Naloxón Ráðuneytið dreifði tæplega 3 þúsund naloxón-nefúðum í fyrra.
Naloxón Ráðuneytið dreifði tæplega 3 þúsund naloxón-nefúðum í fyrra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Heilbrigðisráðuneytið dreifði 1.437 pakkningum af nefúðalyfinu naloxón á síðasta ári. Í hverjum pakka eru tveir úðarar og var þá 2.874 úðurum dreift í heildina. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins

Heilbrigðisráðuneytið dreifði 1.437 pakkningum af nefúðalyfinu naloxón á síðasta ári. Í hverjum pakka eru tveir úðarar og var þá 2.874 úðurum dreift í heildina. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Lyfinu var dreift á 24 aðila víðs vegar um landið á síðasta ári, meðal annars til Frú Ragnheiðar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, göngudeildar SÁÁ á Vogi ásamt fleirum.

Áætlaður kostnaður við dreifingu lyfsins eru þrjár til fimm milljónir á ári.

Naloxón-nefúði er mótefni við of stórum skammti ópíóðalyfja og er notað sem neyðarmeðferð.

Ekki von á lausasölu

Lyfið er nú aðgengilegt á Íslandi sem tvö lyf. Annars vegar í nefúðaformi og hins vegar sem stungulyf. Er því þá sprautað í æð eða vöðva. Þau eru þó bæði lyfseðilsskyld og ekki eins aðgengileg og ef þau væru í lausasölu. Víða erlendis eru dæmi um að notkun lyfsins hafi dregið úr dauðsföllum vegna ofneyslu ópíóða eftir að aðgengi að nefúðanum var aukið.

Lausasala á lyfinu hefur verið í skoðun hjá ráðuneytinu síðan í apríl í fyrra en helsta hindrunin í að lyfið komist í lausasölu í apótekum felst í samningsskuldbindingum markaðsleyfishafa lyfsins við þriðja aðila í Noregi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að hindrun á markaðsleyfi hafi ekki áhrif á þá dreifingu sem þegar er til staðar

„Markmiðið er greitt aðgengi einstaklinga, allra viðbragðsaðila og annarra þjónustuveitenda svo hægt sé að bregðast hratt við ef upp kemur ópíóðaskömmtun.“