Jósefína Friðriksdóttir fæddist 5. maí 1942. Hún lést 25. júní 2024.

Útför Jósefínu fór fram 4. júlí 2024.

Það er stórt skarð fyrir skildi í mínu lífi nú þegar hún Jósý er farin. Foreldrar mínir, Jósý og maðurinn hennar hann Mundi kynntust öll innbyrðis þegar þau voru við nám við Menntaskólann á Akureyri seint á 6. áratugnum. Þar urðu til tvö hjónabönd og traust vinátta sem entist alla ævi þeirra en Jósý er núna sú síðasta af þeim til að kveðja. Faðir minn og Mundi fóru í læknisfræði og urðu kollegar, faðir minn læknir í Reykjavík en Mundi lengst af læknir í Laugarási í Biskupstungum. Þegar ég var barn var sérstakt tilhlökkunarefni að fara í heimsókn í Laugarásinn til Jósýjar og Munda en það var yfirleitt gert nokkrum sinnum á ári og gist einhverjar nætur. Sérstaklega þótti mér vænt um Jósý. Hún umvafði mig hlýju og umhyggju. Sýndi mér athygli, gaf sér tíma til að spjalla við mig um daginn og veginn og átti alltaf gott í gogginn. Jósý var alveg sérstök uppáhaldsmanneskja mín á þessum æskuárum og dálítið eins og önnur mamma. Það eru sólargeislar í mínu hjarta að minnast þessara tíma og á þar hún Jósý sannarlega stærstu geislana. Svo náðu sólargeislarnir frá Jósý til næstu kynslóðar því eins og Jósý umvafði mig sem barn vafði hún líka börnin mín með sömu hlýju og gæsku og hún veitti mér. „Eigum við ekki að fara að heimsækja Jósý?“ spurðu börnin mín með tilhlökkun rétt eins og ég spurði foreldra mína. Því miður urðu hvorki faðir minn né Mundi langlífir en eftir stóðu Jósý og móðir mín. Þær voru hreinlega eins og systur og ég held að þær hafi talað saman daglega árum saman og heimsóttu hvor aðra mjög reglulega þótt móðir mín byggi í Reykjavík en Jósý á Selfossi. Þannig var Jósý áfram stór hluti af fjölskyldu minni og stoð og stytta fyrir móður mína með sinni hlýju og hjálpsemi. Það munaði svo sannarlega um Jósý þegar móðir mín greindist með alzheimer fyrir nokkrum árum og týndi sjálfri sér smátt og smátt. En Jósý týndi ekki mömmu og var til staðar fyrir hana þar til yfir lauk í fyrra. Sönn vinkona. Þegar móðir mín dó átti ég hana Jósý áfram fyrir mömmu og hélt að hún yrði eilíf því andlega var hún alltaf sú sama með sína endalausu hlýju og velvild. Það var mér og börnum mínum því mikið högg þegar hún fór svona skömmu á eftir vinkonu sinni. Ungmennin fjögur í Menntaskólanum á Akureyri forðum, sem áttu sinn lífsins veg, eru núna öll farin en minningin um þau lifir. Farðu í friði kæra Jósý. Þú verður alltaf geymd í hjarta mínu og minna og þannig lifir áfram sólargeislinn frá þér. Innilegar samúðarkveðjur til Helgu, Sigga, barna þeirra og fjölskyldu allrar.

Valdemar Johnsen.

Fallin er frá yndisleg vinkona, vinkona sem okkur þótti svo óskaplega vænt um. Samverustundirnar hafa verið ótalmargar og gefandi. Stundir sem við munum eiga í minningunni og ylja okkur við. Jósefínu fannst gaman að taka á móti gestum og það var gaman að vera gestur hjá henni. Jósefína stjanaði við þá og veitti vel. Dóttir Önnu sagði eitt sinn að mamma sín væri eins og prinsessa þegar hún væri í heimsókn hjá Jósefínu og það voru orð að sönnu. Á milli Jósefínu og Önnu var innilegt samband, mikil væntumþykja og virðing. Oft hugsaði Anna hvað það væri gaman að lifa lífinu eins og Jósefína því hún átti fjölda vina sem hún ræktaði sambandið við og var í sífellu að hitta hina og þessa og fara í ýmsar ferðir. En uppáhaldsferðirnar voru án efa með fjölskyldunni í Flatey og fyrir þær ferðir bakaði hún, sultaði og sauð. Hún var afskaplega virk allt til loka. Söknuðinn verður erfitt að takast á við og tómarúmið mikið. Elsku Helga, Siggi, Hrafnkell, Bergsteinn og Þórhildur. Missir ykkar er mikill en við minnumst þess hvað Jósefína var óskapleg stolt af ykkur öllum. Innilegar samúðarkveðjur.

Anna, Þorvaldur,
Halldóra Guðlaug
og Hallgerður
Freyja.

Elsku Jósý mín.

Ég er svo lánsöm að hafa þekkt Jósý frá því ég var lítið stelpuskott. Hún var mamma æskuvinkonu minnar og fyrsti umsjónarkennari minn í grunnskóla. Hún kenndi mér margt eins og að borða rauðkál og þora að fara út fyrir þægindarammann. Það var yndislegt að koma í Laugarás og það var mitt annað heimili í grunnskóla. Þar leyndust margir krókar og kimar þar sem gaman var að leika sér. Jósý var einstök í að búa til góða stemningu og ýta undir sköpunarkraft þeirra sem í kringum hana voru.

Jósý var frábær fyrirmynd og kennari, dásamleg „skámamma“ og vinkona. Ég er þakklát fyrir allar þær frábæru samverustundir sem við áttum og finnst sérstaklega skemmtilegt að hún var umsjónarkennari Sigga míns í Ölduselsskóla – og synir mínir kölluðu hana „ömmu Jósý“ og elskuðu pönnukökurnar hennar og kæfu að ógleymdum ostastöngunum sem gerðar voru fyrir jólin.

Takk fyrir allt elsku Jósý, við munum sakna þín mjög mikið en þökkum um leið fyrir allt það frábæra sem þú gerðir fyrir okkur og heiminn. Þú bættir allt og gafst lífinu lit.

Kveðjur úr Grenigrundinni,

Guðbjörg,
Sigurður (Siggi)
og strákarnir.