[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta eru kvikmyndir sem sýna okkur mannlega samkennd og gefa innsýn í mismunandi heima. Þær sýna okkur líka hvað við erum öll lík, alveg sama hvaðan við komum og hvað við gerum,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir hátíðarstýra um dagskrá alþjóðlegu heimildamyndahátíðarinnar IceDocs

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

„Þetta eru kvikmyndir sem sýna okkur mannlega samkennd og gefa innsýn í mismunandi heima. Þær sýna okkur líka hvað við erum öll lík, alveg sama hvaðan við komum og hvað við gerum,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir hátíðarstýra um dagskrá alþjóðlegu heimildamyndahátíðarinnar IceDocs. Hátíðin fer nú fram í sjötta sinn á Akranesi og stendur yfir dagana 17.-21. júlí. Morgunblaðið ræddi við Ingibjörgu um hátíðarundirbúninginn, dagskrána og sérstöðu heimildamyndarinnar.

Öll eins og eitt þorp

„Hátíðin í ár er örlítið öðruvísi en hún hefur verið að því leyti að við höfum verið að bæta talsvert við barna- og unglingadagskrána,“ segir Ingibjörg. „Heimildamyndir eru auðvitað miðill sem ekkert endilega margir eru vanir að horfa mikið á og það er skemmtilegt að kynna hann fyrir nýjum hópum. Við verðum með fleiri myndir fyrir börn og unglinga en áður og höfum líka bætt við tveimur dómnefndum, það er bæði ungmenna- og unglingadómnefnd. Svo verðum við með alls konar námskeið fyrir börn og unglinga, til að mynda í kvikmyndagerð, heimildaljósmyndun og graffití. Björgvin Sigurðarsson, graffari og kvikmyndagerðarmaður, stýrir graffitísmiðjunni en myndin hans Göngin var nýlega frumsýnd á íslensku heimildamyndahátíðinni Skjaldborg.“

Þá tekur Ingibjörg einnig fram að hátíðin í ár muni einkennast af samtali á milli áhorfenda, listamanna og annarra gesta. „Það verður mikið um spjall eftir sýningar með aðstandendum myndanna þar sem farið verður dýpra ofan í ferlið á bak við þær. Svo erum við með bransadagskrá fyrir íslenska bransann þar sem fullt af flottu kvikmyndagerðarfólki deilir reynslu sinni og vonandi eiga eftir að myndast þar góðar tengingar á milli íslenskra og erlendra gesta hátíðarinnar.“

Hátíðin fer fram á Akranesi líkt og hún hefur gert undanfarin ár og segir Ingibjörg að iðulega myndist þar ríkur þorpsandi á milli íbúa og gesta. „Í þessa fimm daga sem hátíðin stendur yfir erum við öll eins og eitt þorp og það skapast alveg einstök stemning. Af því að við erum öll á einum stað er samgangurinn á milli erlenda kvikmyndagerðarfólksins, íslenska bransans og íbúa Akraness mikill og allir hafa tækifæri til að hittast og kynnast. Við hlökkum auðvitað líka mikið til að sýna Skagafólki hvað við erum búin að vera að búa til fyrir þau.“

Tónlistarbingó, uppistand og barsvar

Á hátíðinni verða allt í allt um 70 viðburðir og má þar m.a. nefna tónlistarbingó, uppistand og barsvar auk bíósýninga. „Við reynum að hafa dagskrána mjög flæðandi. Á morgnana verður spjall með listamönnunum, seinna um daginn eru bíósýningar og svo eru léttari viðburðir á kvöldin. Þannig að það er klárlega hægt að eyða öllum deginum með okkur á Akranesi og það er til dæmis góð hugmynd að stinga sér í Guðlaugu um morguninn og byrja daginn þar.“

