættir. Systkini James voru Richard Lyle, f. 1936, Delores Anette, f. 1937, Janis Kay, f. 1939, Dorothy Jean, f. 1942, og Joanne Roxy, f. 1944.

James stundaði nám í fiskifræðum við Washington-háskóla í Seattle og útskrifaðist árið 1972. Eftir það starfaði hann hjá Boeing-fyrirtækinu og fluttist til Marysville í Washington-ríki.

Minningarathöfn um hann fór fram í Marysville 21. júní 2024.

Vorið 1975 fór ég í ferðalag til Bandaríkjanna ásamt móður minni og nokkrum ættingjum. Ég var þá átta ára gömul. Helsti tilgangur ferðarinnar var að hitta vesturíslenska ættingja okkar, og í nokkra daga dvöldumst við í Seattle hjá frænku okkar, Láru Slater, og Ted manni hennar, en í Seattle hittum við líka Ethel systur Láru. Allt var þetta heilmikið ævintýri fyrir litla stúlku. Það var svo kvöld eitt hjá Láru og Ted að ég var orðin dauðsyfjuð eftir matarboð og ferðir til og frá. Ég ætlaði að fara að hátta, en þá leiddi mamma mig til ungs manns og sagði: „Una Magga, þetta er Jim frændi þinn.“ Það var James, sonur Florence systur Ethelar og Láru, sem var kallaður Jim. Við gátum ekki talað saman því ég kunni ekki ensku, ég lét því nægja að heilsa unga manninum syfjulega, en tók samt eftir því að hann hafði sérlega blá augu.

Lengri urðu þessi fyrstu kynni okkar Jims ekki, en eftir að við komum heim til Íslands frétti ég að Jim ætlaði bráðum að koma og heimsækja okkur. Mamma hafði líka heyrt að vinir hans hefðu gantast með það að hann myndi líklega giftast íslenskri stúlku, en þá hefði Jim svarað: „Já, ef þær eru allar jafn indælar og Una Magga.“ Ég var hissa þegar ég heyrði þetta og skildi ekki alveg hvað ég hefði gert til þess að verðskulda þetta hrós.

Svo kom Jim til Íslands og dvaldist heima hjá okkur meðan á heimsókninni stóð. Hann fékk auðvitað nóg að gera við að heimsækja íslenska ættingja og skoða landið, en hann gaf sig líka heilmikið að litlu frænkunni: kenndi mér ameríska leiki, bjó til úr flasskubbi lítinn ljósastaur til að setja fyrir utan brúðuhúsið mitt og gaf mér smágjafir. Við urðum þannig bestu vinir og þótt ég sæi hann aldrei framar eftir að hann fór heim til Bandaríkjanna hélst alltaf bréfa- og símasamband milli Jims og fjölskyldu minnar.

Jim hefði líklega komið aftur til Íslands ef alvarleg vanheilsa hefði ekki komið í veg fyrir það. Hann fékk nýrnasjúkdóm og þurfti að vera stöðugt undir læknishendi. Við höfðum reglulega samband við hann með bréfum, kortum og símtölum, og þó að mikil fjarlægð væri á milli okkar var það greinilegt að þetta samband var Jim afskaplega mikils virði. Þegar Jim fór að eldast versnaði heilsan enn og síðast var hann orðinn að mestu blindur. Um síðustu jól sendum við mamma honum kort, eins og vanalega, og á jóladag hringdi ég til hans. En það var þá Ali, vinkona Jims, sem svaraði í símann. Jim var dáinn, hafði skilið við aðeins fáeinum mínútum áður en ég hringdi. Hann hafði samt fyrr um daginn verið sæmilega hress og Ali hafði lesið fyrir hann jólakortin, meðal annars kortið frá okkur. Mér þótti vænt um að við skyldum ná að senda Jim þessa síðustu kveðju. Ef líf er eftir þetta líf er ég viss um að Jim frændi minn er nú kominn á stað þar sem enginn sjúkdómur angrar hann framar og bláu augun hans sjá allt skýrt að nýju.

