Gamanleikur „Við ákváðum snemma í æfingaferlinu að einblína á kómedíuna í verkinu og æfa það eins og gamanleikrit þó að það hafi ekki endilega verið skrifað þannig,“ segir Adolf Smári.
Gamanleikur „Við ákváðum snemma í æfingaferlinu að einblína á kómedíuna í verkinu og æfa það eins og gamanleikrit þó að það hafi ekki endilega verið skrifað þannig,“ segir Adolf Smári. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er hreyfingarlaus maður á brautarteinunum og örfáar mínútur í næstu lest. Á lestarstöðinni bíður fólk átekta. Ætlar enginn að gera neitt? Hver kemur manninum til hjálpar? Er hann fullur? Eða kannski dáinn? Þannig hefst nýtt leikrit Adolfs Smára…

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

Það er hreyfingarlaus maður á brautarteinunum og örfáar mínútur í næstu lest. Á lestarstöðinni bíður fólk átekta. Ætlar enginn að gera neitt? Hver kemur manninum til hjálpar? Er hann fullur? Eða kannski dáinn? Þannig hefst nýtt leikrit Adolfs Smára Unnarssonar Undir sem frumsýnt verður í næstu viku í sviðslistahúsinu Afturámóti. Þrjár sýningar verða í allt, þann 18. júlí, 26. júlí og 14. ágúst.

„Ég skrifaði þetta verk þegar ég var nýkominn til Berlínar, eftir að ég upplifði svipað atvik sjálfur – að það væri maður á lestarteinunum og stutt í næstu lest,“ segir Adolf Smári í samtali við Morgunblaðið. „Mig langaði til að rannsaka þetta augnablik nánar, enda ótrúlega áhugaverðar kringumstæður. Ég fór síðan að spinna út frá því.“

Réttarhöld á sviði

Undir gerist, eins og áður segir, á neðanjarðarlestarstöð í ónefndri borg í ónefndu landi. „Þar eru fimm einstaklingar að bíða eftir næstu lest, þetta er utan háannatíma og það er fámennt á stöðinni. Eitt af öðru fara þau síðan að taka eftir því að það liggur hreyfingarlaus maður á teinunum. Og það eru fjórar mínútur í næstu lest,“ segir Adolf Smári. „Verkið er í raun frásagnir þeirra af þessum degi, hvar þau voru, hvert þau voru að fara, hvenær þau sáu hann fyrst og hvenær þau heyrðu hvert annað hrópa. Hægt og bítandi fer maður síðan að átta sig á því að þetta er í rauninni slagur um sannleikann á milli þeirra, af því að sögurnar samræmast ekki.

Verkið gerist því á tveimur plönum, það er ein sögulína eða slagur um sannleikann sem á sér stað í þessum kringumstæðum þegar einstaklingarnir sjá manninn á teinunum í fyrsta skipti, og síðan er annar slagur sem fer fram í leikhúsinu sjálfu þar sem þau standa frammi fyrir áhorfendum og véfengja sögur hvert annars. Þannig að þetta verða eins konar réttarhöld á sviði og um leið eins konar rannsóknarleikur okkar áhorfenda sem reynum að góma þau í lyginni.“

Yfir og undir og allt um kring

Verkið er samið með íslenska leikhúsgesti í huga og Adolf Smári segir ekki koma að sök að sögusviðið sé framandi. Þvert á móti. „Í leikhúsinu er yfirleitt sagt að það sé gott að hafa ákveðna fjarlægð á milli aðstæðnanna sem sögupersónur eru í og áhorfenda, svo að þeir geti skoðað þær með krítískum augum. Ég held að neðanjarðarlestarstöðin sé heillandi sögusvið fyrir íslenska leikhúsgesti að ganga inn í. Það eru vissulega engar neðanjarðarlestir hér á landi og vandi heimilislausra [eitt af þeim viðfangsefnum sem verkið snertir á] er öðruvísi en á meginlandi Evrópu, en fyrir vikið þá getum við speglað alls konar aðrar og stærri spurningar í kringumstæðunum. Hverjum erum við til dæmis ekki að til að hjálpa í knýjandi aðstæðum núna? Fyrir mér þá getur íslenskt leikrit alveg eins átt sér stað í sumarbústað og á neðanjarðarlestarstöð.“