Spurð hvað beri hæst á hátíðnni í ár nefnir Ingibjörg m.a. heimildamyndir Kumjana Novakova, Disturbed Earth (2021) og Silence of Reason (2023). „Novakova er upprennandi kvikmyndagerðakona sem fer mjög frumlegar og áhugaverðar leiðir í kvikmyndagerð sinni. Eftir sýningarnar verður spjall með henni þar sem við fáum að heyra meira um gerð myndanna og vinnuferlið,“ segir hún og bætir við að erfitt sé að gera upp á milli myndanna á hátíðinni enda séu þær allar í uppáhaldi. Hún mæli þó t.d. einnig með myndinni Stimming Pool eftir listamannahópinn Neuroculture Collective. „Það er mjög áhugaverður stíll á þeirri mynd líka, þetta eru margar litlar sögur sem gefa áhorfendum tilfinningu fyrir því hvernig það er að vera skynsegin. Listamaðurinn Steven Eastwood, sem vann myndina ásamt kollektívinu, verður með okkur á hátíðinni og mun segja frá gerð hennar.“

IceGuys á IceDocs

Þá verða íslensku sjónvarpsþættirnir IceGuys sýndir í Bjarnarlaug næsta föstudag. Eftir sýninguna verður Q&A eða spurt og svarað með nokkrum leikurum þáttanna, en í þeim leika þeir Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór, Aron Can, Jón Jónsson og Rúrik Gíslason ýktar útgáfur af sjálfum sér. „Ég get ekki alveg sagt til um það núna hverjir verða viðstaddir, en það verða einhverjir af leikurunum,“ segir Ingibjörg. „Þetta verður í Bjarnarlaug sem er pínulítil og rosalega sæt innilaug. Í fyrra vorum við með svipaðan viðburð þar sem við sýndum Æði-þættina og það sló alveg fullkomlega í gegn hjá erlendu kvikmyndagerðargestunum. Okkur langaði að gera eitthvað svona skemmtilegt líka í ár og hugsuðum að IceGuys væru algjörlega málið. Þættirnir eru eins konar mockumentary, það er heimildamyndastíll sem gerir í raun grín að sjálfum sér. Við ætlum að vera með kúl strandpartýfíling á þessum viðburði og ég held að þetta verði mjög skemmtilegt.“

Getur verið glæpur að búa til list?

Spurð hvaða straumar og stefnur séu áberandi í heimildamyndum um þessar mundir svarar Ingibjörg: „Við erum til dæmis að sjá margar kvikmyndir sem takast á við mannlega harmleiki, en þeir eru náttúrulega að eiga sér stað alls staðar í kringum okkur. Það er mikið að gerast í heimildamyndagerð og þetta er eiginlega sá kvikmyndamiðill sem mér finnst mest spennandi akkúrat núna vegna þess að það er verið að gera svo miklar tilraunir með hann og verið að leita nýrra leiða til þess að segja nýjar sögur.“

Og hvernig myndir verða sýndar á hátíðinni?

„Þetta eru til dæmis myndir sem sýna okkur mannlega samkennd. Margar þeirra fjalla um það hvernig listin er sameiginlegt tungumál og segja frá fólki sem vinnur sig út úr alls konar hlutum í gegnum listina. Opnunarmyndin, Balomania, fjallar til dæmis um glæpamenn sem drýgja þann glæp að búa til list, þeir skapa stórfenglega loftbelgi og eiga það á hættu að lenda í fangelsi fyrir vikið. Þetta er magnaður heimur sem við fáum innsýn í þarna.

Það sem gerir heimildamyndir líka svo einstakar er að það er þetta sannleikslag yfir þeim. Þó að þær geti líka verið t.d. spennumyndir eða gamanmyndir, þá er alltaf þessi tilfinning fyrir því að þú sért að horfa á eitthvað örlítið sannara en það sem er mikið skrifað eða leikið. Með hátíðinni langar okkur að stuðla að því að skapa meiri menningu fyrir kvikmyndir af þessari gerð og mín von er sömuleiðis sú að við förum að búa til fleiri heimildamyndir hér á landi.“

Ingibjörg bætir við að lokum. „Ég vil taka fram að það eru öll velkomin. Þetta er alls ekki hátíð bara fyrir fólk sem hefur djúpan áhuga á heimildamyndum - það er mjög gaman að mæta bara á Akranes og hoppa inn í bíó, jafnvel án þess að hafa lesið sér til um dagskrána fyrir fram. Bara kíkja og láta koma sér á óvart. Það er eiginlega það skemmtilegasta við kvikmyndahátíðir, maður kynnist alltaf einhverju nýju.“

Höf.: Snædís Björnsdóttir