Longdawn Mennirnir voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Longdawn Mennirnir voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
Skipstjóri og stýrimaður flutningaskipsins Longdawn voru í gær dæmdir í skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness. Stýrðu þeir skipinu sem rakst á strandveiðibátinn Höddu í maí með þeim afleiðingum að bátnum hvolfdi og var skipstjóri Höddu hætt kominn

Skipstjóri og stýrimaður flutningaskipsins Longdawn voru í gær dæmdir í skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness.

Stýrðu þeir skipinu sem rakst á strandveiðibátinn Höddu í maí með þeim afleiðingum að bátnum hvolfdi og var skipstjóri Höddu hætt kominn.

Mennirnir voru ákærðir fyrir hættubrot og brot gegn lífi og líkama og siglingalögum. Játuðu þeir báðir sök við þingfestingu.

Skipstjóri Longdawn var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur siglingaréttindum í þrjá mánuði og stýrimaðurinn í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Í ákæru segir að skipstjórinn hafi gefið 2. stýrimanni skipsins fyrirmæli um að halda áfram, þrátt fyrir að stýrimaðurinn hafi upplýst skipstjórann um áreksturinn og að hann teldi sig hafa séð Höddu vera að sökkva.

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að skipstjóri og stýrimaður Longdawn hafi stofnað lífi skipstjóra Höddu í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt. Er þá litið til þess að skipstjórinn var undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna við stjórn skipsins og þannig óhæfur til þess með fullnægjandi hætti en hann gaf, sem fyrr segir, undirmanni sínum fyrirmæli um hvernig hann skyldi haga för skipsins.