Fyrsta húsið Dýraverndunarstöðin í Tungu stóð efst á Laugaveginum. Á húsinu stendur: Dýraverndunarfélag Íslands hýsir hesta.
Fyrsta húsið Dýraverndunarstöðin í Tungu stóð efst á Laugaveginum. Á húsinu stendur: Dýraverndunarfélag Íslands hýsir hesta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið hefur áunnist á undanförnum 110 árum í dýravernd á Íslandi og er það ekki síst Dýraverndunarsambandi Íslands (DÍS) að þakka, sem var stofnað fyrir sléttum 110 árum í dag, að sögn Lindu Karenar Gunnarsdóttur formanns DÍS

Viktoría Benný B. Kjartansdóttir

viktoria@mbl.is

Mikið hefur áunnist á undanförnum 110 árum í dýravernd á Íslandi og er það ekki síst Dýraverndunarsambandi Íslands (DÍS) að þakka, sem var stofnað fyrir sléttum 110 árum í dag, að sögn Lindu Karenar Gunnarsdóttur formanns DÍS.

Á þessum degi í Morgunblaðinu, fyrir sléttum 110 árum, birtist fundarboð á forsíðu blaðsins um stofnun dýraverndunarfélagsins.

Sambandið var stofnað að frumkvæði og þrautseigju dýravina. Eitt brýnasta verkefni Dýraverndunarfélagsins í upphafi var að koma á lögum um dýravernd og þeim áfanga var náð og hefur félagið komið að lagabreytingum alla tíð síðan.

Stofnuðu fyrsta dýraspítalann

Í dag er eitt brýnasta verkefni samtakanna að passa að hugað sé að velferð þeirra dýra sem einstaklingar taka að sér. Siguráfangar sambandsins eru nokkrir en sambandið hefur meðal annars barist fyrir því að dýr séu deyfð eða svæfð meðan á geldingu stendur. Þau stóðu fyrir uppbyggingu og rekstri fyrsta dýraspítala landsins og hafa hugað að almennri velferð dýra allt frá stofnun.

Minnast brautryðjenda

Sambandið stefnir á að vera með málþing og afmælishátíð í nóvember þar sem það fagnar þessum merka áfanga. Þá minnist sambandið einnig þeirra Ingunnar Einarsdóttur, sem var helsta hvatakona félagsins, og Tryggva Gunnarssonar, fyrsta formanns DÍS, á þessum tímamótum.

Linda segir þau bæði hafa verið brautryðjendur í málefnum dýra. „DÍS vill fá að nota þetta tækifæri og minnast þeirra frumkvöðla sem á undan okkur komu og þakka þeim fyrir störf þeirra í þágu dýra,“ segir Linda.

Að sögn Lindu hefur sambandið merka sögu og hefur náð markverðum árangri í ýmsum málefnum í þágu dýra, mikil vinna sé þó enn fyrir höndum.

Eftirlit ekki gott

Að mati Lindu er eitt brýnasta verkefnið fyrir höndum að efla eftirlit með velferð dýra og hefur DÍS skorað á stjórnvöld að endurskoða verkferla eftirlits.

„Það er mjög mikilvægt að bæta eftirlit með dýravelferð á Íslandi, það er algjörlega nauðsynlegt,“ segir Linda.

„Það er gríðarlega margt sem þarf að bæta og ástandið er í raun og veru ekki viðunandi að mörgu leyti og það þarf að skoða það betur,“ bætir hún við.

„Hér á landi gerist það að dýr eru látin þjást á meðan málin eru í ferli og það er óviðunandi. Ástandið varðandi dýr í neyð er háalvarlegt,“ segir Linda. DÍS trúir því að dýravelferð á Íslandi myndi bætast heilmikið ef eftirlitið með dýravelferð myndi ekki vera undir matvælastofnun og telja að það ætti að færa eftirlitið yfir á sérstaka dýraverndarstofu. Einnig berjast samtökin fyrir því að eftirlitsmönnum verði fjölgað og tíðni eftirlitsheimsókna.

Höf.: Viktoría Benný B. Kjartansdóttir