Óli, einu sinni búðarstrákur, alltaf búðarstrákur!

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Ian Anderson, forsprakki breska rokkbandsins Jethro Tull og Íslandsvinur, átti án nokkurs vafa ummæli síðasta árs: „Golf er mikið afþreyingarsport og reynir ekki mikið á líkamann en í mínum huga er það fyrirboði um endalokin. Ég er ekki tilbúinn fyrir golf.“ Anderson er 76 ára.

Kunningi minn, sem hefur lifibrauð sitt af því að hanna golfvelli, las þetta í Mogganum sínum og svelgdist að vonum á morgunkaffinu. Ekki bætti úr skák að kunninginn er Tullari fyrir allan peninginn; á allan katalóginn, bæði á CD og Vínyl. Vandarhöggið sveið því inn að beini.

Til að bæta gráu ofan á svart þá gerði undirritaður, kunningi hans, svo veislufóður úr téðum ummælum og velti sér aftur á bak og áfram upp úr þeim á þessum vettvangi. Það var auðvitað ekkert sérstaklega smart af minni hálfu, verður að viðurkennast svona eftir á að hyggja. Standi maður ekki með kunningjum sínum í þessu lífi, með hverjum stendur maður þá?

Alltént. Kunningi minn, sem hefur lifibrauð sitt af því að hanna golfvelli, var rétt að jafna sig á þessum ósköpum þegar síminn hringdi og honum var boðið heim að Bessastöðum, í kaffi og kleinur. Kunninginn lét ekki segja sér það tvisvar enda hvergi á þessu landi hægt að fá betri kleinur en á Bessastöðum. Þar tala ég af ljúfri reynslu.

Kunningi minn, sem hefur lifibrauð sitt af því að hanna golfvelli, og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tóku tal saman yfir kleinunum og barst spjall þeirra um víðan völl. Að endingu mannaði kunninginn sig upp, beygður eftir Ian Anderson-málið en alls ekki brotinn, og spurði forsetann hvort hann spilaði golf. Guðni tók sér kúnstpásu, eins og honum einum er lagið, og horfði á meðan beint í augu kunningja míns; úr svip hans mátti greina óvænta blöndu virðingar og galsa. „Nei,“ svaraði forsetinn svo, „ég get enn þá hreyft mig!“

Nú var kunningja mínum öllum lokið. En til að gæta sanngirni þá bætti forsetinn reyndar við að honum þætti golf í raun frábær íþrótt, fyrirmyndarblanda keppni, hreyfingar og útiveru fyrir unga sem aldna.

Talandi um forseta og kunningja þá var annar kunningi minn, athafnamaður hér í bæ, á sjálfsafgreiðslukassanum í kjörbúð fyrir nokkru, sem væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að á næsta kassa var enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson. Eins og gengur. Og í einhverjum vandræðum. Það var aðskotahlutur á pokasvæði og kassinn almennt bara að gera sig sekan um skítlegt eðli. Þá gall í kunningja mínum, sem er svona blátt áfram og djollí gaur: „Óli, einu sinni búðarstrákur, alltaf búðarstrákur!“ Ólafur Ragnar hafði afskaplega gaman af þessu og náði strax í framhaldinu yfirhöndinni í glímu sinni við kassann.

Ekki var minnst á golf.