Breytingar Á svæði við vesturhlið Fífunnar verður byggður nýr gervigrasvöllur í haust. Völlurinn mun uppfylla kröfur FIFA Quality-staðalsins.
Breytingar Á svæði við vesturhlið Fífunnar verður byggður nýr gervigrasvöllur í haust. Völlurinn mun uppfylla kröfur FIFA Quality-staðalsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ráðgert er að framkvæmdir við nýjan æfingavöll Breiðabliks við Fífuna í Kópavogi hefjist í ágúst og verklok verði í nóvember. Útboð stendur nú yfir á þremur verkþáttum; jarðvegsvinnu, lýsingu vallar og lagningu á gervigrasi

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Ráðgert er að framkvæmdir við nýjan æfingavöll Breiðabliks við Fífuna í Kópavogi hefjist í ágúst og verklok verði í nóvember. Útboð stendur nú yfir á þremur verkþáttum; jarðvegsvinnu, lýsingu vallar og lagningu á gervigrasi. Morgunblaðið spurðist fyrir um kostnaðaráætlun verksins en samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ er hún trúnaðarmál.

Nýi völlurinn verður við vesturhlið Fífunnar við Dalsmára í Kópavogi og er ætlaður til æfinga og keppni allra aldursflokka hjá Breiðabliki. Grasflöt er nú á umræddu svæði og er hún til að mynda notuð á Símamótinu sem nú stendur yfir.

Framkvæmd þessi kallaði á breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals. Í tillögu að breyttu aðalskipulagi kemur fram að völlurinn verður upphitaður æfingavöllur lagður með gervigrasi

í samræmi við alþjóðlega staðla hvað varðar stærð og gerð. Girðing í kringum völlinn verður að hámarki fjögurra metra há. Flóðljós verða við völlinn en leyfileg hámarkshæð ljósmastranna verður 21,3 metrar. „Ljósstyrkur verður að jafnaði 200 LUX en að hámarki 300 LUX á keppnisleikjum 2. flokks og meistaraflokks,“ segir í tillögunni.

„Nýr byggingarreitur fyrir tæknirými er allt að 45 m, ásýnd þess skal vera svo minnst beri á því. Heimilt er að steypa fyrir tveimur varamannaskýlum innan girðingar gervigrasvallarins. Bílaplan sunnan við völlinn minnkar í samræmi við völlinn, öryggissvæðið og gróður. Kvöð er um gróður líkt og uppdráttur greinir frá, núverandi gróður helst óbreyttur. Aðkoma neyðarbíla vestan við Fífuna helst óbreytt,“ segir þar enn fremur.

Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ er útboð fyrir jarðvinnu opið til 22. júlí en útboð fyrir lýsingu vallar og lagningu á gervigrasi er opið til 6. ágúst.