Fiskisúpa Súpukvöldið var fastur liður í tengslum við Fiskidaginn mikla.
Fiskisúpa Súpukvöldið var fastur liður í tengslum við Fiskidaginn mikla. — Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sæþór Már Hinriksson saethor@mbl.is Þrátt fyrir að stórhátíðin Fiskidagurinn mikli sé úr sögunni ætla Dalvíkingar og nærsveitamenn að reyna að halda í einhverjar hefðir sem hátíðin skapaði, þó án stórtónleika og tugþúsunda gesta.

Sæþór Már Hinriksson

saethor@mbl.is

Þrátt fyrir að stórhátíðin Fiskidagurinn mikli sé úr sögunni ætla Dalvíkingar og nærsveitamenn að reyna að halda í einhverjar hefðir sem hátíðin skapaði, þó án stórtónleika og tugþúsunda gesta.

Fiskisúpan verður þar í öndvegi en garðveislur hafa verið mikilvægur liður í hátíðarhöldunum þar sem Dalvíkingar, brottfluttir og ættingjar hafa heimsótt sitt fólk og leyft gleðinni að ráða för.

Engin opinber dagskrá er áætluð þessa helgi, 9. til 11. ágúst, sem hefur hingað til verið ein helsta hátíðarhelgi landsins, sér í lagi á Dalvík. Að sögn starfsmanns á tjaldsvæðinu á Dalvík er þó ekki meira bókað þessa helgi en aðrar helgar sumarsins.

Haft var samband við Júlíus Júlíusson, fyrrverandi framkvæmdastjóra hátíðarinnar, og Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar til að heyra hvað muni verða gert í staðinn fyrir Fiskidaginn mikla.

Fiskisúpuveislur í görðunum

Júlíus Júlíusson, oft nefndur fiskidagskóngurinn, staðfesti að engin opinber dagskrá væri á döfinni þessa helgi.

„Það er ekkert um að vera á okkar vegum þannig séð. Fiskidagurinn er bara búinn,“ sagði hann. Hann bætti við að einhverjir íbúar kynnu að halda fiskisúpuveislur í sínum eigin görðum, en ekkert væri formlegt. Hann tók fram að þetta væri fyrsta sumarið þar sem hann fengi raunverulegt frí eftir mörg ár af stanslausri vinnu við hátíðina.

Júlíus sagði ákvörðunina um að hætta hátíðinni hafa verið tekna vegna mikilla breytinga á samfélaginu og aukinna öryggiskrafna.

„Ábyrgðin er einnig orðin gríðarleg,“ sagði hann og benti á aukinn kostnað og hertar kröfur um öryggisráðstafanir. Hann nefndi einnig að breytt þjóðfélag og aukin hætta á ofbeldisverkum hefði leitt til þess að ekki hefði verið hægt að halda áfram með hátíðina á sama hátt og áður.

„Þeir skilja þetta mjög vel sem hafa kynnt sér málin. Svo eru aðrir auðvitað ekkert glaðir að missa gleðistundina sína,“ sagði Júlíus.

Eyrún sveitarstjóri staðfesti jafnframt að ekkert formlegt væri á dagskrá þessa helgi. „Ég hef bara heyrt að margir ætla að fá ættingja sína og búa til súpu heima hjá sér,“ sagði Eyrún og bætti við að hún ætlaði að nýta tækifærið til að njóta veðursins og fara í veiðiferð með vinkonum sínum, sem væri orðin árleg hefð. „Þetta er mikil eftirsjá og söknuður, en þetta er ákvörðun sem stjórn Fiskidagsins tók og maður virðir hana,“ sagði Eyrún.

Öll ævintýri eiga sér sinn tíma

Þrátt fyrir að Fiskidagurinn mikli sé ekki lengur haldinn, er ljóst að íbúar Dalvíkur og gestir munu finna sér leiðir til að njóta sumarsins á sinn hátt, hvort sem það felur í sér heimilislegar veislur eða rólegar veiðiferðir. „Öll ævintýri eiga sér sinn tíma,“ segir Júlíus fiskidagskóngur.

Höf.: Sæþór Már Hinriksson