Veróna er einstaklega falleg borg og þar er mikið af glæsilegum kirkjum. Þar er líka nunnan góða sem brosir svo fallega til ókunnugra.
Veróna er einstaklega falleg borg og þar er mikið af glæsilegum kirkjum. Þar er líka nunnan góða sem brosir svo fallega til ókunnugra. — Wikipedia/Andrea Bertozzi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bros mitt getur þó engan veginn hafa náð þeirri fullkomnun sem bros hennar var.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Ég var nýlega í Veróna, borg Rómeó og Júlíu, þar sem allt er fagurt. Endalaust má dást að arkitektúrnum og þarna er engin bygging sem minnir á hroðann sem nýi Landspítalinn svo sannarlega er. Þar sem ég var á gangi á brú nærri kastalabyggingu mætti ég nunnu. Fólk vekur mismikinn áhuga minn en ég tek alltaf eftir nunnum því ég ber djúpstæða virðingu fyrir þeim. Í mínum huga eru þær táknmyndir góðleika og fórnfýsi, friðar og rósemi.

Nunnan, sem var lítil og hnellin, gekk rösklega en um leið var yfir henni þessi sérstaka ró sem einkennir manneskjur sem eru sáttar við guð og menn og láta ekkert koma sér úr jafnvægi. Þegar við mættumst horfði nunnan beint á mig og brosti brosi sem var fullt af innileika og hlýju. Auðvitað brosti ég líka til nunnunar, en bros mitt getur þó engan veginn hafa náð þeirri fullkomnun sem bros hennar var.

Ég fór allt í einu að hugsa um grein sem ég las einu sinni á netinu og fjallaði um það hvernig ætti að öðlast innri frið og lifa í sátt. Ekki misskilja mig. Ég er ekki Dale Carnegie-gerðin af manneskju og er ekkert himinlifandi yfir því að þjóðin hafi nýlega kosið sér forseta af þeirri gerð. Ekkert gæti fengið mig til að lesa sjálfshjálparbók til enda og ég hef aldrei þurft sálfræðihjálp til að komast í gegnum lífið. Samt fór ég að hugsa um netgreinina sem fjallaði um það hvernig maður ætti að höndla hamingjuna.

Netgreinin var stutt og einmitt þess vegna hafði ég lesið hana. Hún samanstóð að mestu af upptalningu en ég man tvö atriði úr henni vegna þess að ég er hjartanlega sammála þeim. Annað var nauðsyn gjafmildi. Maður verður hamingjusamari af því að sýna öðrum örlæti. Það lærði Scrooge svo eftirminnilega í hinni frægu jólasögu Charles Dickens og kenndi okkur hinum um leið að níska er mikill löstur. Fátt er svo hvimleiðara en fólk sem heldur að það sé merkilegt eintak af manneskju vegna þess að það á einhvern slatta af peningum, en það er önnur saga sem ekki verður fjallað nánar um hér.

Hitt atriðið sem ég man úr greininni var mikilvægi þess að brosa til ókunnugra. Þannig mætast ókunnugir og milli þeirra myndast örstutta stund sterkur þráður. Flestir hafa einhvern tímann upplifað slíkt augnablik. Það er ástæða til að finna til með þeim sem hafa ekki kynnst þessu, þeir hafa misst af miklu. Bros gera heiminn betri og skapa hamingjusamari einstaklinga. Það þarf ekki slímsetur á Dale Carnegie-námskeiðum til að skilja það.

Brosandi nunnan á brúnni var eftirminnilegasta persónan sem ég sá í Veróna. Ég hitti líka búðarkonu sem talaði enga ensku. Ég tala enga ítölsku en kann utan að setningar út óperuaríum eins og „nessun dorma“, „mio babbino caro“ og „una furtiva lagrima“, sem koma manni alls ekki langt í daglegu tali. Mér tókst þó að koma því til skila til búðarkonunnar að kjóllinn sem hún klæddist væri fallegur og henni tókst að koma mér í skilning um að kjóll í búðinni myndi fara mér vel. Næsta dag gekk ég sömu götu og þar stóð hún fyrir utan búðina og við veifuðum báðar afar glaðlega í þeirri vissu að við hefðum skilið hvor aðra, án þess að skilja tungumál hvor annarrar. Ég settist síðan á bekk hjá ítalskri konu sem sagði mér á ítölsku sem ég skildi ekki að hún væri hálfómöguleg í fótunum og alveg uppgefin. Sjálf var ég eins og fjallageit enda hef ég vanið mig á að fara allt fótgangandi, ekki síst í útlöndum. Það var ég samt ekkert að reyna að segja henni heldur sýndi henni samúð með því að kinka kolli.

Hin þöglu samskipti geta verið afar gefandi. Með þeim er hægt að sýna öðrum skilning og hlýju. Það veit brosandi nunnan á brúnni greinilega betur en margir aðrir.