Fiðluleikarinn „Túlkun hennar var ofboðlega músíkölsk,“ segir rýnir um tónleika Elfu Rúnar í Skálholti en þar flutti hún verk eftir Matteis, Westhoff og Bach.
Fiðluleikarinn „Túlkun hennar var ofboðlega músíkölsk,“ segir rýnir um tónleika Elfu Rúnar í Skálholti en þar flutti hún verk eftir Matteis, Westhoff og Bach. — Ljósmynd/TimMintiens.nl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skálholtskirkja Elfa Rún Kristinsdóttir í Skálholti ★★★★★ Tónlist: Nicola Matteis (Ayres), Johann Paul von Westhoff (svíta nr. 4 í C-dúr) og Johann Sebastian Bahc (sónata nr. 2 í a-moll). Einleikari: Elfa Rún Kristinsdóttir. Sumartónleikum í Skálholti mánudaginn 8. júlí 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal Magnússon

Sólin skein bæði úti og inni í Skálholtskirkju mánudaginn 8. júlí síðastliðinn þegar fiðluleikarinn Elfa Rún Kristinsdóttir lék einleiksverk á Sumartónleikum í Skálholti eftir þá Matteis, Westhoff og Bach. Hátíðin hefur verið starfandi frá árinu 1975. Í tengslum við hátíðina hefur því verið staðið fyrir skipulögðu tónleikahaldi í Skálholtskirkju á hverju sumri í rétt tæpa hálfa öld. Hátíðin er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu.

Elfa Rún vakti alþjóðlega athygli þegar hún vann til verðlauna (þar með talin aðalverðlaunin) á alþjóðlegu Bach-keppninni í Leipzig árið 2006. Síðan þá hefur hún verið mikilvirk í flutningi bæði einleikstónlistar, kammertónlistar og í að leiða stærri hljómsveitir. Hún leikur jöfnum höndum á nútíma- og barokkfiðlu og það var síðarnefnda tegundin sem Elfa Rún handlék á tónleikunum í Skálholti (með girnisstrengjum). Ég man fyrst eftir að hafa heyrt leik Elfu Rúnar þegar ég hlustaði á framúrskarandi hljóðritun hennar á 12 fantasíum fyrir einleiksfiðlu eftir Telemann sem kom út árið 2014. Flutningurinn á verkum tónskáldanna þriggja í Skálholtskirkju nú var ekki síðri.

Hugtakið „barokk“ var lengi vel notað sem skammaryrði til þess að lýsa einhvers konar óhófi eða jafnvel afskræmingu í listum (og þá ekki einungis í tónlist). Frá miðri 20. öld festist hugtakið sig hins vegar í sessi yfir tímabil í tónlistarsögunni sem nær frá um 1600 fram að dauða Bachs (1750). Á þessum 150 árum tók tónlist auðvitað miklum breytingum og hefur því tímabilinu stundum verið skipt niður í þrjú um það bil jafn löng 50 ára skeið, snemm-, mið- og síðbarokk. Einnig er hægt að skipta verkum tímabilsins gróflega niður eftir nokkrum stíleinkennum, og er þá vísað svo sem til ítalska skólans og franska skólans.

Það var fiðlusnillingurinn Nicola Matteis (1650-1714) sem kynnti einna fyrstur ítalska skóla barokksins á Bretlandseyjum. Matteis fluttist snemma frá Ítalíu til Lundúna en fyrir utan verkin sem hann samdi (og hafa varðveist) er í sjálfu sér ekki mikið vitað um hann, það er að segja annað en að en hann þótti framúrskarandi fiðluleikari og var stundum sagt að aðeins Arcangelo Corelli sjálfur stæði honum framar í gjörvallri Evrópu. Matteis gaf út fjögur hefti með verkum fyrir einleiksfiðlu sem hann nefndi Ayres. Elfa Rún lék eitt þessara verka og gerði það mjög vel og dramatískt en barokktónlist sker sig að því leyti til frá tónlist endurreisnartímabilsins að hún er jafnan dramatískari en áður, enda áttu stílbrigði hennar að hreyfa við áheyrendum og tilfinningum þeirra. Allar hendingar hjá Elfu Rún voru skýrar og fallega mótaðar og tónninn ákaflega mjúkur í hljómmikilli kirkjunni.

Þýski fiðluleikarinn og tónskáldið Johann Paul von Westhoff (1656-1705) var af sömu kynslóð og Matteis. Hann var jafnframt framúrskarandi fiðluleikari og verk hans eru talin með þeim fyrstu sem samin voru fyrir einleiksfiðlu. Raunar hefur ekki mikið varðveist af verkum hans en þau eru talin hafa haft mikil áhrif á Bach þegar hann samdi sín einleiksverk fyrir strengjahljóðfæri. Eitt af því sem þó hefur ekki glatast er svíta nr. 4 í C-dúr fyrir einleiksfiðlu. Hér bar allt að sama brunni hjá Elfu Rún. Túlkunin var öll á dýptina og hún hafði fullt vald á blæbrigðum tónlistarinnar. Hún var enn fremur ófeimin við að nota mikinn boga þegar það átti við og intónasjón var prýðileg (hún notaði ekkert vibrató).

Fæstir gera sér kannski grein fyrir því að Johann Sebastian Bach (1685-1750) naut takmarkaðrar virðingar fyrir tónsmíðar sínar meðal samtímamanna sinna og frami hans (og staðbundin frægð) helgaðist fyrst og fremst af hæfileikum hans sem orgelleikari.

Á árunum 1717-1723 starfaði Bach sem hirðorganisti í Köthen en þannig háttaði til að tónlistarlega skyldur hans við kirkjuna í Köthen voru minni en annars staðar þar sem hann starfaði bæði fyrr og síðar. Helgaðist það af vinnuveitandi hans þar var kalvínisti og sú kirkjudeild lagði litla áherslu á tónlist við kirkjulegar athafnir. Bach samdi því nánast eingöngu hljóðfæratónlist á Köthen-árunum en frá þeim stafa einmitt einleiksverkin fyrir fiðlu og selló. Þetta er vísast stórkostlegasta strengjatónlist sem samin hefur verið og hún er mjög mikið flutt (og hljóðrituð). Elfa Rún lék a-moll sönötuna (nr. 2) í Skálholti og gerði það frábærlega. Aftur var túlkunin öll á dýptina, bæði dramatísk og viðkvæm í senn. Elfa Rún leyfði sér þannig að draga stundum seiminn og hún andaði með hljóðfærinu. Túlkun hennar var ofboðlega músíkölsk og kannski er henni best lýst þannig að Elfa Rún málaði „myndir“ í flutningnum.

Þetta voru bestu tónleikar sem ég hef sótt í töluverðan tíma.