Arnar Sigurðsson
Arnar Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meginefni skýrslunnar er um mikilvægi þess að unglingum sé ekki selt áfengi, sem segja má að sé sérsvið ÁTVR.

Arnar Sigurðsson

Í framhaldi af umræðuþættinum Spursmál skrifar Ragný Þóra Guðjohnsen dósent gegn viðskiptafrelsi á Íslandi með áfengi. Til áhersluauka notar Ragný hugtakið „ýtrustu sérhagsmuni“ og svarar málefnum sem fram komu sem „staðlausum stöfum“ en eftirlætur lesendum sínum að finna út af hverju stafir hafi ekki stað. Öfugt við fullyrðingu Ragnýjar, þá snýst viðskiptafrelsi um að hygla hagsmunum margra á kostnað fárra. Núverandi kerfi hyglar hins vegar fáum (hilluplásshöfum) á kostnað margra (neytenda).

Ragný talar um að ótalmargar rangfærslur sem fram hafi komið í þættinum megi leiðrétta eins og kostnað heilbrigðiskerfisins af áfengisneyslu. Það málefni var hins vegar ekki rætt í þættinum heldur sölufyrirkomulag áfengis. Því til viðbótar mætti benda Ragný á að það eru skattgreiðendur sem bera kostnað af heilbrigðisþjónustu en ekki „heilbrigðiskerfið“. Í því sambandi mætti minna Þóru á að kostnaður samfélagsins af rekstri ÁTVR er 5,5 milljarðar árlega, sem einhverjir sem láta sig málið varða myndu segja að mætti nýta betur annars staðar. Ef Ragný er haldin þeim ranghugmyndum að einokunarverslanir ÁTVR standi undir heilbrigðiskerfinu má benda henni á ársreikning stofnunarinnar er þar má glöggt sjá að arðurinn af hinni annars stórfurðulegu tóbaksheildsölu niðurgreiðir dreifingu á áfenginu. Mætti kannski nota þá fjármuni til rekstrar á heilbrigðiskerfinu? Og í beinu framhaldi: Hvernig fer niðurgreiðsla saman við torveldun á aðgengi?

Eins og títt er um skoðanasystkini Ragnýjar er hún líklega duglegri í að afrita nettengla en í eiginlegum lestri eða gagnrýninni hugsun. Þannig afritar hún tengla máli sínu til stuðnings sem við nánari athugun kemur í ljós að eru fremur rök til stuðnings netverslunar.

Ein umræddra rannsókna sem ættuð er frá Ástralíu byrjar reyndar á að taka fram að „are no comprehensive and systematic analyses of the laws or their effectiveness“.

Rannsóknin nær til Nýja-Sjálands, Kanada, Bretlands, Bandaríkjanna, Írlands og Ástralíu. Allt lönd sem eiga nánast ekkert sammerkt í lögum um áfengissölu og alls ekkert við Ísland. Afar ólíklegt verður að teljast að Ragný hafi lesið skjalið þar sem meginefni skýrslunnar er um mikilvægi þess að unglingum sé ekki selt áfengi, sem segja má að sé sérsvið ÁTVR. Þannig undirstrikar skýrslan hve mikilvæg rafræn skilríki eru og hvílík fyrirmynd íslensk netverslun er fyrir umheiminn þegar kemur að verslun með áfengi.

Í annarri skýrslu sem Ragný tiltekur en hefur varla lesið; „To alcohol outlets, alcohol access, and alcohol consumption among adolescents“, er komið inn á skaðsemi þess að hafa þétt net hefðbundinna áfengisverslana. Það hlýtur því að sæta furðu að Ragný og aðrir heilsupostular þessa lands skuli aldrei hafa gagnrýnt yfirlýsta stefnu ÁTVR, sem nú rekur þéttasta net áfengisverslana í heimi miðað við höfðatölu og fjárfestir sem aldrei fyrr í verslunarrekstri og vörudreifingarmiðstöð.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sante.

Höf.: Arnar Sigurðsson