Kerfi Félagið vildi innleiða sama kerfi og var á Landspítalanum
Kerfi Félagið vildi innleiða sama kerfi og var á Landspítalanum — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljósmæðrafélag Íslands skrifaði undir nýjan kjarasamning á fimmtudag. Hafði eldri samningur við félagið runnið út 31. mars og mun því hinn nýi samningur vera afturvirkur til 1. apríl. Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands,…

Ljósmæðrafélag Íslands skrifaði undir nýjan kjarasamning á fimmtudag. Hafði eldri samningur við félagið runnið út 31. mars og mun því hinn nýi samningur vera afturvirkur til 1. apríl.

Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé um mikla hækkun að ræða en félagið skrifaði í raun undir sömu samninga og Viska – stéttarfélag sérfræðinga – en Viska var fyrst af aðildarfélögum BHM til þess að skrifa undir kjarasamning við ríkið.

„Við erum að skrifa undir sama kjarasamning og Viska og það er sama hækkun og allir aðrir eru að fá af því að við viljum sýna ábyrgð líka og það vilja allir að vextir lækki,“ segir Unnur og bætir við:

„Það vilja náttúrulega allir lækka stýrivexti og okkur er sagt það alls staðar að til þess þá þurfi að gera raunhæfa kjarasamninga.“

Hafi þá kjarasamningurinn aðallega snúið að stofnanasamningum. Fól hann í sér að ljósmæður lækki ekki í grunnröðun og hafi minna starfsþróunarkerfi.

„Við vorum ekki tilbúin til að lækka grunnröðun ljósmæðra til þess að innleiða starfsþróunarkerfi,“ segir Unnur og bætir við að í hinu nýja starfsþróunarkerfi hafi átt að meta bæði starfsreynslu og sí- og endurmenntun fyrir launahækkanir, í stað þess að einungis meta starfsreynslu.

„Við vildum bara innleiða sama kerfi og var á Landsspítalanum en ríkið var ekki tilbúið til þess nema að lækka grunnröðina okkar,“ segir Unnur og nefnir jafnframt að félagið hefði ekki skrifað undir þannig samning.

Segist Unnur vonast til að félagsmenn félagsins kjósi með samningnum en það komi í ljós í næstu viku er samningurinn verður kynntur.