Grunnskólinn er meingallaður, hann verður að laga

Viðtal við Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla í Dagmálum Morgunblaðsins í liðinni viku hefur vakið mikla umræðu um menntamál. Og þó fyrr hefði verið.

Þar talaði hann tæpitungulaust og lýsti því í stuttu máli að grunnskólakerfið væri bilað og færi versnandi. Að það brygðist börnum landsins.

Hann benti meðal annars á niðurstöður úr PISA-könnun Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), þar sem fram kemur að hlutfall nemenda í 10. bekk, sem búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi, hafi tvöfaldast frá 2012 til 2022.

Nú er sem sagt svo komið að 40% nema í 10. bekk ráða ekki við að lesa sér til gagns. Það hefur verið talað um neyðarástand hjá hinu opinbera að ýmsu minna tilefni.

Þessi 40% munu trauðla ná þeim þroska sem þau hafa gáfur og greind til og munu ekki geta nýtt öll þau tækifæri sem lífið annars býður. Þau munu ekki geta menntað sig eins og efni standa til, þau munu ekki hafa sömu atvinnutækifæri, nauðsynleg upplýsingaöflun verður þeim torsóttari, þeim mun veitast erill hversdagsins erfiðari en ella og þessi börn bókaþjóðarinnar munu ekki njóta margvíslegrar menningar í sama mæli.

Ekki vegna þess að þau séu verr gefin eða geti ekki lært að lesa, heldur vegna þess að skólakerfið brást þeim.

Góð lestrarkunnátta er forsenda flests náms og hún er góð vísbending um aðra færni. Því þarf varla að koma á óvart að stór hluti íslenskra grunnskólanema nær ekki heldur tökum á stærðfræði eða náttúruvísindum og hæfni þeirra í skapandi hugsun er lakari en víðast annars staðar.

Frammistaðan á þó ekki að koma Íslendingum á óvart, en leiðin hefur legið nær óslitið niður á við allt frá aldamótum þegar PISA-könnunin var fyrst gerð. Búast má við enn verri niðurstöðu úr næstu PISA-könnun sem fram fer 2025.

Allan þennan tíma hefur grunnskólastefnan verið nær óbreytt, hver einasta niðurstaða PISA hefur verið nýtt áfall, en samt er haldið áfram eins og ekkert sé.

Það segir kannski sína sögu að helsta breytingin frá aldamótum er stefna ríkisins um „skóla án aðgreiningar“ frá 2011, sem hefur reynst bæði erfið og dýr, en einnig laus við að ná markmiðum sínum. Samt er haldið fast við kredduna.

Rétt eins og þá skrýtnu kreddu að samkeppni sé af hinu slæma, að nemendur eigi ekki að bera sig saman frekar en skólar. Að ekki sé minnst á hitt að ýtt sé undir fjölbreytni í skólastarfi eða kostir einkareksturs nýttir sem skyldi í rekstri skóla, námsgagnagerð eða öðru á þeim vettvangi.

Líkt og Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins benti á í grein í blaðinu í vikunni er ástæða þessa lélega árangurs þó alveg örugglega ekki sú að skólarnir hafi verið fjársveltir eða hafi ekki nægan mannafla. Ísland rekur eitt dýrasta grunnskólakerfi heims en námsárangurinn er einn sá versti á Vesturlöndum. Bæði kennurum og öðrum starfsmönnum skóla hefur fjölgað mun meira en nemendum, en árangurinn versnað.

Þetta er hörmulegt. Hörmulegt fyrir ungu kynslóðina sem kemur æ verr undirbúin út í lífið, hörmulegt fyrir þjóðina, sem þannig fær ekki notið þess mannauðs sem í henni býr. Og já, það er líka hörmulegt fyrir skattgreiðendur þessa lands sem verja um 200 milljörðum króna í skólakerfið á hverju ári en afraksturinn er ekki betri en þetta.

Það gerir svo illt verra að einkunnaverðbólga er landlæg í hinum ósamræmdu grunnskólum og lítið mark á þeim takandi.

Blaðið leitaði viðbragða hjá forvígismönnum stærstu sveitarfélaga, en þeir sem svöruðu viðurkenndu vandann og höfðu jafnvel reynt að bregðast við honum. En hitt var kannski athyglisverðara að ekkert hefur heyrst frá stærsta sveitarfélaginu og lítið að frétta af menntamálaráðherranum.

Um sumt er sveitarfélögunum þó vorkunn, aðallega því að þau hafa ekki nauðsynlegar samanburðarupplýsingar tiltækar. Það var ógæfuspor að leggja af samræmd próf því síðan hafa hvorki skólar né sveitarfélög, foreldrar né nemendur haft nokkurn samanburð. Á því verður að ráða bót.

Hitt ber vott um furðulega ef ekki annarlega leyndarhyggju að skólar fái ekki birtar sínar niðurstöður úr PISA-könnuninni og raunar ekki sveitarfélögin heldur. Hvert er markmiðið með því að vinna gegn upplýsingu? Og í hvers þágu?

Það er óþolandi að íslensk börn fái ekki nauðsynlega menntun, það á ekki að henda nokkurt barn, svo öll komist þau til nokkurs þroska.

Úr þessu ófremdarástandi verður að bæta og það verður ekki gert nema með grundvallaðri kerfisbreytingu, þar sem menntun og hagsmunir barnanna eru í fyrirrúmi, ekki önnur félagsleg markmið, óljós hugmyndafræði eða þægindi kerfisins. Annað er sóun á fjármunum og það sem verra er sóun á okkar dýrustu gersemum: Börnum landsins og hæfileikum þeirra.