Góður árangur Þröstur Þórhallsson fékk flesta vinninga íslensku sveitarinnar.
Góður árangur Þröstur Þórhallsson fékk flesta vinninga íslensku sveitarinnar. — Ljósmynd/Heimasíða HM öldunga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lið Íslands sem tók þátt í HM öldunga 50 ára og eldri hafnaði í 4. sæti í mótinu og hlaut 13 stig. Bandaríkjamenn sigruðu og kom ekki á óvart þótt Alex Yermolinsky hafi þurft að hætta keppni vegna veikinda

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Lið Íslands sem tók þátt í HM öldunga 50 ára og eldri hafnaði í 4. sæti í mótinu og hlaut 13 stig. Bandaríkjamenn sigruðu og kom ekki á óvart þótt Alex Yermolinsky hafi þurft að hætta keppni vegna veikinda. Sveitin hlaut 16 stig af 18 mögulegum, ítalska sveitin kom næst með 15 stig, þá Englendingar með 14 stig.

Lokaniðurstaðan var að sjálfsögðu vonbrigði einkum ef litið er til þess að við vorum í efsta sæti fram eftir móti en þegar mikilvæga viðureignin við Bandaríkin í 7. umferð tapaðist, 1:3, vantaði allan kraft í taflmennskuna. Liðsmenn Bandaríkjanna voru greinilega í betri æfingu en menn hefðu átt að gera betur. Ég tel að íslenski hópurinn geti hæglega unnið þetta mót en þá þarf að bæta þarf ákveðna þætti.

Góðu fréttirnar eru þær að Margeir Pétursson (6 v. af 8) sem tefldi á 3. borði og 1. varamaður Þröstur Þórhallsson (6½ v. af 8) hlutu báðir gullverðlaun fyrir frammistöðu sína. Jóhann Hjartarson hlaut silfur fyrir 5 v. af 8 á 2. borði. Greinarhöfundur fékk 4 v. af 6 á 1. borði og Jón L. Árnason 2½ v. af 6 á 4. borði. Jón hefur nær undantekningarlaust skilað afbragðsárangri í sveitakeppnum en var einkennilega seinheppinn að þessu sinni.

Þröstur Þórhallsson var drjúgur fyrir íslenska liðið og það sama má segja um Margeir Pétursson. Handbragð Margeirs í katalónskri byrjun var skemmtilegt og honum tókst að leiða andstæðinginn frá alfaraleiðum og knýja svo fram sigur merð snarpri atlögu. Tökum tvö dæmi úr viðureign okkar við Ítali:

HM öldunga 2024, Kraká 6, 2024:

Margeir Pétursson – Fabrizio Bellia

Katalónsk byrjun

1. d4 Rf6 2. c4 e6. Rc3 d5 4. Rf3 Bb4

Hyggst kanna frekar hið margþvælda Rauzer-afbrigði en Margeir er fljótur að leiða Ítalann út úr undirbúningi sínum!

5. g3 0-0 6. 0-0 dxc4 7. 0-0 Rc6 8. He1

Hann er ekkert að eltast við peðið á c4 en byggir upp sterka miðborðsstöðu.

8. … Hb8 9. a3 Be7 10. e4 b5 11. b4 h6 12. d5 exd5 13. exd5 Ra5

- Sjá stöðumynd 1 -

14. Hxe7! Dxe7 15. d6 Dd7 16. dxc7 Hb6 17. Dxd7! Bxd7 18. Hd1 Rb7 19. Re5 Be6 20. Be3!

Svartur er varnarlaus.

20. … Bc8 21. Bxb6 axb6 22. Rxb5 Rc5 23. Rxc4 Ba6 24. Hd8 Re6 25. Hxf8+ Kxf8 26. Rxb6

- og svartur gafst upp.

Á 1. borði kom þessi staða upp gegn Ítölum:

Helgi Ólafsson – David Alberto

24. Da1!?

Eftir langa umhugsun kom þessi leikur sem ég var býsna ánægur með þó að „vélarnar“ vilji taka skrefinu styttra.

24. … g6

Hugmyndin var að svara 24. … Hc2 með 25. Hc1 Hxd2 26. Dxa4! og svartur +a erfiða vörn fyrir höndum.

25. Hc1! Rc3 26. Db2 Ra4? 27. Db1 b5 28. Hc6!

Eftir þennan leik er eftirleikurinn auðveldur.

28. … Df8 29. Dd3 Rb2 30. Dc2! Hxc6 31. dxc6 Ra4 32. Dd3 Rb2 33. Dxb5 Rd1 34. Hd3 Ha2 35. c7 Hxd2 36. c8(D)+ Kg7 37. Hxd2 Dxd2 38. Db6 De1 39. Dc4

- og svartur gafst upp.

Glæsilegur sigur Vignis Vatnars í Cecke Budjovice

Vignir Vatnar Stefánsson vann stórmeistaraflokk B á skákhátíðinni í Cecke Budjovice í Tékklandi sem lauk í byrjun júlí. Vignir hlaut 7½ vinning af 9 mögulegum og varð tveimur vinningum fyrir ofan næstu menn. Helgi Áss Gretarsson og Hannes Hlífar Stefansson tefldu í stórmeistaraflokki A. Hannes hlaut 4 vinninga af 9 möguegum og varð í 7. sæti af tíu keppendum, Helgi hlaut 3 vinninga og varð í 9. sæti.