— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hinn kosturinn er í rauninni hrikalegur. Hann gerir ráð fyrir því, að varaforsetinn og öll ríkisstjórnin komi saman til þess, að segja að óhjákvæmilegt sé að svipta forsetann stöðu sinni, þar sem í ljós hafi komið að hann sé ófær orðinn til að gegna embætti sínu.

Það vakti óneitanlega nokkra undrun, þegar Clooney leikari tilkynnti fyrir fáeinum dögum, að því miður væri orðið algjörlega óhjákvæmilegt að Joe Biden forseti yrði þegar í stað að hverfa frá ákvörðunum sínum um forsetaframboð. Þá voru einungis fáeinar vikur liðnar frá því, að gleðiríkar myndir birtust af Barack Hussein Obama, fyrrum forseta Bandaríkjanna, ásamt Joe Biden, núverandi forseta, gleiðbrosandi með George Clooney, að loknu árangursríku söfnunarkvöldi, með öllum hinum fögru, spennandi og ekki síst ofurríku í Hollywood og nágrenni, sem vissu ekki aura sinna tal og spöruðu sig hvergi, þegar þeir létu stóru summurnar falla niður í baukana, sem Joe Biden höndlaði svo hamingjusamur þetta kvöld og nokkur önnur á meðan hann var staddur í hinni kátu Kalíforníu.

Allt eru þetta þekktar stærðir. En sú mynd sem eftir lifði var sú, þegar Biden virtist gleyma sér um stund og Obama greip um úlnlið hans og leiddi hann út af sviðinu, eins og þar væri lítið barn, sem hefði týnt mömmu sinni, þegar það gleymdi sér á leikvellinum. Þessi framganga Baracks Obama var með öllu óþörf og nánast niðurlægjandi af fyrrum forseta, að umgangast einn af eftirmönnum sínum og bera sig þannig að við fyrrverandi varaforseta sinn. En Biden var auðvitað, eins og komið var, hærra settur en fyrirrennarinn, þótt sá sami vilji helst gleyma því, þegar hentar.

Aðeins þremur vikum síðar tók hinn frægi, fallegi og ríki það að sér, að höfðu samráði við Obama, að krefjast þess bréflega, að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hætti við framboð, en hafði fyrir aðeins fáeinum vikum, ásamt kollegum sínum úr sömu stétt, sáldrað yfir forsetann gullkornum í öllum skilningi orðsins.

Fremur fáum datt í hug, að hið kurteisa kvennagull hefði tekið þetta upp hjá sjálfum sér. Ekki löngu síðar var upplýst af hálfu leikarans að hann hefði borið bréf sitt undir Barack Obama. Það var til þess tekið fyrir tæpum fjórum árum, hversu lengi Obama fyrrum forseti dró það að lýsa yfir stuðningi við Joe Biden, fyrrum varaforseta sinn, og varð að lokum allra manna seinastur til þess að rétta upp hönd sína, honum til stuðnings við framboðið.

Samsæriskenningar skammt undan

Það kom allmörgum á óvart, að Joe Biden forseti samþykkti allt í einu að eiga kappræður við Donald Trump. Biden hafði að vísu sett allmörg og allt að því ósanngjörn skilyrði og margvíslegar hömlur, gegn því að hann myndi að lokum samþykkja að kappræðurnar við Trump færu fram. En öllum að óvörum samþykkti Trump öll skilyrðin og það algjörlega athugasemdalaust. Og jafnvel þau skilyrði, að CNN færi ein stöðva með stjórn þáttarins og væri þar með ein með tvo stjórnendur úr sínum röðum. CNN má eiga það, að hafa aldrei leynt andúð sinni og andstyggð á Donald Trump. Kannski hafa Joe Biden forseti og helstu aðstoðarmenn hans í Hvíta húsinu treyst því, að Trump myndi aldrei samþykkja öll hin hörðu skilyrði, sem Biden stakk upp á, og forsetinn hefði þannig komist hjá því að eiga kappræðurnar við Trump, sem þeir í Hvíta húsinu vissu að gæti orðið hættuspil og jafnvel farið mjög illa. Sem það fór.

Annað, sem vakti athygli og þó einkum síðar, var hversu snemma „Joe Biden“ vildi að kappræðurnar færu fram, eða seint í júní, tæpum fimm mánuðum fyrir kjördag, sem fyrir liggur að verði 5. nóvember 2024.