Una Margrét Jónsdóttir.

Það var snemma vors 1975 sem ég hitti Jim Rooks, vesturíslenskan frænda minn, í fyrsta sinn. Vorum við þá fimm úr fjölskyldu minni á ferð í Bandaríkjunum og hittum þar marga vesturíslenska ættingja. Í Seattle héldum við til hjá Láru Vatnsdal Slater og manni hennar, Ted. Eitt kvöldið héldu þau veislu og buðu nokkrum vesturíslenskum ættingjum. Þá sáum við Jim frænda okkar fyrst, bjartleitan, svipfríðan ungan mann. Hann brást glaður við þegar ég ávarpaði hann á ensku og ljómaði allur þegar ég fór að segja honum frá langafa hans, Jóni Jónssyni, ömmubróður mínum.

Jim sagðist vilja koma til Íslands og sjá Munkaþverá í Eyjafirði, staðinn þar sem forfeður hans og formæður höfðu búið. Hann var á þessum tíma nýlega búinn að ljúka námi í fiskifræðum í Seattle. Og Jim kom til Íslands um sumarið þetta sama ár og sá Munkaþverá. Hann hélt til hjá fjölskyldu minni hér í Reykjavík og hitti margt af frændfólki. Löngu seinna sagði hann mér að hápunktur ferðarinnar hefði verið að koma í Munkaþverá, njóta þar gestrisni frændfólksins og sjá leiði langafa síns.

Að loknu námi fékk Jim góða vinnu hjá Boeing-fyrirtækinu og fluttist til Marysville. Þar undi hann sér vel og eignaðist góða vini. Hann keypti sér lítið vinalegt einbýlishús og þar heimsótti ég hann haustið 2002. Jim bauð mér í kvöldmat á litlum notalegum veitingastað í Marysville. Strax og ég kom þar inn sá ég skilti sem á stóð „Karaoke“. Ekki vissi ég þá hvað þetta þýddi, en Jim sagði mér að gestir á veitingastaðnum fengju tækifæri til að syngja opinberlega fyrir hina gestina. Mikil var undrun mín þegar Jim stóð upp og fór að syngja með fallegri barítónrödd. Það gekk prýðilega og var mikið klappað. Þegar ég sagði Ethel Vatnsdal frænku hans frá þessu varð hún undrandi því hann hafði ekki verið að flíka þessum tónlistarhæfileikum sínum. Ethel ákvað að gefa honum peninga fyrir söngnámi, það gekk eftir og var Jim til gleði.

Það sem mér fannst einkenna Jim framar öllu var hið ljúfa viðmót og hlýlega bros. Hann var búinn að ætla sér að koma aftur til Íslands og heimsækja frændfólkið, en þá gripu örlögin í taumana, hann veiktist mikið og greindist með nýrnabilun á háu stigi. Þetta gjörbreytti tilveru hans þar sem hann var bundinn við nýrnavél nokkrum sinnum í viku. Lífið varð honum erfitt og hann sá að önnur Íslandsferð yrði ekki að veruleika. Við mæðgurnar höfðum oft samband við hann í síma og hann kvartaði aldrei, en talaði mest um hvað hjúkrunarfólkið reyndist honum vel. Ali Hendricks var góð vinkona hans og reyndist honum stoð og stytta í veikindunum. Vinkona mín, Anna Hauksdóttir sem var búsett í Bandaríkjunum, kynntist Jim í gegnum mig og tókst mikil vinátta milli þeirra. Lengi vel bauð hún honum að halda jól með sér og fjölskyldunni á hverju ári.

Jim sýndi kjark og hugarró í veikindum sínum og í samtölum okkar brá hann oft á glens. Ég kveð hann með söknuði og miklu þakklæti fyrir elskusemi í garð minn og fjölskyldu minnar. Við munum geyma minninguna um okkar góða frænda Jim.

Kristín Jónsdóttir
frá Munkaþverá.