Titillinn, Undir, hefur margræða merkingu og vísar meðal annars til þess að leikritið á sér stað neðanjarðar. „Það er kannski augljósasta merkingin. En síðan er líka margt undir hjá einstaklingunum fimm sem verða vitni að þessum aðstæðum. Mögulega líf annarrar manneskju, til dæmis. Svo standa þau þarna á leiksviðinu og þurfa að réttlæta gjörðir sínar og öll eru þau að reyna að þvo hendur sínar af atburðinum. Til að mynda er ein persónan leikari og hefur mestar áhyggjur af því að verða slaufað, þannig að það sem er undir er líka að einhverju leyti virðingin eða mannorðið. En þetta er leikur að orðum og þó að þetta sé mín túlkun á titlinum þarf það ekki endilega að þýða að hún sé sú eina sem er rétt.“

Náungakærleikur, ábyrgð og samfélag er á meðal þess sem fengist er við í verkinu og aðspurður segist Adolf Smári oft sækja innblástur í kristna trú. „En svo velti ég líka fyrir mér ímynd velferðarsamfélagsins og hugmyndum um að þar ríki traust og kærleikur og að fólk komi hvort öðru til aðstoðar. Oft er það alls ekki raunin og ég held að þegar öllu sé á botninn hvolft byggi samfélagið líka að miklu leyti á eigingirni, hagsmunasamkeppni og fordómum.

Mér finnst mjög áhugavert að skoða þessi átök á milli ímyndarinnar og þess sem er í raun. Í verkinu eru settar á svið persónur sem allar vilja sýna fram á að þær séu góðar manneskjur og virkir þátttakendur í samfélaginu, en svo kemur í ljós að þegar á hólminn er komið eru hlutirnir kannski ekki alveg eins og þau halda fram að þeir séu.“

Einblína á kómedíuna

Að sögn Adolfs Smára hefur æfingaferlið gengið vel og margt komið skemmtilega á óvart. „Verkið er ekki endilega skrifað sem gamanleikrit, það er pólitískt og heimspekilegt og á köflum frekar þungt. Hins vegar ákváðum við snemma í æfingarferlinu að æfa það eins og gamanleikrit. Bæði vegna þess að persónurnar eru fyndnar, og leikararnir satt að segja ótrúlega fyndnir, en líka því að við vildum forðast að áhorfendum liði eins og verið væri að predikera yfir þeim. Við ákváðum þess vegna að einblína frekar á kómedíuna í verkinu og mögulega reyna að koma aftan að leikhúsgestum,“ segir hann og bætir síðan við. „Ég er ekki mjög pólitísk manneskja en enda samt oft á því að gera pólitísk verk. Ég veit ekki af hverju það er en ég held að leikhúsið svari mínum pólitísku, og líka heimspekilegu, þörfum.“

Undir verður sýnt í sviðslistahúsinu Afturámóti, líkt og áður kemur fram, en það hefur aðsetur í Háskólabíói. „Ég heyrði af þessu verkefni á meðan ég var úti í Berlín og langaði strax til að vera með. Þegar teymið að baki Afturámóti hafði samband við mig fannst mér þetta því alveg kjörið tækifæri til að koma leikritinu á svið,“ segir Adolf Smári. „Þetta er enn þá mjög nýtt og það er spennandi að fá að taka þátt í því að þróa rödd leikhússins.“

Töfrar stofuleikhússins

Sjálfur er Adolf Smári menntaður í leikstjórn frá Tékklandi þar sem hefð er fyrir hinu svokallaða stofuleikhúsi. „Það mest spennandi eða róttækasta í tékknesku leikhúsi í kringum 1980 átti sér stað í stofunni hjá leikskáldinu Václav Havel, af þvi að hann var bannaður og mátti ekki sýna i leikhúsum,“ útskýrir hann. Í Tékklandi hefur stofuleikhúsið því listrænt gildi á við stóru leikhúsin og segir Adolf Smári þetta veita sér innblástur.

Undir er verk sem þarf í raun bara leikara. Það væri vissulega hægt að eyða miklum pening í leikmyndina og reyna að búa til neðanjarðarlestarstöð á sviðinu af mikilli nákvæmni, en þetta er fyrst og fremst leikrit um fólk. Í því koma fram efnilegir menntaðir leikarar sem túlka sínar persónur vel og það virkar fullkomlega. Það eru líka einhverjir töfrar í því að gefa ímyndunarafli áhorfenda lausan tauminn gagnvart þessari sögu.“ Nánari upplýsingar um sýningartíma Undir og miðakaup er að finna á vefnum afturamoti.is.

Höf.: Snædís Björnsdóttir