Mjóddin ÍR-ingar skoruðu þrjú mörk gegn Grindvíkingum í gærkvöld.
Mjóddin ÍR-ingar skoruðu þrjú mörk gegn Grindvíkingum í gærkvöld. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
ÍR-ingar héldu áfram að koma á óvart í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöld þegar þeir unnu sannfærandi sigur á Grindvíkingum, 3:0, á heimavelli sínum í Mjóddinni. Staðan var markalaus í hálfleik en Grindvíkingar skoruðu sjálfsmark í byrjun síðari hálfleiks

ÍR-ingar héldu áfram að koma á óvart í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöld þegar þeir unnu sannfærandi sigur á Grindvíkingum, 3:0, á heimavelli sínum í Mjóddinni.

Staðan var markalaus í hálfleik en Grindvíkingar skoruðu sjálfsmark í byrjun síðari hálfleiks. Renato Punyed kom ÍR fljótlega í 2:0 og Bragi Karl Bjarkason innsiglaði sigurinn með þriðja markinu.

Bragi er nú markahæsti leikmaður deildarinnar með átta mörk en hann varð markakóngur 2. deildar með ÍR í fyrra og skoraði þá 21 mark.

ÍR komst með sigrinum upp fyrir Grindavík og í fjórða sætið með 19 stig en nýliðarnir hafa aðeins tapað þrisvar í fyrstu tólf umferðum deildarinnar eftir erfiða byrjun á tímabilinu. Í síðustu leikjum hafa þeir einnig lagt Aftureldingu, Gróttu og Fjölni að velli og gert jafntefli gegn ÍBV.

Grindvíkingar eru áfram með 17 stig og eru nú í fimmta sæti en þeir hefðu jafnað við Njarðvíkinga í öðru sæti deildarinnar með sigri í leiknum.