Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð: Braut í lofti hleypur hann, haft þau orð um lipran mann, á beltum áfram öslar þar, úti í mýri dýrið var. Harpa í Hjarðarfelli leysir gátuna: Hlaupaköttur brautu brunar

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Braut í lofti hleypur hann,

haft þau orð um lipran mann,

á beltum áfram öslar þar,

úti í mýri dýrið var.

Harpa í Hjarðarfelli leysir gátuna:

Hlaupaköttur brautu brunar.

Bjarni kattliðugur var.

Hér er átt við „CAT“-ýturnar.

Upp með stýri köttur þar.

Guðrún B. á þessa lausn:

Hlaupaköttur hress um loft.

Helga kattliðug víst oft.

Kræf er CAT með stýri.

Köttur úti í mýri.

„Lausnarorðið er köttur“ svarar Úlfar Guðmundsson:

Hlaupaköttur leikur léttur.

Lipur köttur maður er.

Gröfuköttur í skurði settur.

Sætur köttur í mýri er.

Sigmar Ingason svarar:

Hlaupaköttur hátt í húsi hefur störfin létt.

Kattliðugur keppnismaður metin hefur sett.

Sjókötturinn klár af krafti klýfur öldurnar.

„Köttur úti í mýri setti upp á sig stýri“

En illa þó hann undi þar.

Sjálfur skýrir Páll gátuna:

Hlaupaköttur hleypur braut úr stáli,

Hann er köttur lipur, skyldur Páli.

Snjóköttur þá fjórum beltum bisast

en Brandur Högni út í mýri kisast.

Þá er ný gáta eftir Pál:

Skýlir litlu ljósi það.

Líka tíma mælir það.

Stundum er í auga það.

Oft er gestum boðið það.

Bragi V. Bergmann skrifar í bók sinni „Limrur fyrir land og þjóð“: Við leitum öll svara við lífsgátunni en enginn virðist finna þau. Samt er um að gera að halda áfram að leita, því leitin sjálf er mannbætandi. Um hana er limra:

Ekki skalt spurningar spara.

Með spurningum leitarðu svara.

Ef gátu færð leyst

að lokum þú veist

hvort þú ert að koma eða fara.

Norðlenskur hagyrðingur ljóðaði á konu, Guðrúnu Magnúsdóttur, og bað hana botna:

Hvað er það sem kvelur mest

kvennahjörtun ungu

Hún svaraði:

Brigðmælginnar bölvuð pest,

sem býr á karlmanns tungu.