Kappræðurnar fóru fram og ekki er um það deilt að Donald Trump vann þar afgerandi sigur. En þegar betur var að gáð, var það ekki megineinkenni þeirra, að Donald Trump forsetaefni repúblikana ynni svo glæsilega í kappræðunum. Jú, Trump vann vissulega þann slag. En það var annað sem kom á daginn, sem skipti meira máli. Skipti reyndar öllu máli. Það var að Joe Biden tapaði kappræðunni svo illa og með svo miklum yfirburðum, að það tæki í framhaldinu yfir alla umræðu í landinu næstu dagana á eftir. En einn var sá aðili, sem þurfti ekki að bíða eins né neins. Hann vissi hvernig kapallinn var lagður. Ritstjórn New York Times, sem í áratugi hefur fylgt demókrötum fast að málum, hvernig svo sem stendur í ból þess flokks og „stórblaðið“ var tilbúið með leiðara, eins konar stóradóm, um að Joe Biden ætti ekki, úr því sem komið væri, annan kost en þann, að hverfa úr framboði til forseta, ekki seinna en strax!

Og það sem var þó allra mest sláandi að auki, hvernig fjölmargir úr flokki demókrata brugðust við, nánast eins og þar færu viðbúnaðarsveitir lögreglu og eldvarnaeftirlits allar af stað í einu. Og ekki síst hitt, hversu fljótt þeir tóku við sér. Dagskipunin virtist vera að þennan eld hlyti flokkurinn að kæfa í fæðingu, algjörlega óháð því, hver yrðu örlög Joes Bidens eftir þau viðbrögð. Hann var nú orðinn óþekkt stærð, sem engu máli skipti lengur. Á þeim vikum sem fóru í hönd var mikið þingað í flokki demókrata og var fátt gefið upp. Loks var það þó einn af hundruðum þingmanna í fulltrúadeildinni sem lýsti því svo fyrstur yfir, að hann gæti ekki annað en krafist þess að Joe Biden myndi þegar í stað falla frá því að vera í framboði 5. nóvember næstkomandi. Og dagana á eftir tíndist einn og einn til viðbótar í þann hóp, harmi sleginn og miður sín, að eigin sögn yfir því, að hann gæti ekki annað en gert svipaða kröfu til Bidens og sá sem síðast opnaði sig.

NATO boðar stórafmæli og Biden blaðamannafund!

Það gerði alla þessa miklu atburði enn snúnari fyrir vikið, að þessa daga fór fram mikil afmælishátíð í Washington, til þess að fagna 75 ára afmæli NATO, eins og fyrr sagði. Joe Biden forseti Bandaríkjanna var auðvitað gestgjafi þessa mikla atburðar og þurfti að sinna hverjum og einum af æðstu mönnum hvers lands og vera í fyrirsvari. Ekki er vitað annað en að það hafi allt farið vel. Það kom mörgum á óvart, og olli óneitanlega nokkrum ótta í röðum stuðningsmanna Bidens, þegar Hvíta húsið tilkynnti að forseti Bandaríkjanna myndi, þegar eftir að NATO-fundi lyki, ákveðið bjóða blaðamönnum til fundar við sig í NATO-salnum. Ráðgert væri að sá fundur stæði í um það bil 90 mínútur. Það var einmitt sami tími og olli Biden öllum sínum erfiðleikum í kappræðunni við Donald Trump.

Joe Biden forseti tilkynnti þá, að þótt hann yrði þann dag allan að sinna afmælisfundi Atlantshafsbandalagsins myndi hann jafnframt halda tölu um árangur hins mikla fundar og svo sitja fyrir svörum blaðamanna að lokinni ræðu sinni. Gera mætti ráð fyrir að erindishlutinn tæki um 30 mínútur í flutningi og þá myndi hann styðjast við „teleprompter“. En þegar kæmi að hlut blaðamanna á fundinum væri gert ráð fyrir því, að sá hluti stæði í 55-60 mínútur. Þá myndi forsetinn standa einn í púltinu, og án nokkurra hefðbundinna hjálpartækja, og leitast við að svara þeim spurningum, sem blaðamönnum á fundinum lægju helst á hjarta.

