„Það er bannað að selja áfengi, nema auðvitað ef þú gerir það í laumi, sumsé gegnum netverslun sem er skráð erlendis en er samt staðsett á Íslandi.“
„Það er bannað að selja áfengi, nema auðvitað ef þú gerir það í laumi, sumsé gegnum netverslun sem er skráð erlendis en er samt staðsett á Íslandi.“ — AFP/Lou Benoist
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hentar sjálfsmynd okkar sem friðarþjóð betur að kaupa plástra og sárabindi, en aðrir sjái um morðtólin.

Smitberinn

Halldór Armand

halldor.armand@ -

gmail.com

Íslenskur rithöfundur setti einu sinni fram þá kenningu við mig að Þorgeir Ljósvetningagoði hefði verið „fyrsti Íslendingurinn“. Þegar vitringurinn skreið undan feldinum á Þingvöllum á sínum tíma með hina þægilegu niðurstöðu að Íslendingar skyldu vera kristnir, en mættu samt alveg vera heiðnir svo lengi sem þeir iðkuðu það á laun, lagði hann grunninn að íslenskri lagahefð eins og við þekkjum hana. Þarna fæddist hentistefnan okkar. Í minni fjölskyldu er þetta einkenni á íslensku samfélagi stundum kallað „Já, en“. Já, reglurnar gilda fyrir okkur öll, en reyndar ekki fyrir suma – það má fara fram hjá þeim í laumi. Þetta er bannað … en ekki fyrir suma.

Nýlegt dæmi um hið íslenska „Já, en“ er vandræðagangurinn kringum áfengissölu. Það er bannað að selja áfengi, nema auðvitað ef þú gerir það í laumi, sumsé gegnum netverslun sem er skráð erlendis en er samt staðsett á Íslandi. Við erum of íhaldssöm og hrædd þjóð til þess að geta leyft fólki að kaupa frjálst og selja áfengi en um leið er of pínlegt að banna þessa netsölu á áfengi, ekki síst vegna þess að það fæli í sér grófa mismunun í garð okkar eigin fólks, svo ekki sé nú minnst á það stjórnlyndi sem felst í því að skipta sér svona af lífi fólks sem vill bara fá að kaupa og selja rauðvínsflöskur í friði. Það er ekki hægt að taka ákvörðun og niðurstaðan er því „Já, en“; áfengissala er bönnuð … nema ef þú stundar hana á laun! Eitthvað segir mér að við munum reyna að halda þessu þægilega fyrirkomulagi sem lengst. Hið stjórnlynda afturhald getur haldið áfram að segja sjálfu sér að áfengissala sé takmörkuð á Íslandi, þótt hún sé það í sjálfu sér ekki, og stjórnmálaöfl sem þykjast frjálslynd geta haldið áfram að segja sjálfum sér að einkaframtakið fái nú að blómstra, þótt það sé aðeins á laun. Alveg held ég nú að Þorgeir sé að rifna úr stolti í gröfinni.

Annað áberandi dæmi er svo hin mótsagnakennda afstaða Íslendinga til hernaðarátaka. Við erum ein af stofnþjóðum NATO, sem er hernaðarbandalag, og höfum heilshugar stutt alls konar innrásir og blóðböð á síðustu áratugum. En á sama tíma virðist okkur mikið í mun að viðhalda sjálfsmynd okkar sem einhvers konar „friðarþjóð“? Við tendrum Friðarsúlu í Viðey ár hvert, tárvot af samúð og náungakærleika, og okkur virðist vera fullkomlega alvara með því, sjáum ekkert athugavert við það. Þetta er „Já, en“. Já, við erum herlaus friðarþjóð … en við erum reyndar fullkomlega og skilyrðislaust hlynnt hernaði þegar svo ber undir. Við kjósum bara að gera það í laumi. Það er betra að annað fólk beri vopnin fyrir okkur. Það hentar okkur betur. Aftur heyrist hér bergmál Þorgeirs.

En þessi ákvörðunarfælni skapar að lokum vandræðagang, alveg eins og með áfengissöluna. Í þessu tilviki er áfengið Úkraínustríðið. Íslensk stjórnvöld styðja Úkraínu, sem væntanlega þýðir að við styðjum úkraínska herinn í stríði, en samt er eins og okkur finnist voðalega erfitt að kaupa handa honum vopn. Það hentar sjálfsmynd okkar sem friðarþjóð betur að kaupa plástra og sárabindi, en aðrir sjái um morðtólin. Þannig er eins og okkar eigin sjálfsmynd – okkar eigin lífslygi, tölum bara hreina íslensku – skipti okkur meira máli en hörmungar stríðsins.

Þótt hér sé spjótum beint að íslenskri hentistefnu ætla ég ekki útiloka að í henni felist töluverð viska. Það getur verið að í heilabrotum Þorgeirs undir feldinum hafi leynst djúpt innsæi ekki aðeins í íslenska þjóðarsál heldur mannlega tilveru yfirhöfuð. „Ef vér slítum í sundur lögin, slítum við og friðinn,“ sagði hann klókur. Á yfirborðinu má skilja goðann þannig að óhagganleg lög séu grundvöllur friðarins, en líklega meinti hann hið þveröfuga; að lög þurfi einmitt að vera svo sveigjanleg og teygjanleg til þess að leyfa ekki bara málamiðlanir heldur líka þær mótsagnir og hræsni sem menn þurfa til að þola sína eigin nærveru.