Nýja bandið: Jason Bonham, Michael Anthony, Sammy Hagar og Joe Satriani.
Nýja bandið: Jason Bonham, Michael Anthony, Sammy Hagar og Joe Satriani. — AFP/Emma McIntyre
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað langar þig að gera, lagsi? Hvað sem er. Hittumst bara. En ekkert.

Sláttur hefur verið á Sammy gamla Hagar að undanförnu; hann fékk stjörnuna sína grafna í stéttina á Hollywood Walk of Fame um daginn og núna um helgina leggur hann upp í mikla tónleikaferð til að heiðra minningu Eddies Van Halens en þeir voru um árabil saman í rokkbandinu Van Halen. Á efnisskrá verða allar helstu perlur bandsins. Michael Anthony, upprunalegi bassaleikari Van Halen, verður með í för, eins gítarséníið Joe Satriani og Jason Bonham, sonur Johns sáluga, mun lemja húðirnar. Yfirskrift túrsins er Best of All Worlds sem vísar í smellinn Best of Both Worlds af metsöluplötunni 5150 frá 1986 sem var sú fyrsta sem Hagar gerði með Van Halen.

Alex Van Halen, bróðir Eddies, sem alla tíð var trommuleikari Van Halen verður sumsé fjarri góðu gamni. Vefmiðillinn Ultimate Classic Rock spurði Hagar út í það á dögunum. Svar hans var svohljóðandi: „Við Mike settum okkur í samband við Alex áður en við lögðum í’ann. Raunar ítrekað með öllum tiltækum ráðum, gegnum tölvupóst, smáskilaboð, símtöl og skildum eftir skilaboð á símsvaranum hans, skilurðu? Ekkert svar. Ekkert svar. Ég meina, við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að eiga samtalið eða bara snæða saman, morgunverð, hádegisverð eða kvöldverð. Fara í hljóðverið og músisera. Komdu til mín eða ég kem til þín. Skellum okkur á hestbak eða slöppum af á ströndinni. Hvað langar þig að gera, lagsi? Hvað sem er. Hittumst bara. En ekkert.”

Hagar kveðst meira að segja hafa dustað rykið af gamalli fleygri setningu sem Alex mun hafa sagt við hann: „Við erum ekkert að yngjast!” En allt kom fyrir ekki, Alex Van Halen tók aldrei upp tólið. Hagar kveðst alls ekki erfa það við trymbilinn enda sé hann hlédrægur maður og engin dæmi séu um að hann hafi farið á svið með öðrum en bróður sínum heitnum. „Þess utan seldi hann allan búnaðinn sinn. Það var ákveðin yfirlýsing. Hey, ég fer hvurgi.“

Að sögn Hagars hvatti Bonham þá frekar en latti til að ganga á eftir Alex. „Ég segi ekki já fyrr en Alex er búinn að segja nei,“ hafði Hagar eftir Bonham í þættinum Trunk Nation á miðlinum Sirius XM.

Í samtalinu við Ultimate Classic Rock kveðst Hagar þó vongóður um að Alex komi til með að láta sjá sig á einhverjum af þeim tónleikum sem fram undan eru en túrnum lýkur 31. ágúst í St. Louis, Missouri. Það yrði þó frekar sem gestur í sal en gestur á sviði.

Móðgaði Roth gróflega

Hagar leysti David Lee Roth af sem söngvari Van Halen á sínum tíma. Hægt er að útiloka að sá síðarnefndi komi til með að stíga á svið með þeim félögum í sumar eftir að Hagar og Roth létu aursletturnar ganga hvor yfir annan fyrr á þessu ári í tilefni af túrnum, eins og fram hefur komið á síðum þessa blaðs. Fyrir einhvern misskilning héldu einhverjir að til stæði að hafa Roth sem fullgildan meðlim í bandinu en Hagar hélt nú ekki og var fljótur að leiðrétta þetta, Roth mætti svo sem taka eitt eða tvö númer á einum tónleikum – myndi hann þá textana. Roth móðgaðist að vonum heiftarlega og sletti vænni slummu af skyri til baka.

Hagar kom einnig við í útvarpsþætti Howards Sterns nýlega til að kynna verkefnið og þar kom fram að um þessar mundir séu einmitt tuttugu ár síðan þeir fjórmenningar, hann, Anthony og Van Halen-bræður, komu síðast saman eftir langt hlé. „Við Mike erum sammála um að ekki sé hægt að bíða önnur tuttugu ár. Hversu lengi kem ég til með að geta sungið þessi lög? Hversu lengi kem ég til með geta staðið í þessu yfir höfuð,“ sagði Hagar sem verður 77 ára í haust. „Þess vegna er kominn tími til að gleðja aðdáendurna.“

Hver væri svo sem ekki til í að sjá kappann spreyta sig á þessu giggi 97 ára gamlan?

Hvaða söngvara vantar?

Eddie Van Halen er einn mesti virtúós gítarsögunnar í rokkheimum. Hann fæddist í Amsterdam árið 1955 en flutti sjö ára gamall til Bandaríkjanna ásamt foreldrum sínum og bróður. Þeir Alex stofnuðu Van Halen 1972 og fyrsta breiðskífan, sem ber nafn sveitarinnar, kom út 1978. David Lee Roth söng á sex fyrstu plötunum og þeirri síðustu, sem kom út 2012, en Sammy Hagar á fjórum þar á milli. Hurðu, lagsi, vantar þá ekki eina plötu? Jú, það er laukrétt. Við erum að tala um Van Halen III frá 1998. Og hver ætli hafi sungið á henni? Einhver?

Það hefði ég nú haldið, Gary Cherone.

Hvergi hefur þó verið minnst á hann í sambandi við tónleikahaldið nú. Ekki heldur Wolfgang Van Halen, einkason Eddies, sem gegndi stöðu bassaleikara í Van Halen seinustu árin sem faðir hans lifði en Eddie féll frá eftir langvarandi veikindi haustið 2020.

Ekki fylgir sögunni hvort Hagar reyndi að komast í samband við hann. Og hvort hann þá svaraði eða ekki.