Ekki hafa margir fundir af þessu tagi fengið mikla hlustun. En fyrir skömmu hlustuðu 50 milljónir manna á kappræður Donalds Trumps og Joes Bidens og þær fóru eins og þær fóru, og flestum ber saman um, að þær hafi valdið þáttaskilum. Og þeirrar skoðunar voru margir öflugir menn í Demókrataflokknum, bæði helsti valdakjarni flokksins og ekki síður þeir, sem höfðu, eins og áður, tekið upp stóra veskið sitt og sveiflað því, svo allir mættu sjá, en slíkir hafa lengi haft mikil áhrif í bandarísku flokkunum, ekki síst í krafti sinnar bólgnu buddu.

Biden stóð sig betur en væntingar stóðu til

Eftir langan vinnudag í tengslum við NATO-fundinn töldu margir að gera mætti ráð fyrir því, að nokkuð myndi bera á fáeinum glöpum, sem forsetinn er sem kunnugt er orðinn nokkuð frægur fyrir. Og vissulega var enginn skortur á slíku að þessu sinni, og sumt var óneitanlega æði kúnstugt og mátti auðveldlega hafa slíkt í flimtingum eða hafa gaman af. Og það var gert agjörlega svikalaust. En svo allrar sanngirni sé gætt, má segja að Joe Biden hafi staðið sig betur en búist hafði verið við á hinum langa blaðamannafundi, í framhaldi af formlegri og ágætri ræðu sinni. Vissulega höfðu fyrr um daginn hrokkið út úr honum mjög kúnstugar yfirlýsingar, sem menn gátu haft gaman af. Þegar hann bauð forseta Úkraínu að tala bað hann „Pútín“ um að gjöra svo vel. Hann var þó fljótur að bæta úr því og gaf þá skýringu að honum væri svo umhugað að taka fast á móti Pútín, að hann hefði fylgt með í kynningu á forseta Úkraínu. Og átta eða níu sinnum missti hann þráðinn, sem hann hafði fylgt, og hætti þá í miðri setningu og sagði þá jafnan „anyway“, sem gat þýtt „hvað sem því líður“, eða eitthvað því um líkt. Og hvað sem því líður, þá komst Biden oftast ágætlega frá þeim mörgu spurningum, sem fyrir hann voru lagðar og augljóst var að hann var mun betur heima en vænta mátti og rökstuddi mál sitt oft og tíðum prýðilega. Ef til dæmis væri gerður samanburður á kappræðunni við Donald Trump annars vegar, og blaðamannafundinum hins vegar, þá slapp Joe Biden mun betur frá hinu síðarnefnda og á því var enginn vafi. En óneitanlega urðu sum svör Bidens verulega eftirminnileg, eins og það þegar hann var að ræða spurningu um traust sitt á Kamala Harris, þá kom svarið einhvern veginn svona út: „Ég hefði aldrei skipað Trump sem minn varaforseta ef ég hefði ekki haft fulla trú á henni.“

En hvað sem öllu þessu líður, þá heldur bréfritari sig við það, að í meginatriðum hafi blaðamannafundurinn verið margfalt heppilegri fyrir Joe Biden en kappræðurnar við Donald Trump reyndust. En það er þó óneitanlega sláandi að miklir valdamenn, eins og Barack Obama fyrrum forseti, leiðtogi öldungadeildarinnar, Chuck Schumer, Pelosi, fyrrum forseti fulltrúadeildarinnar, og sumir segja raunar að Bill Clinton sé einnig í þeim hópi, ásamt Hillary konu sinni, séu öll þegar búin að gefa Joe Biden upp á bátinn.

En hvað sem öllu þessu líður eru margir sem benda á, að gegn andmælum Joes Bidens verði hann ekki flæmdur úr stöðu forseta Bandaríkjanna eða frá því að verða óhjákvæmilega frambjóðandi Demókrataflokksins við forsetakjör 5. nóvember nk.

Og enn er bent á, að Joe Biden einn hefur hönd á 200 milljónum dollara, sem nú eru í kosningasjóðnum, sem kosta skulu baráttu flokksins, þá tæpu fjóra mánuði sem eru enn til kosninganna í nóvember.

Og þeir, sem færa fram fyrrnefnd rök, benda á að það sé ekki aðeins að Joe Biden haldi um taumana á tvö hundruð milljónum dollara, heldur geti hann ekki framselt þær í hendur neinum öðrum frambjóðanda en Kamala Harris!